139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[15:52]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í því plaggi sem var dreift 9. desember 2010 þegar þessir samningar voru kynntir af samninganefndinni kemur fram samantekt samninganefndar á niðurstöðum viðræðna við bresk og hollensk stjórnvöld vegna Icesave. Ég á von á því að það sé samninganefndin sem hefur staðið að því að semja það sem var lagt fyrir á blaðamannafundi. Í þessu plaggi kemur fram á bls. 4, með leyfi forseta:

„Miðað við núverandi forsendur um heimtur eigna þrotabúsins hefði kostnaður við fyrri samning numið yfir 180 milljörðum króna (um 162 milljarðar að teknu tilliti til eigna TIF). Margt gerir að verkum að kostnaður fer lækkandi, þar skipta mestu lægri vextir“ o.s.frv.

Þarna kemur fram þessi munur, hann kemur fram í þessu sem var afhent fjölmiðlamönnunum og ég geri ráð fyrir því að þegar talað er um samantekt samninganefndarinnar standi allir samninganefndarmenn að henni.