139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[18:15]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Ísbjargarsagan heldur áfram. Nú hefur þingið Icesave-samninginn til umfjöllunar í þriðja sinn síðan ég kom inn á þing og með sanni er samningurinn sem hér er fjallað um miklu betri en samningurinn sem fyrst átti að lauma óséðum í gegnum þingið. Það merkilega við það verkefni var að sumir stjórnarþingmenn sögðust opinberlega vera tilbúnir að samþykkja hina glæsilegu niðurstöðu samninganefndarinnar sem Svavar Gestsson leiddi án þess að sjá samninginn.

Frú forseti. Sem betur fer hefur myndast hefð fyrir því að leka gögnum sem þjóðin á fyllilega rétt á að hafa aðgang að. Engin ástæða var fyrir leyndinni í kringum samninginn þáverandi og algerlega ólíðandi að þingmenn sem áttu að samþykkja óheyrilega háar upphæðir með þjóðina að veði hefðu ekki aðgengi að öllum gögnum eins og til stóð á þeim tíma. Eitthvað virtist ríkisstjórnin vera treg til að læra af mistökum sínum og þá þurfti enn og aftur að leka gögnum á netið til að almenningur og sérfræðingar hefðu alla myndina. Sú mynd er því miður ekki alveg heil og enn vantar upp á að fylgiskjöl séu aðgengileg, bæði fyrir almenning og okkur þingmenn. Ég vona að úr því verði bætt hið fyrsta.

Frú forseti. Þessi samningur er allt annars eðlis en hinn fyrri. Það tókst með mikilli þrautseigju að breyta þessu úr viðskiptasamningi í pólitískan gjörning. Tilraunir Breta og Hollendinga til að græða á vöxtum eru ekki lengur til staðar og það er gott.

Það er samt sem áður atriði í samningnum sem þarf að varast og vekja athygli á. Í fyrsta lagi er algerlega ólíðandi að þjóðin taki við þessum kaleik. Við leggjum til að þessir tugir milljarða sem eftir standa verði teknir af fjármálafyrirtækjum í stað ríkiskassans og það þarf að tryggja þá leið áður en þetta verður samþykkt. Við í Hreyfingunni getum aldrei samþykkt að skuldum einkafyrirtækja sé velt á almenning.

Maður verður líka að spyrja sig hvort bankar séu hæfir til einkareksturs ef það er alltaf lokaniðurstaða að tilveru þeirra að ríkið gangi í ábyrgð á þeim.

Frú forseti. Það er mikilvægt að dreifa ábyrgðinni og áhættunni á þrotabúi gamla Landsbankans. Það er ekki ásættanlegt að aðeins Íslendingar taki þá áhættu á sig. Það eru teikn á lofti um að fjármálastöðugleikinn í Evrópu standi á brauðfótum og því held ég að það sé mikilvægt til að hafa hvata fyrir skilanefndina að við dreifum ábyrgðinni á milli landanna þriggja.

Frú forseti. Ég fagna því að þingið og ríkisstjórnin gefi sér þann tíma sem þörf er á til að fara yfir samninginn með sérfræðingum því hann er á torkennilegu embættismannamáli frá hinu konunglega breska fjármálaráðuneyti. Ég verð að viðurkenna að ég á mjög erfitt með að skilja það sem þar stendur án þess að fá aðstoð.

Frú forseti. Það er eitt í allri þessari miklu Ísbjargarsögu sem ég get ekki litið fram hjá og það er yfirlýsing hæstv. fjármálaráðherra um að hann bæri ábyrgð á Svavarssamningnum. Það hefur komið í ljós að sá samningur hefði orðið þjóðinni óbærileg byrði og það er með naumindum að þjóðinni tókst að forða sér frá því sem það fól í sér að samþykkja þann háskalega samning. Mér finnst gríðarlega mikilvægt að hæstv. fjármálaráðherra axli ábyrgð og íhugi stöðu sína sem og aðrir sem höfðu sig mikið í frammi um að troða samningnum yfir á þjóðina. Það hefur oft verið minna tilefni til að taka pokann sinn fyrir hrikaleg embættisafglöp og vanþekkingu. Fjármálaráðherra og forsætisráðherra ættu að sjá sóma sinn í því að axla ábyrgð og í það minnsta biðja þjóðina afsökunar sem og forseta lýðveldisins ef þeir sjá ekki að þeirra vitjunartími er kominn.