139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[20:24]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir með hv. þingmanni. Ég get fallist á að það hafi örlað á afsökunarbeiðni hjá hæstv. utanríkisráðherra. Hann sló þar með bæði hæstv. fjármálaráðherra og forsætisráðherra út í þeirri atrennu. Ég hvet þau til að gera betur í þeim efnum. Eins og ég fór yfir í ræðunni minni og vitnaði til ræðu hæstv. fjármálaráðherra á Hólahátíð í fyrra 16. ágúst 2009 sem ég hvet hæstv. ráðherra, af því að hann er genginn í salinn, til að rifja upp það sem hann velti upp hvort ekki væri kominn tími á afsökunarbeiðnir frá ýmsum aðilum í samfélaginu. Ég sendi þá boltann yfir á hann og spyr hvort það geti verið að hann eigi að líta í eigin barm.

Ég tek undir með hv. þm. Bjarna Benediktssyni og hæstv. fjármálaráðherra sem sögðu í dag að allir sem hafa komið að þessu máli hafi verið að reyna sitt besta. Ég ætla engum það að hafa ekki verið að því. En það besta hefur bara ekki verið nóg. Það hafa mörg mistök verið gerð. Svavarssamningurinn og samningurinn sem á eftir kom eru dæmi um mikil mistök. Þá verða menn að vera menn að meiri og viðurkenna það. Ég held að það væri góð byrjun. Ég held að ef hæstv. fjármálaráðherra hefði komið hér í dag með vott af auðmýkt og nálgast málið á þann hátt þá held ég að við hefðum tekið honum betur í umræðunni.