139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingasjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:07]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki tekið undir með hv. þingmanni um að hér sé eitthvað hart tekist á um þá samninga sem hér er verið að ræða, enda hafa allir flokkar staðið meira og minna saman að þessu máli þetta árið og átt sinn fulltrúa í þeirri samninganefnd sem skilaði þessari niðurstöðu. Menn deila hér um útgjöld vegna þessa og hins samningsins sem hafi verið gerður o.s.frv. en ég leyfi mér að túlka þessa umræðu með þeim hætti að menn séu að reyna að ná sátt ef þess er nokkur kostur í þessu máli. Ég vona að þannig verði málsmeðferðin fyrir þingi.

Varðandi það sem hv. þingmaður spyr um hygg ég að það sé ekki raunsætt að halda því fram að bankar og aðrir sem eiga kannski mestan þátt í þessu hruni, ef ég skil hv. þingmann rétt, standi að því að greiða þann kostnað sem af þessum Icesave-samningi hlytist, jafnvel þótt það væri æskilegt.