139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[18:19]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er að verða komið ár síðan við stóðum í mikilli baráttu í þinginu við að reyna að sannfæra stjórnarliða um að lausnin sem ríkisstjórnin bar á borð í Icesave-málinu á þeim tímapunkti væri ekki ásættanleg fyrir þjóðina. Það er rétt að það er auðveldara um að tala en í að komast að stjórna landinu og greiða úr flækjunum sem skapast hafa í kjölfar hruns bankanna en það þarf að vanda sig. Það var sannfæring mín á þeim tíma að það væri ekki það sem lægi á borðinu, það væri ekki vönduð niðurstaða af hálfu ríkisstjórnarflokkanna og þjóðin ætti það skilið að eiga þingmenn sem berðust með kjafti og klóm fyrir hagsmunum hennar.

Það var mikill tilfinningahiti í umræðunum á þessum tíma. Vissulega hafði ríkisstjórnarmeirihlutinn betur í atkvæðagreiðslum í þinginu en sem betur fer tókst í kjölfar ákvörðunar forseta Íslands og þjóðaratkvæðagreiðslu að afstýra því að lending ríkisstjórnarinnar yrði ofan á. Því erum við hér með nýjan samning, samning sem stjórnarmeirihlutinn fyrir ári síðan hafði ekki trú á að yrði hægt að gera og það er í sjálfu sér ágætt. Hins vegar eigum við enn að vanda okkur. Við þurfum að taka þennan nýja samning, lesa hann vel yfir og gaumgæfa alla þá kosti sem við höfum í stöðunni. Þess vegna hryggði það mig mjög að heyra til hv. þm. Róberts Marshalls í andsvari fyrr í dag við hv. þm. Bjarna Benediktsson þar sem hann krafðist þess að menn ákvæðu sig strax án þess að kynna sér málið.

Frú forseti. Maður verður hálfhneykslaður eða meira sorgmæddur yfir því að menn hafi virkilega ekki lært neitt af því sem átti sér stað fyrir ári síðan. Að minnsta kosti virtist mér það liggja í orðum hv. þm. Róberts Marshalls að menn hefðu ekki lært neitt. Á þessum tíma fyrir ári síðan stóðum við hér og kröfðumst þess að fá aðgang að gögnum. Á hverjum einasta degi kom það upp aftur og aftur að verið var að reyna að hindra það að þingmenn gætu kynnt sér gögnin sem lágu fyrir í málinu. Oft og tíðum var erfitt að upplifa það. Ég vonast til þess að ég hafi einfaldlega misskilið orð hv. þm. Róberts Marshalls áðan og hann ásamt öllum öðrum þingmönnum í salnum séu að kynna sér gögn málsins enn og aftur til að reyna að taka bestu ákvörðunina fyrir íslensku þjóðina. Ég tel að þjóðin eigi það skilið. Ég hélt að reynslan hefði kennt okkur að það væri það sem þingmönnum þjóðarinnar bæri að gera.

Frú forseti. Ég hef eytt tíma mínum undanfarna daga í að reyna að lesa mig til um þetta mál. Við þurfum að átta okkur á því að það er einn kostur að samþykkja samningana og annar kostur að gera það ekki. Það þarf að leiða fram í dagsljósið hvaða kostir og gallar fylgja hvorri leið og hvaða þýðingu það hefði ef við mundum ekki ganga að því að undirrita og samþykkja samningana í þinginu. Það þarf að liggja fyrir áður en þingið ákveður sig sem og mat á líkunum á því hvað gerist verði samningunum hafnað.

Síðan þarf að meta kosti og galla samninganna. Það vakna margar spurningar við lesturinn. Sérstaklega eru það spurningar sem varða endurheimtur krafna í þrotabú Landsbanka Íslands. Það er athyglisvert að mat á eignum búsins sé stöðugt að hækka. Það vekur ýmsar spurningar og ég tel að þingið þurfi að fá nánari upplýsingar með hvaða hætti menn komast að þeirri niðurstöðu. Menn telja að matið hafi verið of varfærið í upphafi. Það má vel vera að svo sé en það þarf að sýna mér fram á það áður en ég sannfærist um að svo sé. Ég tel að þar sem við erum að horfa á gríðarlegar skuldbindingar af hálfu ríkissjóðs þá þurfum við að fara vel yfir þetta. Sérstaklega í ljósi þess að okkur ber ekki lagaleg skylda til að gangast við samningunum. Við megum aldrei gleyma því að við höfum annan kost. Við megum aldrei gleyma því, frú forseti.

Síðan þurfum við jafnframt að átta okkur á því hvort við teljum rétt að skoða að gangast við samningunum um tímasetningar útgreiðslu úr þrotabúinu. Nú er fullyrt að byrjað verði að greiða úr þrotabúinu næsta sumar og það gangi upp í afborganir samningsins. Ég þarf að fá fullvissu um að svo sé. Ég stend í þeirri meiningu að þarna sé um venjulegt þrotabú að ræða og þar séu ýmis deilumál uppi. Ég get ekki ímyndað mér að kröfuhafar muni sitja undir því þegjandi og hljóðalaust að greitt sé úr þrotabúinu meðan óútkljáðar deilur eru um það hvernig kröfuhafaröðin á að vera. Það er einfaldlega ekki mín reynsla af því hvernig skipting þrotabúa fer fram þannig að meðan ég hef ekki verið sannfærð um að svo sé er þessi spurning ofarlega í huga mér.

Síðan eru að sjálfsögðu ýmsar spurningar varðandi gengismálin. Það er mikil óvissa varðandi það og menn þurfa að fara vel yfir það í fjárlaganefnd.

Frú forseti. Þetta eru helstu punktarnir sem ég tel að standi enn út af varðandi hvaða aðalatriði við þurfum að skoða áður en við myndum okkur afstöðu í málinu. Mér skilst að það verði hæstv. fjárlaganefnd sem komi til með að fara yfir það og það er vel. Menn þar á bæ eru vel inni í málum. En það er ekki hægt að skauta fram hjá því, frú forseti, að menn hafa bæði í fjölmiðlum og eins í þinginu í dag verið að setja fingurinn á að samningurinn sem liggur fyrir í dag sé mun betri en samningur sem ríkisstjórn Geirs H. Haardes undirritaði og gerði 14. nóvember árið 2008. Nú hef ég ekki tölu, frú forseti, á þeim ræðum sem ég hélt fyrir ári síðan í Icesave-málinu en þær voru margar. Það var fullyrt af hálfu ríkisstjórnarflokkanna í þeirri umræðu allri að þessi yfirlýsing sem undirrituð var 14. nóvember hafi verið bindandi, hafi verið einhvers konar samningur. Það hafi verið forsendan fyrir þeim ömurlega samningi sem ríkisstjórnarflokkarnir lögðu fram. Vegna þessarar umræðu er óhjákvæmilegt að draga fram og minna á að fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, lagði fram ítarlegt minnisblað um það hvernig málinu vatt fram á þessum tíma í hennar stjórnartíð. Í hennar minnisblaði kom fram þegar Brussel-viðmiðin svokölluðu voru undirrituð, sem var diplómatískt samkomulag, þá hafi samkomulagið við Hollendinga verið úr sögunni. Þetta liggur fyrir. Þetta lá fyrir fyrir ári síðan þannig að það er hjákátlegt að heyra menn koma upp og tala um þetta eins og enginn muni hvaða umræða átti sér stað fyrir ári síðan. Við erum ekki búin að gleyma þessu ömurlega máli. Við erum ekki búin að gleyma rangfærslunum sem komu fram í salnum. Við erum ekki búin að gleyma því hvernig farið var með gögn og hvernig þeim var haldið frá þinginu.

Í minnisblaði Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur segir, með leyfi forseta: „Þetta er diplómatískt samkomulag sem leiddi til þess að ríkin létu af tafaaðgerðum innan AGS, féllu frá niðurstöðum gerðardóms sem var bindandi og hófu formlegar samningaviðræður á grundvelli EES-réttar með aðkomu stofnana ESB og með hliðsjón af sérstaklega erfiðri stöðu Íslands. Þar með var samkomulagið við Hollendinga frá 11. september úr sögunni.“ Svo mörg voru þau orð og um þetta þarf ekki að fjalla frekar.

Vissulega vorum við í gríðarlega erfiðri stöðu á þessum tíma 14. nóvember 2008 og litaðist afgreiðslan á þessu minnisblaði við Hollendingana af þeirri stöðu. Það liggur fyrir í málinu. Um það eru allir sammála og það er alger óþarfi að reyna að setja það í annað ljós en hið raunverulega í þessari umræðu.

Ég ætla ekki, frú forseti, að dvelja mikið við fortíðina. Það voru mörg stór og þung orð sem féllu í umræðunni og hafa fallið í umræðunni allt frá því að þetta mál kom upp. Það er einfaldlega þannig að mig langar að vitna í ræðu hæstv. fjármálaráðherra sem hann hélt í þinginu 29. desember 2009 þar sem hann sagði að sagan mundi dæma okkur sem sitjum í þinginu. Orðin féllu á þá leið að við sem hefðum setið á þingi yrðum að geta staðið við orð okkar.

Ég get tekið undir þetta hjá hæstv. fjármálaráðherra. Það hlýtur að þurfa að horfa á alla söguna þegar hún verður skrifuð á endanum í því ljósi að hér þorðu fáir þingmenn úr stjórnarliðinu að koma upp og tjá sig þeir virtust taka ákvörðun á grundvelli flokkshagsmuna. Það var gríðarlega sorglegt að horfa upp á það og sem betur fer hafði forseti Íslands kjark til þess að hafna málinu og leggja það fyrir þjóðina. Það verður seint þakkað og við skulum aldrei gleyma því að það tókst. Það tókst með því að þjóðin neitaði að láta þetta yfir sig ganga með því að taka þátt í undirskriftasöfnuninni sem Indefence stóð fyrir. Með því að stjórnarandstaðan hélt uppi miklu málþófi í þinginu, löngum umræðum þar sem helstu rök voru reifuð og fékk með því fólk til þess að hugsa þessi mál. Það var ekki auðvelt vegna þess að menn voru þá í jólaundirbúningi eins og menn eru í dag. Engu að síður erum við að tala um gríðarlega hagsmuni til framtíðar fyrir þjóðina og við megum vera fegin að það sé kominn betri samningur en síðast. En að samþykkja hann hljóðalaust eins og mér fannst hv. þm. Róbert Marshall benda okkur á að gera fyrr í dag skulum við aldrei gera. Við skulum standa vörð um hagsmuni þjóðarinnar, um hagsmuni framtíðarinnar. Við erum að tala um gríðarlega mikla fjármuni. Það eru enn margir óvissuþættir varðandi samninginn og varðandi það með hvaða hætti hægt væri að greiða hann ef við ákveðum að gera það. Ég minni enn og aftur á grundvallaratriði í þessu máli. Okkur ber ekki lagaleg skylda til að greiða þetta. Við höfum engu að síður þann kost á borðinu að ganga til samninga. Við þurfum í rólegheitunum að vega og meta kosti og galla þess að ganga að samningnum.

Meira get ég ekki sagt um þetta mál á þessari stundu, frú forseti. Nú þurfa allir þingmenn að fara heim og lesa, vanda sig og muna að okkur ber grundvallarskylda til þess að líta til framtíðarhagsmuna íslensku þjóðarinnar. Ekki einfaldlega til að það sé þægilegt að klára málið og þá sé það frá og menn geti einbeitt sér að innanflokksátökum í sínum flokkum eins og Vinstri grænir eru væntanlega að eyða tíma sínum í hér í dag. Við þingmenn verðum að læra að vinna okkar vinnu og einbeita okkur að því sem skiptir máli ef við ætlum að taka á okkur skuldbindingar sem okkur ber ekki nein lagaskylda til að gera.