139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[17:30]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Það liggur fyrir að við erum búin að fá enn einn Icesave-samninginn og nú er úr vöndu að ráða. Nú þurfum við þingmenn að ákveða hvort við ætlum að styðja samninginn eða ekki. Ég held að fyrsta skrefið í því sé að skoða hvað okkur hefur miðað frá síðasta samningi, samningnum sem við margir þingmenn vorum mjög einarðlega á móti, samningnum sem 98% þeirra sem mættu á kjörstað höfnuðu, samningnum sem ríkisstjórnarflokkarnir samþykktu og sendu til undirritunar á Bessastaði en Bessastaðabóndinn vísaði til þjóðarinnar.

Í fylgiskjali með upphaflega samningnum er eins og lög kveða á um lagt mat á kostnaðinn fyrir íslenska þjóð af fjármálaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Þar eru sýndir útreikningar, hvernig afborgunum verður líklega háttað, hvernig vextir munu líklega þróast og hvernig greiðslan yrði á þeim samningi sem þá hafði verið undirritaður og svokölluð Svavarsnefnd var ábyrg fyrir. Það er skemmst frá því að segja að kostnaðurinn við þann samning var metinn af fjármálaskrifstofu fjármálaráðuneytisins upp á 490 milljarða kr.

Þegar til þess kom að þingmenn stjórnarflokkanna og ríkisstjórn tækju ákvörðun um að þetta væri sá samningur sem menn vildu samþykkja, sá samningur sem menn vildu leggja á íslenska þjóð, sá samningur sem menn vildu standa við gagnvart Bretum og Hollendingum, lá algjörlega ljóst fyrir í viðauka metið af fjármálaskrifstofu fjármálaráðuneytisins að menn væru tilbúnir til að takast á hendur skuldbindingu sem var metin á 490 milljarða kr. Þessi skuldbinding var af þeirri stærðargráðu að margir töldu þetta geta orðið íslenskri þjóð um megn. Þeir töldu að greiðslubyrðin gæti ógnað efnahagslegu sjálfstæði Íslendinga. Þá voru gerðar margar greiningar, miklir útreikningar, margar úttektir á þessu öllu saman og sitt sýndist hverjum. Ríkisstjórnin hvatti mjög eindregið til þess að þessir samningar yrðu samþykktir en það sem meira var, forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands hvöttu eindregið til þess að samningarnir yrðu samþykktir. Síðan voru fengnir þessir klassísku álitsgjafar og þeir látnir lýsa því hvernig Ísland mundi breytast í Kúbu norðursins ef samningarnir yrðu ekki samþykktir, hvernig Ísland yrði að Norður-Kóreu Atlantshafsins o.s.frv.

Forsvarsmenn atvinnulífsins hringdu í skelfingu sinni í alla þá sem vettlingi gátu valdið á Alþingi og hvöttu þá til að samþykkja samningana. En sem betur fer, og það er ein af mínum stoltustu stundum, gátum við sjálfstæðismenn ásamt fleiri stjórnarandstöðuþingmönnum staðið í lappirnar gegn þrýstihópunum, gegn stofnununum sem reiddu fram alla þessa útreikninga, gegn ríkisstjórninni og gegn kollegum okkar á Alþingi og sagt nei við þessu, áhættan væri of mikil fyrir íslenska þjóð og við yrðum að leita annarra leiða. Eins og ég sagði áðan voru samningarnir samþykktir á Alþingi og sendir út á Bessastaði þaðan sem þeir voru síðan sendir til þjóðarinnar sem felldi þá.

Við sjálfstæðismenn höfum verið því fylgjandi að fara samningaleið. Á grunni þeirrar sannfæringar okkar lögðum við í púkkið í þá vinnu sem fór af stað strax eftir að samningunum var hafnað, studdum samninganefndina og áttum fulltrúa í henni. Samningurinn sem nú liggur fyrir með upphafsstöfum samninganefndarmanna og hér er til umræðu er margfalt betri en sá samningur sem þjóðin hafnaði, samningurinn sem átti að kosta 490 milljarða kr. Samninganefndin sjálf hefur sagt að það sé hægt að meta þennan samning til 47 milljarða kr. eftir að búið er að nota 20 milljarða kr. sem eru í Tryggingarsjóði innstæðueigenda þannig að samanburðurinn við gamla samninginn ætti þá að vera einir 490 milljarðar kr. mínus það sem var í Tryggingarsjóðnum, að menn töldu, þannig að munurinn á þessum tveimur samningum er 432 milljarðar kr.

Sú tala fer að verða fólki kunn vegna þess að hún hefur heyrst nokkrum sinnum í umræðunni undanfarna daga. Þegar forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hafna þessum útreikningum hafna þeir um leið útreikningum fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins sem gerðir voru í desember árið 2009. Í staðinn notar ríkisstjórnin tölu sem birtist í greinargerð sem samninganefndin gerði með nýja samningnum, tölu sem hljóðar upp á rúmlega 100 milljarða kr. En hvernig skyldi sú tala vera fengin? Það er athyglisvert að velta því fyrir sér. Sú tala er fengin þannig að það er valið ár, árið 2016, nýi samningurinn er tekinn og það er reiknað hvað menn hafa borgað af höfuðstólnum og allir vextirnir sem menn hafa borgað og síðan dregið frá það sem kemur á móti og þá stendur eftir talan 47 milljarðar kr. Það er áætlaður kostnaðurinn. Síðan er tekinn gamli samningurinn, breytt um forsendur og spurt: Hver verður áfallinn kostnaður árið 2016? Þá fá menn út að áfallinn kostnaður árið 2016 verði 180 milljarðar kr. mínus það sem er í tryggingarinnstæðusjóðnum þannig að þá standa eftir 160 milljarðar kr. en þá láta menn þess ógetið að árið 2016 yrðu menn nýbyrjaðir að borga af gamla samningnum og ættu eftir að borga af honum allt til 2024. Þegar menn taka vextina og vaxtavextina með í reikninginn fá þeir út tölu sem er að vísu lægri en fjárlagaskrifstofan fékk út í lok árs 2009, þ.e. 490 milljarðar kr., vegna þess að forsendur eru breyttar. Þannig eru þessar mörgu misvísandi tölur komnar til. Allar eiga þær sér skýringar og allar eiga þær sér rót í raunveruleikanum en það er ekki rétt að bera saman þá ákvörðun sem alþingismenn stóðu frammi fyrir í þessum sal, að ábyrgjast þessa 490 milljarða kr., við eitthvað sem síðan breyttist og fór allt á miklu betri veg. Við eigum að bera saman þær upphæðir sem við stöndum frammi fyrir. Í dag stöndum við frammi fyrir 47 milljörðum kr. Fyrir ári stóðum við frammi fyrir 490 milljörðum kr. Það eru þessar upphæðir sem við eigum að bera saman.

Ef það reynist hins vegar rétt að munurinn á samningunum sé rétt rúmlega 100 milljarðar kr. eins og hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra hafa haldið fram get ég sagt fyrir mig að ég hafna þessum nýja samningi algjörlega. En það væri einungis ef þetta væri rétt hjá þeim. Þetta er bara ekki rétt, það er verið að bera saman epli og appelsínur. Rétti samanburðurinn er 47 milljarðar kr. á móti 490 milljörðum kr. Það er hinn rétti samanburður.

Eins og ég sagði áðan verðum við að taka ákvörðun okkar út frá því að bera saman þessa tvo samninga. Það eru samt ekki bara upphæðirnar sem skipta máli. Mikilvægasta spurningin sem hver og einn þarf að svara er hvort okkur beri lagaleg skylda til að borga þennan samning. Ef okkur ber ekki lagaleg skylda til þess, er ávinningurinn af því að borga þessa 47 milljarða kr. þá svo mikill að við séum tilbúin til að taka á okkur þennan kostnað þrátt fyrir að þurfa ekki að borga? Það er grundvallarspurningin sem við þurfum að spyrja okkur.

Þá er kannski óhætt að velta fyrir sér hvað mundi gerast ef við samþykktum ekki þennan samning. Hvað mundi gerast? Fyrir mér er það tiltölulega einfalt, það er ljóst að við mundum ekki breytast í Kúbu norðursins, við yrðum ekki Norður-Kórea Norður-Atlantshafsins o.s.frv., við vitum að það er bara fals. En hver yrðu viðbrögð Breta og Hollendinga? Mundu þeir umsvifalaust vísa málinu til dómstóla? Væri það skynsamlegt hjá þeim með þann óróa sem nú ríkir í þessum löndum og þá vantrú eða óróa sem mundi fylgja því að það hæfist dómsmál um tryggingarinnstæðukerfið? Mundu þeir gera það? Hugsanlega. Segjum sem svo að þeir mundu gera það. Þá tæki 1½–2 ár að fá endanlega úr þessu skorið. Fyrst þarf það að fara fyrir EFTA-dómstólinn og þar yrði skorið úr um greiðsluskylduna. Síðan yrði farið fyrir aðra dómstóla þar sem skorið yrði úr um hvað við ættum að borga mikið og þá væru liðin ein tvö ár. Sem sagt, við værum komin að árinu 2014.

Segjum að allt færi á versta veg og niðurstaða dómsúrskurðar yrði sú að við þyrftum að borga. Þá þarf maður að velta fyrir sér hvaða upphæð við þyrftum að borga. Þá verður megnið af eignum Landsbankans komið inn og búið að borga það út sem forgangskröfur þannig að þá stæði deilan meira og minna um hvaða vexti við þyrftum að borga. Hvaða vexti skyldum við þurfa að borga? Ég held að það væri verðugt að leggja þá spurningu fyrir fjárlaganefnd og hún ætti að velta henni fyrir sér.

Ef allt fer á versta veg sé ég fyrir mér að það sem við þyrftum að borga í versta falli væru ekki svo hrikalegar upphæðir.