139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingasjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:01]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Vegna þess að það er verið að bera saman frásagnir Morgunblaðsins og Fréttablaðsins af ummælum Lees Buchheits langar mig rétt í upphafi að segja það sem ég heyrði hann sjálfan segja sem svar við fyrirspurn minni á fundi sem ég fór á upp í háskóla. Ég spurði hann hvaða líkur hann teldi okkur hafa til að ná hagstæðri niðurstöðu í dómsmáli og hann sagði, og ég heyrði það beint og þarf ekki neinn blaðamann til að túlka það, að það væru mjög góðar líkur, vissulega væri áhætta en hann sagði að það væru mjög góðar líkur.

Hæstv. forsætisráðherra verður mjög tíðrætt um samstöðu. Hún segir hana mikilvæga og ég held að það sé mjög mikilvægt að ná samstöðu núna um meðferð málsins. Því vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra um tímapressuna sem er á málinu. Er ekki fullvíst að hv. fjárlaganefnd fái allan þann tíma sem hún þarf til að vinna í þessu máli? Er ekki öruggt að málið verði ekki tekið út úr nefndinni fyrr en samstaða hefur náðst um það milli allra aðila? Og er ekki öruggt að það verði leitað eftir öllum gögnum (Forseti hringir.) sem nefndarmenn kunna að óska eftir að leitað verði eftir?