139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:42]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef alveg frá því í upphafi þessa máls — og held að ég hafi flutt um það fyrstu ræðuna í júnímánuði í fyrra — lagt á það áherslu að ríkisstjórnin hafi líka gert mistök, að hún væri ekki hafin yfir gagnrýni hvað það varðar. Það er alltaf þannig að þegar mál fara illa er það vegna þess að einhver ágalli hefur verið á þeim. Ég held að sú aðferðafræði sem við náðum saman um hafi verið til þess fallin að ná besta árangrinum með aðkomu alþjóðlegra fagmanna, með vönduðum vinnubrögðum, með stórum bakhóp sem að komu formenn allra flokka — ég held að það hafi skilað okkur góðum árangri.

En það var annað sem skilaði okkur líka árangri og það er sú staðreynd að aðstaða okkar rýmkaðist á biðtímanum. Ástæðan fyrir því að ég var tilbúinn að samþykkja þennan samning í upphafi, með þeim ágöllum sem á honum voru, var sú staðreynd að hann var þá það besta sem hægt var að fá við þáverandi aðstæður og miðað við það hvað landið þoldi á þeim tíma. Á þeim tíma gátum við ekki leyft okkur þann munað að ætla okkur að greiða vexti jafnóðum eins og við ætlum okkur að gera núna. Það er aðgangur okkar að fjármögnun, gjaldeyrisforða, sem hefur gert okkur kleift að taka þá áhættu vegna þess að við teljum að við getum staðið undir henni.

Ég held að það þurfi að gæta sanngirni í allar áttir. Ég er sannfærður um að sú aðferðafræði að hafa faglega viðurkennda samninganefnd með vítt bakland er mjög mikilvæg. Ég er því þeirrar skoðunar að vel hafi tekist til við uppbygginguna varðandi samninganefndina við aðildarviðræðurnar svo að dæmi sé tekið þar sem farin er sú leið að reyna að afla eins víðtæks stuðnings og víðtækrar tilhögunar og kostur er. Niðurstaðan talar fyrir sig, hún er sannarlega góð.