139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:44]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ósammála hæstv. ráðherra um það að þegar ákveðið var að ganga til þessara samninga í júní, sem hann var að vitna til áðan, fyrstu samninganna, — þær upplýsingar sem lágu fyrir þá bentu til þess að hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar væru að taka ákvörðun um að taka 490 milljarða skuldbindingu á þjóðina. Það voru þau gögn sem menn höfðu og það voru þær forsendur sem hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar gengu út frá þegar þeir greiddu því atkvæði. Ég er því aldeilis ekki sammála hæstv. ráðherra um að þjóðin hefði getað borið þá skuldbindingu enda börðumst við hart á móti því.

Mig langar hins vegar að spyrja hæstv. ráðherra — hann segir að hann hafi sagt það í ræðu strax í júní og viðurkennt að menn hefðu kannski átt að fara öðruvísi að — hvernig á því stóð að þegar sameiginlega hafði verið unnið að hinum svokölluðu fyrirvörum, sem mikil samstaða var um í þinginu, unnið allt heila sumarið og því lokið 28. ágúst, þá voru sömu mistökin gerð aftur. Þá var pólitískur aðstoðarmaður látinn fara í þetta mál aftur þó svo stjórnarandstaðan og stjórnarmeirihlutinn hefðu náð saman og síðan fór það eins og við þekkjum og sem betur fer var það þjóðin sem hafnaði því.

Hæstv. ráðherra talaði um að vega og meta hvers virði það væri að bíða en ég held að ekki sé um það deilt að stjórnarandstaðan, og reyndar þjóðin sem hafnaði þessu, er að uppskera þann árangur sem náðist með þessum samningi. Hæstv. ráðherra sagði líka að þetta væri mjög mikilvægt fyrir efnahagslífið og ég geri ekkert lítið úr því. Samfylkingin sagði að hér yrði ísöld ef þetta yrði ekki samþykkt og langar mig í því sambandi að rifja það upp, af því að við vorum að samþykkja fjáraukalög fyrir nokkrum dögum, að vaxtaálagið á ríkissjóð hefur lækkað mikið og við vorum að færa til baka 20 milljarða sem vextir höfðu lækkað meira en ráð var fyrir gert í fjárlögum 2010 þannig að þessi heimsendaspá Samfylkingarinnar dæmir sig sjálf þegar menn skoða málið í réttu ljósi.