139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[18:47]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum enn Icesave. Það var ekki svo lítið sem ég ræddi það fyrir ári síðan, dag og nótt, og barðist mikið gegn því að það yrði samþykkt en það var samt samþykkt.

Nú erum við í allt annarri stöðu, frú forseti. Í fyrsta lagi er ekki búið að undirrita eitt eða neitt, eins og við stóðum frammi fyrir áður þegar hæstv. fjármálaráðherra þjóðarinnar var búinn að skuldsetja þjóðina með undirritun sinni. Fjármálaráðherra er ekki bara einhver maður úti á götu, hann er hæstv. fjármálaráðherra. Hann var búinn að skuldbinda ríkissjóð með undirskrift sinni sem var svo staðfest í lögum. Annað sem er núna er að við erum með dómsmöguleikann í stöðunni sem við höfðum ekki þá. (Gripið fram í.) Búið er að biðja okkur um upplýsingar um þetta vegna þess að ESA-dómstóllinn ætlar að skoða þessi mál, þ.e. Icesave. Við höfum þann möguleika að láta málið hreinlega fara í dóm. Við kvörtuðum einmitt svo mikið undan því síðast að þeir sem vildu fá um það úrskurð hvort okkur bæri að borga þetta eða ekki vildu fara í dóm en höfðu ekki tækifæri til þess heldur voru bara undir þrýstingi og kúgun.

Svo hefur það náttúrlega gerst að áhætta hefur farið minnkandi eins og ég sagði fyrr í dag. Hver einasti dagur sem líður breytir óvissu í vissu. Árið 2026 verður öll óvissa farin, þá vita menn allt um hvernig Landsbankanum reiddi af, hvernig gengið þróaðist og allt slíkt en þangað til er alltaf einhver óvissa en hún fer að sjálfsögðu minnkandi með hverjum deginum. Þess vegna er þessi samningur ekki eins ógnvekjandi núna og hann var, líka vegna hinna gífurlega háu Svavarsvaxta, sem ég kalla svo, 5,55% ofan á pund og evru sem er afskaplega hátt fyrir ríki að greiða til annars ríkis, það er nánast óþekkt. Ég held að fasteignalán í Bretlandi hafi verið með svipuðum vöxtum til jafnlangs tíma fyrir það sem einstaklingur skuldaði. Maður hefði talið að ríki væri kannski eitthvað ábyrgari skuldari.

Ef ég fer í gegnum söguna þá var ritað undir samning, mig minnir að það hafi verið 5. júní 2009, og það er heilmikil saga að segja frá því. Samningurinn flaug í gegnum stjórnarflokkana eftir nánast litla sem enga kynningu og er alveg ótrúlegt að menn skyldu hafa samþykkt slíkt í þingflokkum stjórnarmeirihlutans án þess að vita hvað þeir voru að samþykkja. Svo kom náttúrlega í ljós þegar á leið að þar að baki var ótrúlegur fjöldi af málsskjölum sem þurfti að fara í gegnum og höfðu áhrif. Menn samþykktu að fallast undir breskan rétt sem ég er ekki enn þá búinn að átta mig á hvernig er og hvernig dómafordæmi eru, jafnvel langt aftur í tímann. Það var ótrúlegt að menn skyldu hafa samþykkt þetta.

Síðan gerist það að nokkrir hugrakkir hv. þingmenn hjá Vinstri grænum fara í ákveðna andstöðu. Þeir gerðu sér grein fyrir að mikil áhætta var fólgin í þessum samningi eða gerðu sér kannski sífellt meira og meira grein fyrir því. Farið var í heilmikla vinnu í þinginu þar sem reynt var að breyta og takmarka þá áhættu sem þjóðin var að taka á sig undir mjög miklum þrýstingi, frú forseti. Maður þarf að átta sig á því að allan tímann var þetta nánast eins og viðskiptastríð. Bretar beittu okkur hryðjuverkalögum, Bretar og Hollendingar beittu kúgun í gegnum Evrópusambandið og utanríkisráðherra sinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum var líka beitt til að kúga Íslendinga. Í mínum huga var þetta viðskiptastríð og auðvitað áttu forsvarsmenn okkar að segja bara strax við þjóðina: Við erum í viðskiptastríði, við stöndum í stríði gegn þjóðum sem eru miklu sterkari en við.

Þegar þingsályktunin var samþykkt á Alþingi í árslok 2008 var ástandið mjög hættulegt. Við áttum ekki einu sinni gjaldeyri til að kaupa vörur, lyf, olíu og bensín þannig að staðan var mjög tæp á þeim tíma. Í þeirri stöðu var verið að kúga okkur til að samþykkja ákveðinn samning sem Bretar og Hollendingar stóðu að á öllum vígstöðvum, bæði í tengslum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og í gegnum Evrópusambandið.

Fram náðist ákveðin breyting með baráttu þar sem barist var eiginlega hús úr húsi. Það var svo merkilegt að þeir þingmenn sem vildu samþykkja þetta — ég hygg að annaðhvort hafi þeir ekki gert sér grein fyrir stærðunum, að 700 milljarðar væru meira en bílverð, eða áhættunni sem hefði getað dunið yfir þannig að samningurinn hefði keyrt þjóðina í þrot. Eftir langa mæðu þar sem barist var hús úr húsi í þinginu og slegist um hvert einasta orð þá tókst að koma inn efnahagslegum fyrirvörum sem ég átti góðan þátt í að semja og tóku mið af að þjóðin gæti yfirleitt greitt skuldina ef vera kynni að landsframleiðslan færi undir ákveðið mark og svo margt, margt fleira sem tekið var inn í því að þá ættum við ekki að borga eða greiðslan mundi frestast o.s.frv. Þetta var svo samþykkt á Alþingi sem lög. Þá gerist það að Bretar og Hollendingar fallast ekki á fyrirvarana, þá efnahagslegu og lagalegu fyrirvara sem voru settir inn, og aftur er farið að semja þó að ég hafi aldrei skilið af hverju í ósköpunum það var gert. Bretar og Hollendingar áttu bara að senda bréf þar sem þeir annaðhvort samþykktu fyrirvara septemberlaganna eða höfnuðu þeim. Þetta er sagan. Svo var aftur samið og aftur var samkomulagið barið í gegnum stjórnarflokkana og eftir langa umræðu gert að lögum 30. desember sem aldrei skyldi verið hafa. Það var dapur dagur, frú forseti.

Síðan neitaði forsetinn að skrifa undir lögin, það var glaður og bjartur dagur, og vísaði þeim til þjóðarinnar. Þjóðin áttaði sig á því hvað var á bak við þetta þó að margir hv. þingmenn hefðu ekki áttað sig á því. Ég held að þeir þingmenn sem samþykktu þessi ósköp 30. desember þurfi nú að grannskoða hug sinn og hvort þeir eigi að sitja á þingi eftir þessi ósköp, sérstaklega eftir að nú er kominn samningur sem er jafnvel ekki nema einn tíundi af þeirri byrði sem þá var samþykkt og áhættan miklu meiri þá en nú er af því að það er liðið heilt ár sem hefur leitt margt í ljós. Það er sem sagt komið tilboð í Iceland, eina stærstu eign Landsbankans. Á Íslandi gengur ágætlega, útflutningur vex þannig að nýi Landsbankinn getur væntanlega borgað skuldabréfið betur o.s.frv. Allir þeir þingmenn sem samþykktu þessi ósköp þurfa nú að svara fyrir það, finnst mér, og taka ábyrgð, í það minnsta biðjast afsökunar á því að hafa gert þau ósköp. Það voru 33–34 þingmenn. Miklar breytingar geta því orðið á þingliði á næstunni.

Áhættan fer minnkandi, eins og ég gat um, en þó er hún töluvert mikil enn þá, frú forseti. Ég minni á að þegar hrunið varð reiknaði enginn með því, ekki nokkur maður. Það voru 0% líkur á því að allir þrír bankarnir færu á hausinn. Menn reiknuðu með að það gæti ekki gerst. Þegar maður talar við erlenda aðila um hvort það geti gerst hjá þeim að sama hlutfall banka fari á hausinn þá segja þeir allir: Nei, það getur ekki gerst. Áhættan var því eiginlega 0%. En það sem gæti gerst núna er að neyðarlögunum yrði hnekkt. Það mundi þýða óskaplega byrði vegna Icesave. Síðan gæti það gerst að einhver teldi sig eiga sökótt við Landsbankann gamla, að hann hefði ráðlagt rangt við kaup á hlutabréfum eða eitthvað slíkt, og það gæti komið skaðabótakrafa í almennar kröfur sem þá bættist við og yrði hliðsett við innlánin. Eftir þær hremmingar gæti Landsbankinn kannski ekki borgað nema 5% eða 10% af innlánunum. Þá værum við allt í einu komin með risastóra skuldbindingu upp á 600 milljarða. Ég vona að sjálfsögðu að það gerist ekki en örlitlar líkur eru á því.

Svo er merkilegt að nú höfum við val. Við getum annaðhvort samþykkt þetta eða hafnað því og þá fer málið í dóm. Ef við samþykkjum það þá gerist eitthvað og ef við höfnum því gerist eitthvað annað, efnahagslega. Ef við samþykkjum segja sumir að við fáum ekki lánsfé, ég á ekki von á því en það má meta það. Ef við höfnum samningnum segja sumir að það verði frostavetur enn og málið fari til dóms hjá ESA. En þá gerast dálítið skrýtnir hlutir, frú forseti. Þá fellir dómurinn kannski þann dóm að Íslendingar eigi að borga vegna rangrar innleiðingar. Hvað gerist þá? Þá er búið að segja við þau ríki í Evrópu sem eru með svipað kerfi: Heyrið, kerfið ykkar er ekki í lagi, það er ríkisábyrgð á því. Það er einmitt það sem Evrópusambandið er búið að leggja áherslu á alla tíð að bankakerfið eigi að borga og á því sé ekki ríkisábyrgð. Ef við verðum neydd til að borga þrátt fyrir rétta innleiðingu, þ.e. ríkissjóður, þá er á því ríkisábyrgð sem segir að allt bankakerfið í Evrópu sé þá með ríkisábyrgð. Svo gerist það náttúrlega, frú forseti, að mér skilst, að við borgum í krónum — þá borgum við í krónum. Það er allt önnur samningsstaða. Ef við borgum í krónum höfum við gjaldeyrishöft og Bretar og Hollendingar yrðu bara að eiga innstæður á Íslandi, nokkuð lengi hugsanlega, kannski 100 ár eða eitthvað. Við gætum lagt skatta á þær, látið verðbólgu éta þær upp og alls konar þannig að (Gripið fram í.) það væru miklir möguleikar í því dæmi.

Ef við hins vegar vinnum málið þá bara vinnum við það, borgum ekki krónu sem er mjög ánægjulegt. Þá borgum við ekki krónu, en hvað skyldi gerast úti í Evrópu? Þá gerist það að innlánstryggingarkerfið verður ótrúverðugt, það gildir ekki á Íslandi og það gildir þá heldur ekki í Evrópu og það getur minnkað traust á bönkum í Evrópu. Í báðum tilfellum er þetta mjög slæmt fyrir Evrópusambandið og bankakerfið í Evrópu. Það skýrir tregðu þessara aðila til að láta Íslendinga skila vörn sinni og hvað þeir voru alltaf tilbúnir til að fresta og fresta. Ég hef ekki þá reynslu af þessum köppum þarna suður í Evrópu hjá ESA að þeir séu tilbúnir til að fresta en nú voru þeir tilbúnir til að fresta aftur og aftur þannig að við næðum samningum. Ég hugsa að þeir hafi ekkert voðalega mikinn áhuga á að fá málið yfirleitt til sín í dóm. Það þurfum við að hafa í huga. Þess vegna fer það í dóm ef við samþykkjum það ekki og þá vilja menn kannski allt í einu semja voðalega vel og varlega sem er miklu þægilegra en það sem hér er um að ræða.

Spurningin er: Af hverju lá svona mikið á að skrifa undir Icesave, frú forseti? Ég ætla að vona að það sé ekki sú „motivation“ sem hvíslað var að mér, ég ætla að vona að hvatinn að því eða sú „motivation“, ég nota erlent orð, sé ekki að klekkja á Sjálfstæðisflokknum, láta þjóðina borga í 10, 20, 30 ár eitthvað sem væri Sjálfstæðisflokknum að kenna. Ég vona að það hafi ekki verið hvatinn en ég hef aldrei skilið af hverju lá svona mikið á að skrifa undir Icesave. Ég hef bara ekki skilið það. Áhættan var mikil og menn gátu tekið því rólega og samið í rólegheitunum. Það er ekkert óalgengt að svona deilumál taki 2–3 ár en það þurfti allt í einu að samþykkja þetta í hvelli, fljótlega eftir stjórnarskiptin.

Mikið er talað um CIRR-vexti. CIRR-vextir, frú forseti, heita á ensku Commercial Interest Reference Rates og eru vextir á lánum sem ríkisstjórnir lána einkafyrirtækjum án þess að það sé talið samkeppnishamlandi. Það eru lægstu vextir sem má lána án þess að sagt sé að þeir hamli samkeppni. Þetta eru ekki vextir milli ríkja en samt eiga þeir að taka við í þessum samningi ef við getum ekki borgað. Ég hef aldrei skilið það.

Tíminn er að verða búinn. Ég vona að þetta verði góð umræða. Það er allt annað andrúmsloft núna en fyrir ári síðan. Það er ekki búið að undirrita samninginn og hann er tiltölulega góður. Ég vil taka það fram að samningsmenn okkar, sérstaklega Lee Buchheit og Lárus Blöndal, hafa staðið sig frábærlega vel. Þeir fengu nefnilega það verkefni að semja og þeir sömdu. Það er ekki þar með sagt að þeir vilji endilega semja svona, ég hugsa að þeir séu jafnvel með á því að við sendum þetta í dómsmál. Við þurfum að spyrja þá að því. Við þurfum að fara í líkindamat á því hvað gerist yfirleitt. Hve miklar líkur eru á að við töpum eða vinnum málið? Hvaða efnahagslegar afleiðingar hefur það? Líkindamódel yfir það. Svo þurfum við að hafa líkindamat á því hvað gerist ef við samþykkjum samninginn. Hvernig dreifist þá áhættan í báðar áttir? Getur verið að við græðum á þessu öllu saman eða getur verið að við lendum í miklum ógöngum? Það þarf hv. fjárlaganefnd að fá á hreint áður en ég get samþykkt þetta.