139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[17:53]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt athugað hjá hv. þingmanni að tíminn vinnur með okkur í þessu máli. Á hverjum degi liggur við, a.m.k. í hverri viku, berast nýjar og nýjar upplýsingar. Við fengum lykilupplýsingar í þessari viku sem var það álit ESA að neyðarlögin hefðu ekki brotið í bága við lög sem styrkir okkur enn í þeirri stöðu að halda forgangi á innstæðum eins og hann var settur upp í neyðarlögum. Það minnkar áhættuna við þetta. Aðrar fréttir voru þær að tilboð hefði komið frá einhverjum ríkum araba í verslunarkeðjuna Iceland upp á 273 milljarða kr. Lauslegir útreikningar benda til þess að sú söluupphæð hefði leitt til þess að þessir 47 milljarða kr. skuldbinding hefði getað lækkað um allt að 25 milljarða kr. í viðbót. Nýjar upplýsingar koma inn á hverjum degi. Því lengur sem við getum beðið með að ganga frá hlutunum, ef við ætlum á annað borð að ganga frá þeim með samningum, því minni óvissa er um hvað við þurfum að undirgangast. Það er kosturinn við tímann og þess vegna vil ég segja að okkur liggur ekkert á. Við erum ekki að breytast í neitt þróunarríki með þessu. Við spilum þetta eftir reglum alþjóðasamfélagsins og það lítur út fyrir að það ríki ekki lagaleg skylda fyrir okkur til að borga þetta þannig að við erum ekki að brjóta nein lög eða neitt því um líkt.