139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingasjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:06]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef fylgst með þessari umræðu frá byrjun og ég hjó eftir því sem hæstv. forsætisráðherra sagði, að það mikilvægasta í þessu máli núna væri að ná um það sátt. Því miður heyrist mér málið ekki fara af stað í sáttatón. Það veldur mér áhyggjum. Við í Hreyfingunni höfum sjálf rétt fram sáttarhönd í þessu máli sem hefur ekki verið virt viðlits og mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra um það sem veldur okkur mestum áhyggjum eins og öðrum, hvort umtalsverðar fjárhæðir lendi á almenningi í landinu. Við höfum lagt til að það verði skoðað, úr því að þessi samningur lítur svona vel út, að með einhverjum hætti verði reynt að fá þau aðildarfélög að Samtökum atvinnulífsins og Samtökum fjármálafyrirtækja sem beinlínis bera að hluta til ábyrgð á þessum aðstæðum til að taka á sig þessa ábyrgð.

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvað henni finnist um það og hvort henni fyndist ekki að það yrði til marks um sáttarhönd og frekari framgang málsins ef sú leið næðist.