139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[15:24]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eitt finnst mér vera aðalatriði þessa máls hvort sem við kjósum að orða það eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson, að okkur beri engin skylda til að leysa þetta mál og jafnvel að við eigum ekki að gera það, eða ekki þá erum við vonandi sammála um að hagsmunir Íslands eiga að ráða mati okkar á því sem við gerum. Reyndar er málið ekki alveg svo einfalt að öllu leyti vegna þess að við vinnum samkvæmt mótaðri stefnu og ályktun Alþingis frá 4. desember 2008 sem er enn í fullu gildi og hún mælir svo fyrir um að framkvæmdarvaldinu beri að reyna að leita samkomulags um lausn þessa máls. Ég veit að ég þarf ekki að rifja þetta upp fyrir hv. þm. Bjarna Benediktssyni sem mælti svo ágætlega fyrir þeirri tillögu á sínum tíma.