139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:54]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Mér þótti hæstv. fjármálaráðherra fara dálítið öfugt af stað í inngangsræðu sinni áðan í þessu erfiða máli sem Icesave hefur verið fyrir núverandi ríkisstjórn, sérstaklega þegar hæstv. fjármálaráðherra kemur í þriðja sinn með frumvarp um að leysa úr Icesave-málinu í þinginu. En þá ber auðvitað að líta á það hæstv. fjármálaráðherra til varnar að þegar hann kom hér og mælti fyrir þessu máli fyrr í dag var nýlokið einni erfiðustu atkvæðagreiðslu um fjárlög sem nokkurn tíma hefur farið fram á Alþingi þar sem 20% af þingflokki hæstv. fjármálaráðherra sá sér ekki fært að styðja fjárlagafrumvarpið og fjárlögin þar með. Hlýtur það að vera einsdæmi þótt vissulega séu dæmi um það í þingsögunni að einstaka greinar fjárlagafrumvarps hafi ekki verið studdar af öllum stjórnarþingmönnum.

Það er erfitt og flókið mál fyrir hæstv. ríkisstjórn að sannfæra þjóðina í þriðja sinn um að kominn sér ásættanlegur samningur sem menn eigi að samþykkja. Þótti mér hæstv. efnahagsráðherra taka fullstórt upp í sig áðan þegar hann lýsti því yfir að nú væri kominn samningur sem væri svo góður að hann bæri að samþykkja. Gögnum sem fyrir liggja núna, frumvarpinu sem verður til meðhöndlunar, samningum og fylgigögnum, var dreift á Alþingi í gærkvöldi um tíuleytið eða skömmu fyrir tíu. Umræða um þetta mál hófst kl. 14.00. Það er auðvitað augljóst mál að enginn maður getur komið sér upp þeirri skoðun að samninga skuli samþykkja á svo skömmum tíma sem til ráðstöfunar hefur verið. Við skulum ekki gleyma þeim mistökum sem gerð hafa verið við slíkar aðstæður þegar menn hafa verið fullfljótir, stjórnarliðar og þar með hæstv. ráðherrar, að fallast á samninga sem þeir höfðu ekki einu sinni séð eins og við þekkjum frá því í júní í fyrra.

Gamla Icesave-málið, Icesave I og II, er mér ekki alveg ókunnugt og ég vonast til þess að meiri hluti þingsins, hæstv. ríkisstjórn og hv. þingmenn í stjórnarmeirihluta, læri eitthvað af þeim mistökum sem gerð voru í fyrrasumar og því hvernig málinu var fylgt í gegnum þingið. Mörg þau atriði sem reyndust hvað þungbærust í vinnu fjárlaganefndar í fyrrasumar, þegar þeir afleitu samningar komu inn í þingið í júní fyrra, komu alls ekki í ljós, virðulegi forseti, fyrr en nokkuð var liðið á sumarið. Það atriði sem mjög lengi stóð út af borðinu, þetta svokallaða Ragnars Halls-ákvæði, kom til kasta þingsins vegna þess að þá kom fram á sjónarsviðið virtur lögmaður á þessu sviði og vakti sérstaka athygli þingsins á þeim hættum sem voru á ferðinni. Nú þegar má sjá eitt álitamál sem eftir stendur, að ég hygg, í þeim nýju samningum sem liggja fyrir og er nauðsynlegt fyrir hv. fjárlaganefnd að skoða það rækilega.

Megintónninn í málflutningi okkar sjálfstæðismanna allt sl. ár hefur verið og mun verða sá að hér sé um að ræða mál sem sé þess eðlis að menn verði að standa saman um hagsmuni íslenskra skattgreiðenda. Hér sé ekki um að ræða að láta undan óbilgjörnum kröfum erlendra ríkja sem við þær kringumstæður, bæði í júní árið 2009 og einnig í kjölfar fyrirvara Alþingis í ágúst 2009, beittu afli sínu gegn vinaþjóð sem átti í miklum kröggum og bognaði undan því. Ég held að það hafi kannski verið erfiðast fyrir okkur Íslendinga að sætta okkur við — og við þingmenn eigum líka að líta í eigin barm með það að okkur tókst afleitlega að ná saman um grundvallarhagsmuni Íslendinga í þinginu — að við skyldum fara í samningaviðræður á þeim veika grunni sem við gerðum og vera eins og haltur maður á samningafundum eins og við vorum lengst af í Icesave-samningaferlinu. Það þurfti gríðarlega baráttu og átök í þinginu og mjög mörg þung orð voru látin falla sumarið 2009, haustið 2009 og í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar 30. desember 2009 um þá afstöðu stjórnarandstöðunnar að vilja ekki fallast á þessa samninga, að hún væri beinlínis að stefna hagsmunum þjóðarinnar í voða. Annað hefur komið á daginn. Ég held þess vegna að það sé umhugsunarvert fyrir hæstv. ríkisstjórn að koma í þriðja sinn með Icesave-frumvarp og ætlast til þess að menn trúi því sem hún segir um að samninga skuli samþykkja.

Það er áhugavert í þessu samhengi að skoða þau gögn sem fjármálaráðuneytið hefur tekið til í þessum þremur þingmálum sem nú er um að tefla, í umsögn fjárlagaskrifstofunnar um fyrsta Icesave-samninginn, um annan Icesave-samninginn og nú þetta samkomulag sem áritað hefur verið, og sjá hversu óskaplega miklu munar í því sem menn voru reiðubúnir til að leggja á íslenska skattgreiðendur.

Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sagði áðan að það hefði líka verið mikill kostnaður fólginn í því að semja ekki. Fyrsti Icesave-samningurinn hefði að teknu tilliti til búsins kostað íslenska skattgreiðendur tæpa 500 milljarða. Það er meira en fjárlög íslenska ríkisins eru núna. Við hefðum aldrei getað staðið undir slíkum skuldbindingum. Það þýðir ekkert að tala um að þetta hafi haft áhrif á einhverjar framkvæmdir hér og þar. Í fyrsta lagi þurfa menn að geta bent á þær, geta sagt hvaða framkvæmdir það eru nákvæmlega, þegar um svo gríðarlega fjármuni er að ræða. Aðalástæðan fyrir því að engar framkvæmdir komast í gang á Íslandi er ríkisstjórnin sjálf. Núverandi ríkisstjórn er sjálf orðin sérstakt efnahagslegt vandamál í þeirri endurreisn sem fram undan er á Íslandi.

Nú er sem sagt komið að því að við þurfum í þriðja skipti að rýna Icesave-samning. Jafnvel þótt hv. þm. Róbert Marshall krefðist þess að menn gerðu grein fyrir afstöðu sinni strax og færi fram á það við hv. þm. Bjarna Benediktsson að hann gerði grein fyrir hvaða afstöðu að hann hefði til þessa samnings dettur mér ekki í hug að gera það. Mér dettur ekki í hug að tjá mig um samning sem ég hef ekki lesið almennilega, að tjá mig um þvílíka hagsmuni án þess að skilja nákvæmlega hvað í þeim felst og ég mun ekki fallast á að það sé verkefni stjórnarandstöðuþingmanna á þessari stundu að kveða upp úr um hvort þessi samningur sé þess eðlis að hann sé nógu góður. Ég vil miklu frekar spyrja þá sem slíkum spurningum varpa fram: Hvað hafa þeir um þetta mál að segja? Hvað hafa þeir um það að segja að hér sé kominn samningur sem virðist við fyrstu sýn vera með allt öðrum hætti en þeir samningar sem þeir börðust hatrammlega fyrir, tveir samningar á árinu 2009?

Það þarf að fara yfir þetta mál og gefa hv. fjárlaganefnd tíma til þess. Það eru nú þegar nokkur álitamál sem verður að rýna gaumgæfilega. Ef það er skoðun meiri hluta þingsins að það þurfi að ljúka þessu máli á einhverjum sérstökum hraða þá þarf að útskýra fyrir mér hvaðan sá þrýstingur komi og hver kalli eftir slíkri lúkningu mála.

Viðsemjendur okkar gerðu sér grein fyrir því í febrúar og mars á þessu ári að ekki væri verið að semja við venjulega ríkisstjórn. Menn væru að semja við minnihlutastjórn sem hefði ekki færi á því að koma málum í gegnum þingið. Þess vegna var farið fram á að fulltrúar stjórnarandstöðunnar kæmu á fund í Haag til að ræða málin. Það er ekki þar með sagt að menn ætli síðan bara að samþykkja allt sem frá þeim kemur án þess að það sé ítarlega skoðað — það mun ég ekki gera.

Það eru einkum þrjú álitamál sem alltaf hafa verið fyrir hendi í þessu Icesave-máli. Meginálitamálið er auðvitað endurheimtur úr búi Landsbanka Íslands og jafnvel þótt menn trúi því núna og vissan sé meiri en hún var fyrir ári þá er það samt alltaf þannig að við alþingismenn vitum ekki allt um þetta bú. Við þurfum að treysta mjög á skilanefnd Landsbanka Íslands og það er auðvitað nokkuð sem menn verða að taka með í reikninginn þegar litið er til slíkra hagsmuna sem þar eru á ferðinni. Í umræðunni hefur verið nefnt að eignir Landsbanka Íslands, stór eign í búinu, seljist jafnvel núna næstu vikur. Við höfum engin færi á því að gera okkur grein fyrir því hvert rétt verðmat á slíkum eignum er. Þetta verður alltaf gríðarlegur óvissuþáttur og áhættuþáttur í öllu þessu máli. Þetta þarf allt að skoða og það verður hv. fjárlaganefnd að gera núna.

Síðan er það gengisáhættan og ekki síður sú áhætta sem er í raun og veru í því fólgin að pundið hefur meiri áhrif á niðurstöður þessa máls en krónan. Í því frumvarpi sem liggur fyrir eru ákveðnar spár um hvernig íslenska krónan mun þróast á næstu árum. Gert er ráð fyrir að hún styrkist árið 2011 um 6–7%. Síðan er gert ráð fyrir lítils háttar styrkingu á því tímabili sem um er að ræða til 2016. Með sama hætti eru ákveðnar forsendur uppi um þróun sterlingspundsins. Þar er samt sem áður gríðarlega mikil óvissa á ferðinni. Við erum að tala um gjaldmiðil í öðru landi. Þegar þróun pundsins er sem sagt metin er litið til þróunar evrunnar í því samhengi. Engu að síður er um að ræða verulegan áhættuþátt þegar kemur að þessu tiltekna máli og ég held að það sé nauðsynlegt fyrir hv. fjárlaganefnd að skoða það mjög rækilega.

Síðan hjó ég eftir því áðan og ég vil endilega líka leggja það inn í umræðuna, virðulegur forseti, að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og reyndar hæstv. forsætisráðherra einnig, að ég hygg, hafa nefnt það í umræðunni að betra sé að ræða um málin núna vegna þess að gjaldeyrisvaraforðinn sé svo stór að við séum þar með í betri færum í þessu máli en áður. Ég vona að menn séu ekki að tala um að það eigi að nota hann til að standa undir þessu. Þá þarf auðvitað að líta til þeirrar fjármögnunar sem á honum hefur verið sem er nokkuð með öðrum hætti en þau samningsdrög sem hér liggja fyrir. Menn verða að fara mjög rækilega yfir hvað nákvæmlega er þar á ferð. Síðan er ýmislegt í sambandi við fjármögnunina og ýmsa hluti í þessu. Skoða þarf biðtímann sérstaklega. Hvaða áhrif hefur það að bíða með að semja um málið? Það þarf auðvitað að meta hvað dómstólaleiðin þýðir. Nú þegar við erum komin á þetta stig verður að meta það. Við sjálfstæðismenn höfum nefnilega alltaf sagt og sögðum í desember 2008, þegar lagt var af stað með þingsályktunartillöguna sem byggð var á svokölluðum Brussel-viðmiðum, að við héldum alltaf lagalegum rétti okkar til haga.

Við þurfum núna að meta hvenær samningur er nógu góður til að á hann skuli fallist þegar engin lagaskylda er fyrir hendi til að greiða skuldina. Virðulegur forseti. Hvenær er samningurinn nógu góður til að afsala sér lagalegum rétti okkar í þessu máli? Eða: Hvenær teljum við að svo langt sé gengið og komið í samningaferlinu að við eigum ekki að beita eða bera fyrir okkur skort á þeirri lagalegri skyldu sem í málinu liggur? Þetta verða menn að skoða mjög rækilega í fjárlaganefnd þegar málið verður tekið til afgreiðslu.

Allir þessir þættir eru óvissuþættir sem hafa áhrif á niðurstöðu málsins. Fram að því að botn fæst í það hvernig þessi samningur er í eðli sínu og frumvarpið, þetta er mikill pakki sem liggur hér frammi og maður þarf eins og ég sagði áðan að rýna það mjög nákvæmlega, eru ákveðnar svipmyndir gefnar miðað við að hreyfing verði á búinu, hreyfing á genginu o.s.frv. Það þarf að láta sérfræðinga fara sérstaklega yfir hvað einstakir þættir í samningnum þýða og það verður alltaf að meta hann út frá því að okkur ber engin lagaleg skylda til að standa undir þessum greiðslum. Þennan samning þarf að vega á móti þeirri staðreynd. Það þurfti alltaf að gera, einnig gagnvart þeim hörmungarsamningum sem hér voru samþykktir af hálfu sitjandi ríkisstjórnar sem nú kemur og mér finnst hún satt að segja bera sig alveg ótrúlega vel miðað við að hafa verið gerð afturreka með hvern samninginn á fætur öðrum sem betur fer íslensku þjóðinni vonandi til hagsbóta til lengri tíma litið.

Aðalverkefnið er reyndar eins og ég sagði áðan, virðulegur forseti: (Forseti hringir.) Meginfyrirstaðan í endurreisn Íslands þessa dagana er ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.