139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[15:53]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ekki stóðu allir samninganefndarmenn að þessu Það var ágreiningur um það hvernig ætti að meta þetta og menn höfðu nefnilega leyft sér það að — ég veit ekki hvernig það kom fyrst til, ég heyrði talað um það fyrir mörgum mánuðum, að menn fóru að núvirða þessar upphæðir framtíðarinnar, gengistryggðar upphæðir með 6% ávöxtunarkröfu, gengistryggðar upphæðir núvirtar, afvaxtaðar með 6% ávöxtunarkröfu, sem er bara fráleitt og engin rök fyrir. Þetta er villa sem festist í kerfinu einhvers staðar. Það er áhyggjuefni í sjálfu sér að ef ein villa kemst einhvers staðar inn losna menn ekki úr henni. Reyndar eru kannski einhverjir samninganefndarmenn, fulltrúar ráðuneytisins, búnir að segja það mikið að það hefur verið erfitt að bakka.

En ég var ekki alveg búinn að klára leiðréttingarnar því að hæstv. forsætisráðherra sagði að Lee Buchheit hefði sagt að það hefði getað haft skelfilegar afleiðingar að fara með málið fyrir dómstóla. Hún er þar líklega að vitna í viðtal í Fréttablaðinu sem mér fannst svolítið skrýtið að var tekið af þeim manni sem var búinn að ganga einna lengst af blaðamönnum í að selja gamla samninginn, ef má orða það þannig, en Buchheit hafði hins vegar lýst því yfir og hefur margoft lýst því yfir, (Forseti hringir.) bæði í viðtölum og á fundum, að vinningsmöguleikar Íslendinga í málaferlum væru afar góðir enda væru þeir (Forseti hringir.) með réttlætið með sér.