139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[18:32]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Enn á ný ræðum við Icesave á Alþingi. Þetta fer að verða sagan endalausa. Þrátt fyrir þjóðaratkvæðagreiðslur og höfnun þjóðarinnar á þeim samningum sem lágu fyrir skal reynt í þriðja sinn að koma einkaskuldum yfir á þjóðina, einkaskuldum fallins banka. Ég minni á það strax í upphafi, eins og ég hef alltaf sagt, að það er ekkert í lögum Íslands né Evrópusambandsins sem segir að Íslendingar beri ábyrgð á þessum skuldbindingum, þvert á móti er sérstakt ákvæði í þeirri tilskipun sem fjallar um Tryggingarsjóð innstæðueigenda um að ekki megi veita ríkisábyrgð vegna samkeppnissjónarmiða innan Evrópska efnahagssvæðisins því að ef eitt ríki mundi tryggja innstæður þýddi það flótta til þess ríkis sem tryggir innstæðueigendur. Við megum aldrei gleyma þeim grunni sem Icesave-málið er byggt á en þetta er hluti hans. Það er þessi siðferðislega spurning: Á að koma skuldunum yfir á íslensku þjóðina þó að hvergi megi finna lagastoð fyrir því?

Það virðist vera einbeittur vilji þessarar ríkisstjórnar að gera það, hversu undarlegt sem það kann að hljóma, og nú er lagt til atlögu í þriðja sinn. Ég ætla ekki að rifja upp þau rök og þær hótanir sem höfð voru uppi í fyrri umræðum en ég verð þó að minnast á það sem hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir nefndi í fyrrasumar, hún sagði að hér mundi bresta á frostavetur ef þingmenn samþykktu ekki Icesave-samninginn.

Eins og við munum hafnaði þjóðin samningunum svo eftirminnilega í þjóðaratkvæðagreiðslu og virðast hvorki þeir sem sömdu frumvarpið né ríkisstjórnin hafa munað þau varnaðarorð sem sögð voru í allsherjarnefnd á sínum tíma um að ef málið lenti aftur í þjóðaratkvæðagreiðslu væri mikilvægt að hafa nöfn frumvarpanna mjög stutt því að í lögum um þjóðaratkvæðagreiðslur segir að hafa skuli nöfn á frumvörpum mjög stutt svo einfalt sé að setja þau í þjóðaratkvæðagreiðslu. Nafn þessa frumvarps er hvorki meira né minna en sex línur að lengd þannig að fari málið aftur fyrir þjóðina stöndum við frammi fyrir sama vandamáli. Þetta var aðeins til áminningar fyrir þá sem semja þessi frumvörp um að hafa nöfnin aðgengileg og á skiljanlegu máli. Frumvarpið hefði að sjálfsögðu átt að heita frumvarp til laga um Icesave-samningana.

Mig langar að minnast á að hæstv. forsætisráðherra sagði ósatt í ræðustól og í fjölmiðlum í gær. Hún fullyrti að það samkomulag sem nú liggur fyrir milli ríkjanna hafi legið fyrir fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Það er ósatt því að 13. apríl sl. lagði ég fram fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra þar sem ég spurði um út á hvað það samkomulag hefði gengið sem ríkisstjórnin fullyrti að væri komið og frágengið þegar málið fór í þjóðaratkvæðagreiðslu þann 6. mars. Við skulum ekki gleyma því að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra hvöttu fólk til að sitja heima í þeirri atkvæðagreiðslu.

Svarinu við þeirri fyrirspurn var dreift þann 14. júní sl. og kom fram í því svari að vextirnir yrðu 5,5% og yrðu breytilegir eins og þá kvað um í lánasamningum Norðurlanda, íslenska ríkisins og Seðlabanka Íslands á þeim tíma, og að við mundi bætast vaxtaálag, að samið yrði um vexti í þeim samningum og felldir niður vextir á lánunum fyrir árin 2009 og 2010. Að öðru leyti væri efni fyrra samkomulags óbreytt. Það svar má finna á þskj. 1335 og vil ég minna fólk á að þetta er langt frá því að vera það sem nú stendur í hinum endurnýjaða samningi. Í svarinu stendur orðrétt, með leyfi forseta:

„Áætlaðir uppsafnaðir vextir á árunum 2009 og 2010 eru um 70 milljarðar kr. sem sýnir ávinning af þessu tilboði miðað við samningana sem áður höfðu verið gerðir.“

Þar með hef ég hrakið orð forsætisráðherra frá því í gær þar sem hún sagði beinlínis ósatt í þinginu því að eins og við vitum liggur í samningsdrögunum núna, þriðju Icesave-samningunum, að vextirnir hjá Hollendingum eru 3% og hjá Bretum 3,3%. Svona hlaupa mál í gegn algerlega athugasemdalaust og ég er mjög hrygg yfir þætti fjölmiðla í þessu máli eins og mörgum öðrum, að Íslendingar séu ekki upplýstir um sannleikann.

Náttúruauðlindir eru mitt hjartans mál og er ákvæði í samningnum að náttúruauðlindunum sé hlíft en þegar skoðaðar eru betur Evrópureglur sem gilda um náttúruauðlindir eru þær mjög illa varðar, sem sýnir fram á þá brýnu nauðsyn að við Íslendingar skilgreinum náttúruauðlindir okkar, hverjar þær eru og hvernig þær skulu varðar. Ég fór að skoða tilskipanir sem kveða á um náttúruauðlindir í Evrópusambandinu enda eru Evrópuþjóðir ekki svo ríkar af náttúruauðlindum eins og við erum. Hér er t.d. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins frá 21. apríl 2004 um umhverfisábyrgð. Þar eru náttúruauðlindir skilgreindar í 2. gr. 12. töluliðar:

„„[N]áttúruauðlind“: tegundir lífvera og náttúruleg búsvæði sem njóta verndar, vatn og land“.

Þetta er óljós skilgreining á náttúruauðlind. Síðan er fjallað aðeins um nytjar þessara sömu auðlinda í 13. tölulið.

Í tilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins nr. 2006/118, um verndun grunnvatns gegn mengun og spillingu, er í fyrsta tölulið nefnt að grunnvatn sé verðmæt náttúruauðlind og lengra nær þessi náttúruauðlindaskilgreining Evrópusambandsins ekki. Þess vegna er skrýtið að hægt sé að setja það fram í samningi sem snýr að Bretum og Hollendingum að náttúruauðlindir okkar séu verndaðar samkvæmt samningnum þar sem ekki er á hreinu hvernig skilgreina á hugtakið.

Það kemur líka fram að friðhelgisréttindi íslenska ríkisins eru varin með sama hætti og í viðaukasamningnum frá 19. október 2009. Ég vil minna á það einu sinni enn að friðhelgisréttindi íslenska ríkisins voru ekki varin í þeim samningi og það ákvæði kemur alveg óbreytt inn. Ég er mjög ósátt við það því að friðhelgisréttindi ríkisins eru það sem við þurfum að byggja á til að við getum staðið sem þjóð og rekið þetta þjóðarbú.

Mig langar til að grípa niður í grein um að fallið sé frá friðhelgisréttindum, með leyfi forseta:

„Íslenska ríkið nýtur að þjóðarétti friðhelgisréttinda í lögsögu annarra ríkja. Þessi friðhelgisréttindi stæðu í vegi fyrir lagalegri úrlausn deilumála vegna samningsins ef ekkert væri að gert. Það er föst venja í lánasamningum milli ríkja að víkja slíkum friðhelgisréttindum til hliðar.“

Þarna kemur beinlínis fram, í gr. 9.11 og í hluta gr. 10.11, að verið er að víkja friðhelgisréttindum þjóðarinnar til hliðar vegna þess að það tíðkast í samningum sem þessum. Það er grafalvarlegt mál og geld ég verulega varhuga við þessu ákvæði. Síðan segir í tillögugreininni, með leyfi forseta:

„Slík ákvæði hafa eðli málsins samkvæmt eingöngu gildi þar sem friðhelgi er til staðar, þ.e. í lögsögu erlendra ríkja. Án slíks fráfalls væri ekki hægt að stefna máli, eða reka það, fyrir umsömdum dómstóli.“

Þarna kemur skýringin á því hvers vegna búið er að semja um að málið fari fyrir gerðardóm og þarna er aftur komið inn það sem ég talaði svo oft um í síðustu umræðu, að fallið væri frá því að Íslendingar gætu rekið mál sín á Íslandi fyrir íslenskum dómstólum, og framsal dómstólavaldsins er enn þá í fullu gildi í þessum samningi.

Það get ég ekki fellt mig við þó svo að búið sé að bæta því við að Íslendingar fái að tilnefna aðila í gerðardómstólinn og hafa þar óháða forseta, hér er samt um framsal dómsvaldsins að ræða. Það er kannski eitthvað sem tíðkast í milliríkjasamningum en það er ekki allt sem um ræðir því að bæði gildistökuskilyrðin eru afar ítarleg, Íslandi í óhag. Það er í þessum samningi eins og báðum fyrri samningunum að Bretar og Hollendingar mæta til samninga og eru búnir að fá undirskrift íslenskra ráðamanna um að þeir eru varðir en við erum það ekki.

Skaðleysiskaflinn sýnist mér í fljótu bragði vera mjög áþekkur þeim sem var í fyrri samningum og er um að ræða skaðleysisafsal upp á sex greinar í þessum samningum. Sem dæmi má nefna að Ísland lýsir því yfir og undirgengst þá skuldbindingu gagnvart umboðsmönnum breska fjármálaráðuneytisins skilyrðislaust og með óafturkallanlegum hætti að Tryggingarsjóður innstæðueigenda muni tryggja að fullu greiðslur og efnd þeirra á réttum tíma. Það er mjög skýrt sett fram. Þar fellst ríkisstjórnin skilyrðislaust á að Bretar og Hollendingar gangi skaðlausir frá þessum samningi.

Hér eru fleiri skaðleysisyfirlýsingar, m.a. gr. 6.3 í breska samningnum sem fjallar um að lausn undan kröfu fáist þegar skuldin er að fullu greidd. Endurnýjun skuldbindinga við tilteknar aðstæður. Ég vil minna á að í fyrri samningi var síðasta greiðsluár árið 2030 en nú er búið að framlengja þann tíma til 2046 þannig að þau tvítugu ungmenni sem fagna stúdentsútskrift nú í vor verða komin á eftirlaunaaldur þegar þessi samningur verður fullefndur. Það er eitthvað sem ég mun aldrei skrifa undir því að ég tek ekki þátt í því meðan ég starfa sem þingmaður að skuldsetja komandi kynslóðir svo langt fram í tímann. Raunverulega er verið að skuldsetja tvær næstu framtíðarkynslóðir með þessum samningi.

Með þessu er ég ekki að segja að samningamenn hafi staðið sig illa í þessum viðræðum. Þeir gerðu hvað þeir gátu. Skipunarbréf þeirra hljóðaði upp á að þeir ættu að ná sem hagstæðustum samningum í stað þess að skipunarbréf þeirra hefði átt að kveða á um að sanna yrði skaðleysi Íslendinga, skaðleysi þjóðarinnar, því að það er fyrst og fremst það sem málið gengur út á, að sanna það og sýna fram á að við berum ekki lagalega skuldbindingu á þessum samningi.

Að lokum vil ég minna á, sem sýnir að Íslendingar hafi þurft að lúta í gras gagnvart þessum samningamönnum, að skaðleysiskaflinn gengur í eina átt og hvergi er minnst að hryðjuverkalögin sem Bretar beittu Íslendinga á sínum tíma. Hvers vegna fór sendinefndin ekki af stað með það að vopni að Bretarnir notuðu hryðjuverkalögin á okkur og settu þau á okkur án raunverulegrar ástæðu? Það kom fréttatilkynning um að við flokkuðumst með hryðjuverkamönnum. Það er ekki ásættanlegt að slíkt skuli ekki vera notað sem málsástæður í þessum samningi. Í stuttu máli má segja að frumvarpið kemur nánast óbreytt inn í þingið. Ég hef verið að skoða lagalega grunninn á því og sýnist að það sé óbreytt að mestu, að á milli samninga snúist allt fyrst og fremst um vextina. Það er ágætt að fá vextina niður en það er ekki það sem málið snýst um, það snýst um friðhelgisréttindin og þá skilyrðislausu kröfu að Íslendingar afsali sér náttúruauðlindum sínum ef greiðslufall verður. Ég minni enn á ný á að það þurfum við að lesa vel yfir núna og velta við hverjum einasta steini í máli þessu. Það fer nú til umsagnar og vonast ég til að sem flestir geti komið að því, því að nú er þörf á því að þjóðin (Forseti hringir.) standi saman, ekki síður en í atkvæðagreiðslunni 6. mars sl.