139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingasjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:10]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við ræðum Icesave III, væntanlega. Að mínu mati og mínu viti hefur náðst merkileg niðurstaða í þetta mál í þessari lotu. Það lítur út fyrir að samninganefndin sem samdi fyrir hönd Íslands hafi náð umtalsverðum árangri í því að laga málið og bæta stöðu Íslands. Er það vel.

Ég fagna því ef niðurstaðan úr þessari lotu verður sú að Ísland sitji ekki uppi með hærri kostnað af þessu máli en haldið hefur verið fram, þ.e. innan við 50 milljarða kr., og finnst það góð niðurstaða. Ég leyfi mér að tæpa aðeins á að eftir að þjóðin kolfelldi þetta mál í þjóðaratkvæðagreiðslu hefur stjórnarandstaðan tekið fullan þátt í þessu samningaferli á öllum stigum þess og lýst ánægju sinni með það hvernig þetta mál hefur verið unnið. Þetta heitir að sýna ábyrgð og samstarfsvilja. Ég held að niðurstaðan úr þessari samningalotu sé mikið til góð vegna þessa.

Trúverðugleiki ríkisstjórnarinnar eftir síðustu lotu var í molum, hvort sem um er ræða trúverðugleika í reynd eða trúverðugleika í ásýnd. Þar skiptir miklu máli að þingið náði að koma að þessu eitt og óskipt í samningaferlinu þannig að hér höfum við náð mjög merkilegri niðurstöðu. Stjórnarandstaðan hefur rétt fram sáttarhönd, stjórnarliðar líka og nú er málið komið inn í þingið, en eins og ég sagði í andsvari mínu við hæstv. forsætisráðherra áðan heyrist mér málið ekki fara af stað á sérstaklega hógværum nótum. Ég harma það því að ég held að þetta mál sé mikilvægara en það að við megum við því að missa það ofan í skotgrafirnar aftur.

Ég lagði til við hæstv. fjármálaráðherra fyrir nokkrum vikum og lagði það til á fyrsta fundi forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar með formönnum flokkanna uppi í forsætisráðuneyti fyrir um hálfum mánuði að leitað yrði leiða til að öll þessi skuldbinding, hver svo sem hún verður, lendi ekki á herðum skattgreiðenda á Íslandi. Þjóðin hefur þegar hafnað því með 98% niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu og ég efast um að nokkurn tímann náist sátt um það ef útgönguleiðin úr þessu máli verður sú að ríkissjóður taki einn á sig allan þennan kostnað sem lendir svo á almenningi. Þess vegna skora ég enn og aftur á hæstv. fjármálaráðherra og forsætisráðherra að leita leiða til að fá aðila vinnumarkaðarins að þessu máli, Samtök atvinnulífsins og Samtök fjármálafyrirtækja, því að aðildarfélög þessara samtaka bera að stórum hluta ábyrgð á því hvernig fór með því að trekkja hér upp almenning, þingmenn og fyrirtæki til að fara út í þetta óráðsíubrjálæði sem var hér á ferðinni fyrir hrun.

Þessi samtök mættu á flestalla nefndarfundi þingnefnda til að halda fram ákveðinni hugmyndafræði sem hrundi algjörlega til grunna Ef niðurstaðan úr þessu máli verður sú að hugsanlega innan við 50 milljarðar kr. lenda á íslensku þjóðinni sem kostnaður munar aðildarfélög þessara samtaka ekki neitt um að taka hann á sig, þau munu ekki finna fyrir því. Það yrði sáttarhönd sem þessi samtök gætu rétt fram til þjóðarinnar. Og það yrði sáttarhönd sem mundi duga mjög vel og mjög lengi og yrði mikils metin. Þetta er leið sem ég legg eindregið til að leitast verði við að fara og hvet til þess síður en alls annars að ríkissjóður axli þessa ábyrgð aleinn.

Annað sem ég hef áhyggjur af og tæpti á áðan er meðferð þessa máls í þinginu. Það er ekki enn þá búið að ljúka samkomulagi um það með hvaða hætti það verður afgreitt í þinginu. Það er ekki búið að ljúka samkomulagi um það með hvaða hætti fjárlaganefnd á að afgreiða málið. Það var tekið inn í þingið í dag án þess að samkomulag næðist um málsmeðferðina. Það sem ég heyri í samtölum mínum við þingmenn að fari mest í taugarnar á þeim er að framgangur málsins skuli vera með þessum hætti. Það er æðibunugangur á því, hann er óþarfur, það er verið að trekkja fólk á taugum og ég hvet hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra til að fara að tillögu sem formaður þingflokks Samfylkingarinnar varpar oft fram, það er hitt spakmælið sem hún vitnar svo oft í, að menn andi í magann á sér í þessu máli.

Það liggur ekkert á. Það versta sem við gerum er að æsa upp þingið og þingnefndir í einhverju hasti bara vegna þess að forsvarsmenn ríkisstjórnarflokkanna langar að klára málið, langar að sýna hvað í þeim býr, langar að sýna að þau geti keyrt málið í gegn. Það er ekki góð meðferð á þessu máli og niðurstaðan úr því verður í samræmi við það þannig að ég legg mikla áherslu á það, bæði sem þingmaður og nefndarmaður í fjárlaganefnd, að þegar fjárlaganefnd fær málið — eins og staðan liggur fyrir í dag mun fjárlaganefnd funda um það í fyrramálið. Hún ætlar að funda í einn og hálfan tíma með samninganefnd Íslands um þetta mikilvægasta milliríkjamál þjóðarinnar fyrr og síðar. Það er bara alls ekki nóg. Fjárlaganefnd þarf að funda með samninganefnd Íslands í a.m.k. hálfan dag, ef ekki lengur, út af þessu máli. Það má ekki gerast að það verði farið af stað og málið keyrt í gegn með þessum hætti. Ég hvet alla þingmenn og ráðherra til að taka höndum saman um að málinu verði vísað til fjárlaganefndar, fjárlaganefnd taki saman það sem hún telur að þurfi um það í fyrramálið og sendi út til umsagnar og umsagnarfrestur einfaldlega gefinn til 16. janúar. Þegar þing kemur saman að nýju að loknu jólahléi geta menn brett upp ermarnar og tekist á við málið úthvíldir og lausir við mesta æsinginn sem verið hefur í þingsölum undanfarna daga og mun verða ef á að keyra málið áfram.

Eitt sem mig langar að tæpa á í framhaldi af þessu er sú þrákelkni sem ég skynja í viðbrögðum hæstv. fjármálaráðherra og forsætisráðherra við það að viðurkenna þau mistök sem áttu sér stað við gerð fyrri Icesave-samninga. Ég hefði borið virðingu fyrir því ef þau hefðu þorað að koma upp og segja: Þeir samningar voru mistök, það náðust betri samningar, því miður voru fyrri samningarnir gerðir og keyrðir í gegn á forsendum sem voru rangar en nú ætlum við að vanda okkur, við ætlum að gera þetta yfirvegað, við ætlum að taka það rólega og við ætlum að gera það í sátt við allt þingið. Ég hef ekki heyrt það frá forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar enn þá og ég lýsi eftir viðhorfsbreytingu varðandi Icesave hjá forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar um að það þurfi að leysa þetta mál í breiðri sátt í þinginu og við þjóðina og með þátttöku og aðkomu Samtaka atvinnulífsins. Þannig verður okkur best borgið með þetta mál og ég hef heyrt líka að hæstv. utanríkisráðherra hefur tekið undir þessar hugmyndir sem ég hef velt upp um þátttöku atvinnulífsins í þessu máli. Ég lýk orðum mínum með því að hvetja eindregið til þess að það verði skoðað og að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar noti jólafríið í að fá Samtök atvinnulífsins og Samtök fjármálafyrirtækja á sitt band í þessu máli frekar en að æsa upp þingið og þingnefndir í jólafríinu.