139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:50]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að spyrja aftur: Hvaða stórframkvæmdir hafa tafist vegna Icesave eins og hæstv. ráðherra fullyrti áðan? Ekki getur hann átt við álver í Helguvík. Ekki getur hann átt við álver á Bakka. Ekki getur hann átt við gagnaver í Reykjanesbæ eða annars staðar á landinu. Ég vil fá upplýsingar um einstaka framkvæmdir sem hann á við í þessu samhengi.

Síðan er ég með eina örstutta athugasemd. Hæstv. ráðherra sagði að Samfylkingin hefði ekki farið með neinar heimsendaspár vegna Icesave-málsins á sínum tíma. Ég vil leyfa mér að lesa upp úr Rauða þræðinum sem sendur var póstlista Samfylkingarinnar föstudaginn 4. desember 2009. Þar er, með leyfi forseta, fyrirsögnin „Icesave eða ísöld“:

„Sjálfstæðisflokkurinn með Morgunblaðið sem safnaðarblað er að framkalla nýtt efnahagshrun á Íslandi, nýja ísöld í fjármálalífi þjóðarinnar. Hann bar aðalábyrgð á hruninu 2008 og stefnir nú bæði möguleikum Íslands til endurreisnar efnahagslífsins í sátt við alþjóðasamfélagið og neyðarlögunum í hættu. Afleiðingin er sú að Ísland gæti einangrast á ný og öll fjármálastarfsemi yrði fryst hér að nýju. Við þyrftum að tvíborga upphæðina, upphæð sem jafnast á við ábyrgðina á Icesave-reikningunum annars vegar í dýrari endurfjármögnun lána ríkis og sveitarfélaga á næstu þremur árum, hækkuðum vöxtum og kostnaði vegna greiðslufalls á erlendum lánum stofnana og fyrirtækja og hins vegar vegna þess að mjög miklar líkur eru á að neyðarlögin yrðu felld fyrir dómi og við þyrftum að greiða öllum erlendum innstæðueigendum af Icesave-reikningum að fullu í staðinn fyrir lágmarksupphæð samkvæmt samningunum við Breta og Hollendinga.“

Ég gæti haldið áfram, virðulegi forseti. Ég mundi segja að þetta væri ansi nálægt því að vera heimsendaspá.