139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[20:03]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég get um margt tekið undir með hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni og vil þakka honum fyrir hans góðu ræðu. Ég ætla ekki að endurtaka það sem hann sagði en það getur þó vel verið að ég fari á sömu slóðir.

Ég lét þess getið í þessum sama ræðustól um daginn þegar fyrst var ámálgað að möguleiki væri á því að Icesave-málið væri að koma inn í þingið eina ferðina enn, að Icesave-aðventan væri runninn upp og eru það orð að sönnu. Nú stöndum við hér 16. desember og ræðum Icesave. Ég hef undirbúið mig fyrir þetta mál með því að lesa gömul skjöl og gamlar ræður auk nýju skjalanna. Það fer dálítill hrollur niður eftir bakinu á mér þegar ég fer í gegnum þessar gömlu ræður, í gegnum málflutninginn, í gegnum þetta mál og allt það sem sagt hefur verið og hér eru við komin aftur, eina ferðina enn. Það var auðmjúkur fjármálaráðherra — eða lágstemmdur hæstv. fjármálaráðherra, er kannski betri lýsing á þeim manni sem kom í dag og talaði um að nauðsynlegt væri að við næðum samstöðu, að við værum menn að meiri ef við gætum gleymt því sem sagt hefur verið og að betra væri að tala um framtíðina en ekki það sem gerst hefði.

Það er ekki nema von að hæstv. fjármálaráðherra tali þannig vegna þess að við að lesa þessi gömlu skjöl, þessi gömlu plögg, við það að fara yfir málflutning hæstv. fjármálaráðherra, kemur mér alls ekki á óvart að hann vilji ekki muna það sem sagt var á fyrri stigum.

Það var eitt sem mér fannst skorta í ræðu hæstv. fjármálaráðherra, mér fannst átakanlegt hvað það skorti, og einnig í ræðu hæstv. forsætisráðherra, en það er kannski það sem þau sjálf hafa verið hvað ötulust við að kalla eftir hjá öðru fólki. Það er krafan um afsökun, krafan um að fólk sýni auðmýkt, krafan um að fólk viðurkenni mistök sín. Þar sem ég sat í sæti mínu í dag og hlustaði á hæstv. fjármálaráðherra leitaði hugur minn til orða hans sjálfs einmitt um þetta, um kröfu um afsökun. Ég fór að skoða í gömlum plöggum og sá að sunnudaginn 16. ágúst 2009 flutti hæstv. fjármálaráðherra mikla ræðu á Hólahátíð sem kallaðist „Hugleiðing um líf og sögu þjóðarinnar“ í Hóladómkirkju. Það var mikið rætt um fyrirgefningu eða afsökun í þeirri ræðu og hann talar mikið um það í þessari ræðu að íslensk stjórnvöld, íslenskir aðilar, þeir sem voru valdir að bankahruninu að hans mati, hafi ekki komið og beðist afsökunar.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Og hvernig er það, þurfa ekki ýmsir að biðjast afsökunar nú? Ég bíð eftir afsökunarbeiðni þeirra sem báru ábyrgð á Landsbankanum síðustu árin. Og ekki væri verra ef þeir kæmu svo með auð sinn þann sem eftir kann að standa einhvers staðar og legðu hann í púkkið til að bæta tjónið. Hlýtur ekki að koma afsökunarbeiðni bráðum frá þeim sem einkavæddu Landsbankann, frá bankastjórum, bankaráðsmönnum og eigendum sem með atferli sínu hafa valdið þjóðinni ómældu tjóni og sálarangist?“

Það getur vel verið. Síðan segir hann:

„Nær væri að allir þeir sem mesta ábyrgð bera á hruni bankanna, ekki síst Landsbankans, bæðu þjóðina afsökunar á því mikla tjóni sem þeir hafa valdið, krjúpandi á hnjánum.“

Þarna kallar vígreifur hæstv. fjármálaráðherra 16. ágúst 2009 hátt á torgum að nú sé tíminn til að biðjast afsökunar. Hinn sami maður kom hins vegar í morgun, og hefur komið fram eftir að þessi nýi samningur leit dagsins ljós, algerlega laus við að biðjast afsökunar. Þvert á móti hefur hann verið spurður um það í fjölmiðlum hvort hann ætti að biðjast afsökunar á gamla samningnum og þá hefur hann svarað því til að hann muni skoða stöðu sína. En það er kannski ekki það sem verið var að biðja um.

Nú ætla ég ekki að eyða öllum tíma mínum í að fara fram á afsökunarbeiðni frá hæstv. fjármálaráðherra. Það sem ég geri að umtalsefni er að það vantar alla auðmýkt í það fólk sem stóð hér og talaði um að við í stjórnarandstöðunni beittum grímulausu málþófi, að við færum gegn lýðræðinu, við beittum ofbeldi í þinginu og kæmum í veg fyrir endurreisn Íslands, að hér yrði ísöld ef við samþykktum ekki þennan samning. Það eru margar dagsetningarnar sem áttu aldrei að renna upp bara vegna þess að við samþykktum ekki Icesave.

Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sagði í dag að biðin hefði einhvern verðmiða, að stórframkvæmdir hefðu tafist. Ég fór í andsvar við hæstv. ráðherra og spurði hann hvaða stórframkvæmdir hann væri að vísa í. Það varð fátt um svör. Það eina sem hann gat nefnt á endanum var Búðarhálsvirkjun, sem þó er komin af stað og hefur verið eitt af helstu flaggskipum þessarar hæstv. ríkisstjórnar vegna þess að það er eina framkvæmdin sem hæstv. ríkisstjórn hefur ekki sjálf tafið með einum eða öðrum hætti. Ég sagði: Það getur ekki verið álverið í Helguvík. Nei, það hefur ekki tafist út af Icesave, það hefur tafist út af ríkisstjórninni. Það getur ekki verið álverið á Bakka. Nei. Erum við ekki alveg sammála um það öll sem erum í þessum sal að það eru einhverjar aðrar ástæður fyrir þeirri töf? Ekki getur það verið að Icesave hafi tafið gagnaversframkvæmdir á Reykjanesi? Nei, hæstv. forseti, ég tel svo ekki vera. Ég held að það séu einhver önnur öfl sem tefja það og ég vona að við í sameiningu, ég og virðulegur hæstv. forseti, getum komið í veg fyrir að þau öfl nái að tefja það mál til frambúðar. Ég verð að segja að eftir öll þessi ummæli, eftir allt sem á undan er gengið — ég fann í fórum mínum heimildir um þegar hæstv. fjármálaráðherra var einhvern tíma alveg að gefast upp á stjórnarandstöðunni og meinta málþófinu. Þá sagði hann í Fréttablaðinu um formenn stjórnarandstöðuflokkanna, hv. þm. Bjarna Benediktsson og hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson, og vandar þeim ekki kveðjurnar, með leyfi forseta:

„Auðvitað eru þarna ungir og reynslulitlir menn í forustu og verða að hafa tíma til að sanna sig, en þeir mega þá ekki færast of mikið í fang.“

Nei, það mega þeir ekki, virðulegur forseti, vegna þess að það er náttúrlega alveg ómögulegt. (EKG: Sælir eru hógværir.) Mjög hógværir.

Síðar í sama viðtali segir hann, með leyfi forseta, ég vitna hér í ræðu sem ég flutti um málið 5. desember í fyrra:

„Við höfum gert þrjár meiri háttar tilraunir til að koma vitinu fyrir þau“, og þá er verið að vísa í það málþóf að láta okkur hætta að tala um samninginn, „en þær hafa ekki borið árangur enn þá.“ Þær tilraunir sem hann vísaði til og sagði að hefðu ekki borið árangur voru þær að fá okkur til að hætta að tala um samninginn. Þau gerðu okkur tilboð og sögðu: Hvenær ætlið þið að hætta að tala í þessu máli? Það var tilboðið.

Það sem leiðir af öllu þessu er að það ríkir mikið vantraust á milli aðila um hvernig við ætlum að klára þetta mál og það dregur enginn dul á að sá samningur sem við tökum nú til 1. umr. er miklu betri, mörg hundruð milljörðum kr. betri en sá samningur sem hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnin reyndu að troða ofan í íslensku þjóðina í fyrra, en þau geta ekki einu sinni viðurkennt það. Það er gert lítið úr því af einhverjum ástæðum. Af hverju má ekki bara viðurkenna það og svo getum við öll farið í að leysa þetta mál? Nei, það þarf einhvern veginn að gera það tortryggilegt líka.

Þessi aðferð þeirra gerir það að verkum að í fyrsta lagi er ekkert traust á milli manna hér. Það er ekki einu sinni þannig að við getum sammælst um að ræða samninginn og hafa málsmeðferðina þannig að við getum verið róleg yfir því að málið fái vandaða og góða málsmeðferð. Nei, við erum öll á nálum yfir því, vegna þess að sporin hræða, að eitthvað verði gert til að koma í veg fyrir að svo megi verða. Ég vona svo sannarlega að við berum gæfu til þess, að okkur auðnist að koma málinu í þann farveg að það fái vandaða málsmeðferð, að það fái þá umræðu, þann tíma og þá meðferð á Alþingi sem það þarf vegna þess að það sem þessi samningur hefur umfram þá samninga sem við höfum áður fjallað um og rekið ríkisstjórnina til baka með er að hann er unninn af færu fagfólki. Ég hlustaði á aðalsamningamanninn, formann samninganefndarinnar, Lee Buchheit, á fyrirlestri í háskólanum í síðustu viku. Ég varð mjög heilluð af málflutningi hans, hvernig hann svaraði þeim spurningum sem fyrir hann voru lagðar og hvernig hann fór yfir málið. Það gerði hann mjög vel og skilmerkilega. Ég spurði hann um hvernig hann mæti líkurnar á því að við gætum unnið dómsmál ef út í það færi. Hann hafði að sjálfsögðu fyrirvara á því en sagði að við hefðum gott mál, good case, sagði hann á ensku. Síðan er það alltaf mat, hvernig getum við metið áhættuna af þessum samningi og áhættuna af því að fara fyrir dóm? Hver væri versta útkoman úr því? Það er sú vinna sem við förum fram á að verði unnin í þessari umferð, að mat verði lagt á þannig að við getum greitt atkvæði þegar kemur að því að afgreiða málið úr þinginu, fullviss um hvaða leið verður ofan á, hvort sem það verður að samþykkja þennan samning eða fara einhverja aðra leið.

Tíminn er stuttur og fljótur að líða. Ég vil aðeins ítreka að ef við ætlum að lenda málinu með þeim hætti sem okkur er öllum sómi að verðum við öll að leggja okkur fram. Það var mikilvægt sem fram kom í máli hæstv. forsætisráðherra í dag, hún sagði samstöðuna mikilvæga. Hún sagði enn fremur í andsvari að hún ætlaði ekki að hlutast til um verklag Alþingis, enda væri það ósæmandi að framkvæmdarvaldið væri að skipta sér af því. Ég vona svo sannarlega að það verði ofan á að Alþingi fái frið til að klára málið. Ég hef enga trú á því að það sé svo mikil tímapressa í því að við getum ekki gefið okkur allan þann tíma sem við þurfum, enda sagði hæstv. fjármálaráðherra í dag í andsvari við hv. þm. Pétur H. Blöndal að það væri alveg rétt hjá þingmanninum að óvissan í þessu máli minnkaði með degi hverjum. Þá eigum við að notfæra okkur það vegna þess að það eina sem við getum verið fullviss um í þessu máli er að tíminn vinnur með okkur og vönduð vinnubrögð eru þau sem munu koma okkur á leiðarenda í þessu máli en ekki að göslast áfram og gera sömu mistökin og gerð hafa verið áður. Það skapar einungis tortryggni og vandamál. Ég hvet okkur því til að fara vel yfir málið og gefa okkur allan þann tíma sem við þurfum til að koma því farsællega í höfn, hver svo sem niðurstaðan verður.