139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingasjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:08]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Þá höfum við það, það er ætlast til þess að almennir skattgreiðendur í þessu landi taki á sig þennan skell. Ég get seint og erfiðlega fallist á það.

Hitt atriðið sem ég vildi ræða og varðar það að málið fái framgang í einhverri sátt er að talað hefur verið um það meðal flestallra þingmanna sem ég ræði við að þingið fái að fara yfir þetta mál í rólegheitum og yfirvegað til að hér spinnist ekki upp einhver æsingur í kringum það og menn verði látnir afgreiða það á einhverjum handahlaupum með hraði. Ég tel að það sé grundvallaratriði að þingið komi frá þessu máli með sóma og fái að afgreiða það vandlega. Hér heyri ég að nú er málið komið inn í þingið eins og við vitum, það á að vísa því til fjárlaganefndar og nefndir þingsins eiga að vinna í málinu í jólafríinu. Ég ætla bara að lýsa því yfir hér og nú að það verður ekki sátt um þetta mál í fjárlaganefnd eða í þinginu ef það á að keyra það áfram með þessum hætti. Ég skora á ykkur að draga úr æðibunuganginum með þetta mál. Það liggur ekkert á, það er margbúið að spyrja samninganefndina að því. Það liggur ekkert á og ég skora á sjálfan forseta Alþingis líka (Forseti hringir.) úr því að hún er hér í salnum að beita sér fyrir því að þetta mál fái rólega og vandaða meðferð.