139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[15:17]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Allt þetta mál frá upphafi þess, löngu fyrir daga þessarar og fyrri ríkisstjórnar, er auðvitað harmsaga. Þetta er engum gleðiefni. Við erum í þessari stöðu sem við erum í núna og þá þurfum við að vega og meta áhættuna á báða vegu. Miðað við þá hugsanlegu áhættu sem fælist í því að málið mundi enda fyrir dómi tel ég sjálfur ásættanlegt að bera þann kostnað sem m.a. fulltrúi stjórnarandstöðunnar metur tæplega 50 milljarða kr. og vera laus við þessa áhættu. Menn mega ekki gleyma ábyrgð sinni í þessu máli. Það fór af stað vegna þess að stjórnarandstaðan lýsti því yfir að hún vildi reyna að vinna að breiðri samstöðu. Hún lagði til formanninn í samninganefndina og hún lagði til frábæran fulltrúa í samninganefndina og fulltrúi hennar setti stafi sína á skjölin. Ella hefði enginn samningur orðið. Það veit hv. þingmaður þannig að þegar menn vega málið og meta verða þeir að horfast í augu við sína eigin ábyrgð á þessu ferli. Það verður formaður Sjálfstæðisflokksins líka að gera. (Gripið fram í.)