139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingasjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:03]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á þessum vetri hefur mikið verið rætt um sjálfstæði þingsins sem þyrfti að efla á alla enda og kanta og því kemur mér það spánskt fyrir sjónir að hér sé forsætisráðherra spurður um meðferð málsins á þingi, hvort þingnefndin fái ekki svo og svo langan tíma til að fjalla um málið (Gripið fram í: … áhrif á þingmenn, skiptir …) o.s.frv. Þetta kom mér undarlega fyrir sjónir. Engu að síður hefur þetta mál verið rætt milli formanna flokkanna, hvernig menn sjái málið fyrir sér, en málið er auðvitað í höndum þingsins. Ég sé fyrir mér að menn muni nýta tímann þar til þing kemur saman aftur til að vinna í málinu í nefnd og þar verður reynt að afla allra þeirra gagna sem þarf í þessu máli og leita þeirra umsagna sem þarf og síðan verður reynt að afgreiða málið fljótlega eftir að þing kemur saman að jólaleyfi loknu.