139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[17:55]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég er feginn að heyra hv. þingmann taka undir það að okkur liggi ekkert á og að tíminn vinni með okkur í þessu máli. Tvennt vil ég samt spyrja hann um þessu til viðbótar.

Það var töluverð umræða um að Íslendingar þyrftu að fallast á þessar Icesave-kröfur til að Bretar og Hollendingar féllust á að gera ekki stórmál úr því að neyðarlögin hefðu verið sett og innstæður bankanna settar í forgang fram yfir aðrar kröfur. Er ekki hins vegar tilfellið það að breska ríkið og það hollenska stórgræði á neyðarlögunum og þessari endurröðun kröfuhafa? Þau eru innstæðueigendur, þau eiga kröfurnar á innstæðurnar. Það þýðir að það er verið að ráðstafa til þeirra með þessari breytingu gríðarlegu fjármagni sem þau hefðu annars líklega ekki fengið. Bretar og Hollendingar hefðu átt að vera þeir síðustu til að vilja fella neyðarlögin.

Hitt sem ég velti fyrir mér og langar að biðja hv. þingmann að velta aðeins vöngum yfir varðar áhættuna. Hv. þingmaður nefndi að tilboð hefði komið í Iceland-verslunarkeðjuna og að ef það gengi eftir mundi áhættan enn minnka. Hvað ef hlutirnir þróast á hinn veginn, ef fjármálakrísan tekur sig aftur upp af fullum þunga í Evrópu eins og margir óttast að hún geti gert, bæði vegna vandræða evrópska bankakerfisins og eins ríkissjóða hinna ýmsu landa, og það verður verulegt fall á hlutabréfamörkuðum og verslun með önnur verðbréf? Hvaða áhrif gæti það haft á niðurstöðuna fyrir íslenska ríkið?