139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[18:00]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Það atriði sem ég hafði í hyggju að ræða varðandi þetta frumvarp er einna helst verðmæti þrotabúsins. Ég ætla líka að ræða almennt um innstæðutryggingar og spurninguna um ríkisábyrgð á innstæðum í tengslum við gjaldeyrishöftin og síðan þá áhættuþætti sem ég sé hvað þetta varðar. Ég vona svo innilega að formaður eða varaformaður fjárlaganefndar og fjármálaráðherra séu einhvers staðar að hlusta á umræðuna því að þetta eru allt punktar sem ég vonast til að verði teknir til umræðu í nefndinni.

Í máli hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra hefur ítrekað komið fram að ein ástæðan fyrir því að talið er að þessi samningur sé hagstæðari sé sú að heimtur inn í búið séu mun betri en áður hafði verið áætlað. Af því tilefni vil ég benda á að í nefndaráliti sem ég skilaði í lok desember, fyrir tæpu ári, 28. desember 2009, sem var unnið að beiðni fjárlaganefndar í viðskiptanefnd, þá fengum við upplýsingar um það frá fulltrúum Landsbankans hverjar heildareignir Landsbankans væru og hvernig innflæðið í þrotabúið væri metið. Þá var talað um að miðað við stöðu bankans 30. september 2009 væri verðmæti eignanna metið á 1.164 milljarða sem er raunar hærri tala en kemur fram í greinargerðinni miðað við núverandi heimtur.

Þær tölur sem hafa komið fram varðandi þær eignir sem eru nú þegar komnar í hendur slitastjórnar Landsbankans stemma mjög vel við það áætlaða fjárflæði heildareigna inn í búið sem voru lagðar þarna fram, um það að á þessum tíma, í desember 2010, yrðu einmitt um 300–350 milljarðar komnir inn í búið. Á árinu 2011 var gert ráð fyrir um 80 milljörðum kr., um 182 árið 2012 og 55 milljörðum kr. árið 2013. Eftir það væri gert ráð fyrir að fjárflæði til bankans næmi samtals um 534 milljörðum kr. og þar af væru greiðslur frá nýja Landsbankanum vegna útgefins skuldabréfs, sem var upphaflega höfuðstóll 260 millj. kr., metnar að fjárhæð 332 milljörðum kr.

Þetta er eitthvað sem ég vil gjarnan benda á vegna þess að miðað við þessar tölur og þær upplýsingar sem koma fram í greinargerðinni virðist meginástæðan fyrir því að þessi samningur telst vera þetta miklu hagstæðari vera lægri vaxtaprósenta. Það sem hefur hins vegar skýrst á þessu ári, frá því að meiri hluti Alþingis samþykkti samninginn, hefur sýnt fram á að tölurnar sem slitastjórnin lagði fram fyrir þingið væru nokkuð raunsæjar og eykur það öryggi manns að sjá það. Það eru þá meiri líkur á því að framtíðartölurnar verði líka innan þessara marka. Ég hef hins vegar haft miklar áhyggjur af þessu mikla skuldabréfi sem er á milli nýja og gamla Landsbankans, sem er upp á 330 milljarða, eða rúmlega 30% af heildareignum þrotabúsins.

Við í viðskiptanefnd höfum verið að vinna, í annarri umferð, með nýtt frumvarp varðandi stofnun A- og B-deildar innstæðutryggingarsjóðs þar sem er ætlunin að færa gamla tryggingarsjóðinn yfir í B-deild og stofna nýja deild sem væri kölluð A-deild og lágmarkstryggingin, þessar rúmlega 20 þúsund evrur, samkvæmt núverandi lögum, fari upp í 100 þúsund evrur. Það er ætlunin að rukka fjármálakerfið um tiltölulega háar prósentur samkvæmt frumvarpinu sem liggur fyrir í viðskiptanefnd sem gerir það að verkum — samkvæmt umsókn Bankasýslunnar er áætlað að innflæði inn í innstæðutryggingarsjóðinn á næstu tveim til þrem árum geti orðið um 18–33 milljarðar á ári. Samkvæmt þeim útreikningum sem Bankasýslan hefur farið í, og ég hef líka heyrt í fleirum sem eru starfandi innan fjármálakerfisins sem hafa slegið á hvaða áhrif þetta hefur á arðsemi þessara fjármálastofnana, er alveg ljóst að arðsemi þessara fjármálastofnana verður nánast engin. Það verður einhver arðsemi af Arion banka og Íslandsbanka en arðsemi sparisjóðakerfisins — og það sem skiptir svo miklu máli hvað varðar þetta frumvarp er að arðsemi nýja Landsbankans verður algerlega óásættanleg.

Ég veit ekki annað, í þeim rekstri sem ég hef tekið þátt í og kynnst, en að eina leiðin til að geta staðið skil á greiðslum af skuldabréfum sínum sé að vera með hærri tekjur en gjöld. Það þarf að vera hagnaður af rekstrinum til að geta staðið undir þeim greiðslum sem nýi Landsbankinn þarf að skila inn í þrotabú gamla Landsbankans. Samkvæmt skilmálum skuldabréfsins er gert ráð fyrir því að í fimm ár, eða til ársins 2013, verði aðeins greiddir vextir af þessu skuldabréfi og síðan er samið um að skuldabréfið yrði afborgunarlaust fyrstu fimm árin en síðan greitt niður á árunum 2014–2018 þegar gjaldeyrismarkaður ætti að vera kominn í betra horf. Upphæð skuldabréfsins, eða um 330 milljarðar kr., er álíka upphæð og Seðlabanki Íslands og fjármálaráðuneytið höfðu áætlað að mundi falla á ríkið vegna ríkisábyrgðar á Icesave. Vegna stærðar skuldabréfsins og þeirrar staðreyndar að afborgunarferill bréfsins féll, samkvæmt þessum fyrra samningi, að hluta saman við greiðslur ríkisins af Icesave-skuldbindingunni var samið um að afborganir tækju tillit til áætlana um greiðslujöfnun landsins gagnvart útlöndum á næstu árum.

Það kom fram í viðskiptanefnd að töluverður þrýstingur var frá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um það að afgreiða þetta frumvarp um innstæðutryggingarsjóðinn sem fyrst og helst fyrir þinghlé. En mér skilst hins vegar að menn hafi séð að sér og ég held að það sé mjög mikilvægt að fjárlaganefnd skoði í mjög góðu samstarfi við viðskiptanefnd hvernig best sé að haga inngreiðslum inn í hinn nýja innstæðutryggingarsjóð og þá í samræmi við þetta skuldabréf.

Einnig má benda á að ríkið sjálft hefur lagt umtalsverða fjármuni inn í nýja bankakerfið, að vísu að mestu leyti í formi skuldabréfa. Ekki er talið neitt óeðlilegt fyrir eigendur banka að gera arðsemiskröfu upp á 13–15% af hefðbundinni bankastarfsemi og telja má líklegt í framhaldi af þessu að meðan verið er að greiða af þessu skuldabréfi í gamla Landsbankann verði mjög lítil arðsemi eða litlir peningar verði tiltækir til að skila ásættanlegri arðsemi til ríkisins. Þetta er eitt af því sem verður að skoða.

Ég tel líka mjög mikilvægt, eins og við höfum séð af reynslunni, að við veltum því fyrir okkur hvort það sé nauðsynlegt fyrir okkur að vera með innstæðutryggingarsjóð. Eins og við sáum í bankahruninu eru innstæður það mikilvægar og það tekur það langan tíma að byggja upp nægilega stóran innstæðutryggingarsjóð og það verður það þungt og erfitt fyrir bankakerfið, að það er spurning hvort réttara sé fyrir okkur að fara sömu leið og margar aðrar Evrópuþjóðir hafa farið, þar á meðal Bretar og Hollendingar, að í stað þess að mynda sjóð liggi fyrir einhvers konar samningur. Við verðum þá að horfast í augu við það að ef til áfalls kemur getur enginn bakkað upp innstæður nema ríkissjóður, hvort sem við tölum um að það sé einhvers konar ríkisábyrgð eða ekki. Þetta var það sem við þurftum að horfast í augu við. Bankakerfið okkar er þannig byggt upp, ólíkt því t.d. sem þekkist í Þýskalandi, að við erum með þrjá mjög stóra banka. Menn hafa jafnvel talað um nauðsyn þess að fækka þeim þannig að við verðum kannski með tvo stóra banka sem skipta markaðnum þá nánast á milli sín. Það þýðir að það getur tekið upp í 50–60 ár, með reglulegum innborgunum, að safna í nægilega upphæð til að geta dekkað fall eins banka ef innstæður yrðu t.d. ekki forgangskröfur.

Ég vil líka benda á varðandi þetta skuldabréf, og það er kannski eitthvað sem við pössuðum okkur ekki nægilega vel á, að samkvæmt neyðarlögunum voru innstæður færðar fram yfir sem forgangskröfur og það er eitt af því sem gerir það að verkum að við treystum því að við munum fá nánast fullar heimtur út úr þrotabúinu. Það var hins vegar samþykkt á Alþingi af meiri hlutanum að skuldabréfið yrði sett fram fyrir. Það var eitt af því sem var sett sem skilyrði af slitastjórninni þannig að það er í forgangi fram yfir innstæður í Landsbankanum eins og ég skildi það þá. Þar með var að mínu mati komið ákveðið fordæmi fyrir því að stjórnvöld væru tilbúin að víkja frá þeirri reglu sem sett var í neyðarlögunum, um að innstæður ættu að vera forgangskröfur, og við vildum virkilega halda utan um það. Síðan er það að sjálfsögðu þannig að verðkröfur eru framar í forgangsröðinni, fram yfir forgangskröfur. Þetta þarf að skoða í heildina. Seðlabankinn hefur líka bent á að ef við komum innstæðutryggingarkerfinu ekki á sem fyrst getur það haft áhrif á það að við getum þá síðar afnumið gjaldeyrishöftin — það getur kannski verið eitt af því sem við þurfum að horfast í augu við.

Í þingmannanefndinni, sem ræddi um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, fór fram töluverð umræða um það hvernig hægt væri að draga úr þeirri áhættu sem varðar innstæður. Eitt af því sem nefnt var þar var að aðskilja þyrfti innlánsstofnanir og fjárfestingarbanka og draga úr áhætturekstri hjá þeim sem væru með tryggðar innstæður. Ég tel líka að við þurfum að gera innstæðueigendum miklu betur grein fyrir því hvað það er að vera með tryggða innstæðu og hvort við ætlum að hafa þetta sem varanlega reglu varðandi forgangskröfuna í staðinn fyrir að hafa þetta í neyðarlögunum. Einnig þarf að skoða hvort möguleiki sé á því að fara í samstarf við aðrar þjóðir eða kaupa einfalda endurtryggingu á innstæðum okkar.

Það sem er kannski svo heillandi við þetta Icesave-mál, og gerir það að verkum að það hefur ekki verið neitt erfitt að tala um það í rúmar 200 klukkustundir, er að það eru svo ofboðslega margar hliðar á því. Hvort sem það er rétt ákvörðun að fara í að samþykkja þennan samning eða ekki vil ég að það liggi fyrir við 1. umr. að ég hef í hyggju að kynna mér þetta mál mjög vel, enn betur en ég hef þegar gert þó að ég hafi tekið virkan þátt í umræðunni — þetta eru þriðju jólin sem við fáum svona Icesave-pakka. Fyrstu jólin voru í desember 2008 þegar samþykkt var yfirlýsing um að íslensk stjórnvöld væru viljug að ganga til samninga á grundvelli Brussel-viðmiðanna um að endurgreiða þessa lágmarkstryggingu. Um síðustu jól fengum við samning nr. þrjú í hús og þetta er þá fjórði samningurinn sem liggur hér á borðinu.

Formaður samninganefndarinnar hefur sagt að að hans mati sé þetta sanngjarn samningur. Hann hefur ekki sagt að þetta sé besti mögulegi samningurinn en hann hefur sagt að þetta sé sanngjarn samningur og ég hvet okkur til að vanda okkur vel. Það eru gífurlegir hagsmunir undir og þjóðin á það einfaldlega skilið að við vinnum þetta vel.