139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[15:50]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þó að ekki hafi farið á milli mála að hæstv. forsætisráðherra er fullkomlega sannfærður um gildi nýja samningsins og gerði mikið til að sannfæra þingið um kosti hans, eða tilboðsins réttara sagt, eru þó nokkrir hlutir sem þarf að leiðrétta hjá hæstv. forsætisráðherra, einkum er varðar staðhæfingar hæstv. ráðherra um samninganefndina.

Í fyrsta lagi er ekki rétt að samninganefndin haldi því fram að munurinn á gamla samningnum og þeim nýja sé rúmlega 100 milljarðar kr. Lárus Blöndal samninganefndarmaður talaði á blaðamannafundinum um að kostnaðurinn við gamla samninginn hefði verið um 479 milljarðar kr. og kostnaðurinn við þann nýja 47. Þá er það einfalt reikningsdæmi.

Svo fannst mér hæstv. forsætisráðherra gera tiltölulega lítið úr þjóðaratkvæðagreiðslunni og áhrifum hennar en Lee Buchheit sem ráðherrann vitnaði sérstaklega í hefur margítrekað (Forseti hringir.) að gildi og áhrif þessarar þjóðaratkvæðagreiðslu hafi verið mikil við það að styrkja samningsstöðu Íslands.