139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[20:17]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Það vakti athygli mína að hún minntist á orðaskipti sín við hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra þegar hann reyndi að svara spurningu hennar um hugsanlegan kostnað sem hefði fallið á ríkið á meðan Icesave-málið var óleyst. Hann nefndi að ekki hefði verið hægt að fara í stórframkvæmdir en gat ekki svarað því um hvaða stórframkvæmdir var að ræða. Það leiðir líkur að því að þetta hafi allan tímann verið hluti af hræðsluáróðrinum. Þetta hafi verið hluti af blekkingunni um að það yrði að samþykkja Icesave og ef það yrði ekki gert yrði það Íslendingum til vansa.

Mig langar til að spyrja hana: Hvernig túlkar hún þá staðreynd að enn á ný skuli ríkisstjórnarflokkarnir halda fram þessari staðreynd? Hvað ætli vaki fyrir þeim?

Þá langar mig líka að velta upp við hv. þingmann hvort öll þessi skjöl og leyndargögn sem komu upp á yfirborðið — hvort hún sé ekki sammála mér um að það sé akkúrat þess vegna sem algert vantraust ríkir á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Er það út af þeirri staðreynd að hér var haldið frá gögnum eins og lögfræðiáliti breskrar lögmannsstofu, hliðarsamningnum við Icesave-samkomulagið og öðrum mikilvægum gögnum sem hefðu þurft að koma strax fram í dagsljósið?