139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[20:26]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Við höldum út í mikla yfirferð þingsins sem vonandi fær þann tíma sem því ber til að fara yfir frumvarp til laga um heimild til handa fjármálaráðherra til að staðfesta þá samninga sem hvað mest hafa verið til umfjöllunar í samfélaginu á síðustu mánuðum og missirum, Icesave-samningana.

Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með umræðunni í dag, meðal annars af hálfu hæstv. ráðherra. Það er til að mynda eins og ekki megi bera saman þennan samning og þann samning sem var felldur með afgerandi hætti í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrr á árinu. Ég vil hins vegar byrja á að taka einlægt undir það sem ég held að hæstv. fjármálaráðherra hafi sagt fyrr í dag að það væri góð gjöf til þjóðarinnar ef við næðum að sameinast um að gera þátt þjóðarinnar sem hættuminnstan. Ég trúi því að allir alþingismenn nálgist málið á nákvæmlega þann hátt.

Hvað þarf þá að gera? Þá þarf að veita þinginu svigrúm, tíma og tækifæri til að fara yfir þennan samning. Ef það er eitthvað sem við eigum að hafa lært af málinu öllu þá er það sérstaklega það að það þarf að gefa þinginu svigrúm til að fara yfir málið og veita fjárlaganefnd aðstoð til að fara sem best yfir samninginn til að við getum komist að þeirri niðurstöðu, helst sameinuð, að gera þátt þjóðarinnar sem bestan. Þetta skiptir okkur miklu máli í þessu öllu. Það var því ágætt að heyra auðmýktartón í hæstv. utanríkisráðherra sem var að myndast við að reyna að þakka stjórnarandstöðunni fyrir það að við værum þó komin þetta langt með þennan samning. En ég vil sérstaklega geta þess að stærsta þáttinn á að sjálfsögðu þjóðin sjálf, ekki endilega stjórnarandstaðan heldur fyrst og fremst þjóðin sjálf sem gaf ríkisstjórninni rauða spjaldið í þessu máli og sagði: Stopp, farið og vinnið þetta betur, hugsið það betur hvað þið eruð að gera.

Ég vil sérstaklega draga það fram sem vel er gert í þessu máli. Ríkisstjórnin hafði þó dug í að draga fulltrúa stjórnarandstöðunnar inn í nefndina og stjórnarandstaðan fékk sinn fulltrúa og að auki var sameinast um aðra góða menn, einstaklinga. En í ljósi kröfunnar um kynjaða hagstjórn hefði verið gaman að sjá konu í samninganefndinni en ég vil engu að síður geta þess að þeir einstaklingar sem stóðu að samninganefndinni hafa staðið sig vel. Ég veit það meðal annars frá formanni Sjálfstæðisflokksins sem hefur fylgst með þessu eins og kom fram í dag. Þetta skiptir allt máli, það hefur verið reynt að vanda til verka og þá vona ég að þegar þessi drög að samningum liggja fyrir — sem hafa verið áritaðir og við erum að afla heimilda fyrir hæstv. fjármálaráðherra til að undirrita þá — fái þingið það svigrúm eins og ég hef getið um til að fara yfir þessa þætti.

Til að átta sig á muninum sem um er að ræða verða menn að bera saman samningana og þá mega hæstv. ráðherrar, ríkisstjórnin og stjórnarþingmenn ekki skáskjóta sér undan því að fara í þann samanburð. Það er alveg rétt sem kom fram í Kastljósi þar sem hæstv. ráðherra sagði: Við vorum í þeirri stöðu sem við vorum í þegar gamli, vondi, ljóti samningurinn var undirritaður með öllum þeim hörmungum sem í honum fólust. Við vorum í þeirri stöðu sem við vorum í, sagði hæstv. fjármálaráðherra.

Það er ekki í fyrsta sinn í sögu stjórnmálanna. Nýleg dæmi eru um að menn hafa tekið ákvarðanir í ljósi þeirrar stöðu og í ljósi þess umhverfis sem þeir eru í hverju í hverju sinni — pólitískar ákvarðanir hafa verið teknar í ljósi þess en svo virðist sem einhver ákveðin flokksskírteini þurfi til að það megi. Ríkisstjórnir hvers tíma hafa einmitt í ljósi þeirrar aðstöðu sem þær eru í hverju sinni tekið ákvarðanir út frá bestu sannfæringu alltaf með það að markmiði hvað sé þjóðinni fyrir bestu.

Við getum deilt um það eftir á hvort ákvörðun var í hverju tilviki fyrir sig rétt eða röng. Ég get nefnt neyðarlögin sem dæmi, þau voru umdeild. Þau eru samt væntanlega að gera íslensku þjóðinni mikið gagn á sama tíma og Írar fara allt aðra leið út úr efnahagsþrengingum sínum, þeir ákváðu einfaldlega að ábyrgjast alla bankana en ekki eingöngu innstæðurnar og reyna að slá ákveðinni skjaldborg um þá. Nú þegar við erum með tvo samninga sem er svo auðvelt að bera saman verða menn einfaldlega að hafa hugrekki til að segja: Niðurstaðan var ekki góð, niðurstaðan var röng. Menn verða stærri af því að viðurkenna þau mistök.

Ég ætla að fara aðeins yfir nokkur atriði sem þarf að skoða. Ég sit í fjárlaganefnd og þó að ég hafi greint ákveðinn tón hjá hæstv. forsætisráðherra fyrr í dag, þrátt fyrir fögur fyrirheit um að heimila þinginu og þar með fjárlaganefnd að fara vel yfir samninginn, fannst mér samt vera gerð ákveðin tilraun til að leggja ákveðnar línur um vinnubrögðin í þinginu. Slíkar ráðleggingar eru sama og þegnar. Við ætlum að gera þetta á okkar forsendum í fjárlaganefnd og það telst náttúrlega upplýsing. Upplýsing er ávallt til góðs á öllum sviðum fyrir samfélagið og þá skiptir máli að nefndin hafi svigrúm til að afla sér upplýsingar og það er þegar búið að boða til fyrsta fundar vegna Icesave í fyrramálið þar sem samninganefndin mun væntanlega að einhverju leyti fara yfir málið og við munum senda það út til umsagnar.

Það skiptir máli í ljósi þess tíma sem er að ganga í garð, í ljósi jólanna, hátíðar kærleika og friðar, að þeir sem málið er sent til umsagnar fái þá líka tíma til að fara gaumgæfilega yfir það. Ég velti fyrir mér ýmsum þáttum. Það er augljóst að við munum leita til Seðlabankans, Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og fleiri aðila til að fara yfir ákveðna þætti. Ég velti líka fyrir mér ákveðnum lögfræðilegum álitaefnum, hvort þau séu þarna öll inni. Ég get ekki áttað mig á því við fyrsta yfirlestur. Við fengum 160 síðna skjal í hendurnar í gær. Ég get ekki áttað mig á því við fyrsta yfirlestur hvort allir lögfræðilegu skilmálarnir séu uppfylltir sem við lögðum mikla áherslu á og náðum í gegn, meðal annars skilmálar sem voru tengdir Ragnars Halls-ákvæðinu svonefnda. Eru þeir inni? Ég sá það ekki í fljótu bragði en þá kemur það einfaldlega í ljós. Allt þetta þurfum við að fara gaumgæfilega yfir. Við þurfum að tala við Indefence, við þurfum að tala við lagaprófessora eins og Stefán Má Stefánsson og fleiri sem hafa komið að málinu á fyrri stigum og veitt mjög dýrmæt ráð fyrir þjóðina alla.

Við þurfum einnig að fara yfir mestu óvissuþættina en á það er réttilega bent í skjali sem fylgir frumvarpinu. Hverjir eru stærstu áhættuþættirnir? Þeir eru eins og við vitum fyrst og fremst fólgnir í gengisáhættunni og síðan því hvað kemur út úr skilanefnd Landsbankans. Það þýðir um leið, af því að það er svo stór og veigamikill þáttur í þessu öllu, að við þurfum að fá góðar og miklar upplýsingar frá skilanefnd Landsbankans. Hún verður að geta gefið okkur ákveðna mynd af því hvað hægt er að fá á næstu missirum til greiðslu upp í Icesave þannig að við getum sagt hver hin raunverulega niðurstaða verður árið 2016 með meiri vissu en áður. Það er að mörgu að hyggja, herra forseti, hvað þetta mál allt varðar.

Það var hins vegar undarlegt að hlusta á ræðumenn frá stjórnarmeirihlutanum í dag og þá ekki bara hæstv. ráðherra heldur ekki síður þingmenn stjórnarmeirihlutans. Strax við 1. umr., og ekki sólarhringur liðinn frá því að við þingmenn fengum skjalið í hendurnar, 160 síðna skjal, var farið í þennan farveg sem ég vona að við náum að forðast, þ.e. að setja alla í spennitreyju. Strax var byrjað á að knýja fram svör frá stjórnarandstöðunni um það hvort hún ætlaði að styðja málið eða ekki. Við sjálfstæðismenn höfum marglýst því yfir að við munum styðja þá leið sem við teljum, eftir gaumgæfilega íhugun og yfirferð, að sé þjóðinni fyrir bestu. Það er ekki leyfilegt að fara í pólitískar skotgrafir, það er bannað í þessu máli og ég treysti því að allir flokkar nálgist málið með þeim hætti hér á þingi.

Stóra málið verður síðan þegar við erum búin að fá þessi gögn í hendurnar að vega og meta það því það eru enn þá tveir möguleikar. Við sjálfstæðismenn höfum alltaf sagt að okkur beri ekki lagaleg skylda til að gangast við þessum ábyrgðum, gangast við þessu og gangast undir Icesave-samninginn. Það er einn möguleiki sem við höfum velt fyrir okkur. En við höfum hins vegar alltaf lagt okkur í líma við og lagt áherslu á það að við viljum gera eins og við getum til að fara samningaleiðina og við undirstrikum það hér með. Við höfum það í huga, þegar við förum í þá vinnu sem fram undan er í fjárlaganefnd, að við viljum vega og meta samningana, hvort þeir séu rétta leiðin fyrir þjóðina núna þegar við stöndum frammi fyrir því að reyna að leysa þetta mál. Þetta eru þessir tveir möguleikar sem við þurfum að fara vel yfir.

Það kom meðal annars fram hjá fyrrverandi hagfræðiprófessor, merkum, sem er nú orðinn þingmaður, hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni, að 110 milljarðar væru ekki nóg fyrir hann til að styðja þetta mál. Það kann vel að vera. Hver eru þá mörkin? Við vitum að síðustu samningar hefðu þýtt ríkisábyrgð upp á að minnsta kosti tæplega milli 400 og 500 milljarða. Ég hef ekki enn getað fengið það svar algerlega á hreint hvað nýju samningarnir þýða. Sú niðurstaða mun skipta mestu máli þegar við munum meta það hvaða leið við förum í málinu öllu.

Mín stutta athugasemd í 1. umr. í þessu mikilvæga máli, þar sem þjóðin krefst þess að þingið sýni þá sómatilfinningu að sameinast um að vanda til verka þannig að niðurstaðan verði þjóðinni hagfelld, er því sú við þurfum að fara inn í þetta verkefni af mikilli festu og mikilli ábyrgð og mikilli samheldni. Ég efast ekki um að við munum reyna að gera það.

Það er hins vegar skrýtið að fáeinum klukkustundum eftir að fjárlagafrumvarpið var afgreitt með 32 atkvæðum stjórnarmeirihlutans, samþykkt með miklum naumindum, séum við að fara að ræða Icesave-málið. Við sjálfstæðismenn munum að sjálfsögðu gera það en er þingmeirihluti strax í dag fyrir Icesave-málinu? Ég held að það hljóti að vera spurning sem við spyrjum okkur og ekki bara við hér innan þingsins heldur líka þjóðin og kannski ekki síður þeir sendiherrar, breskir og hollenskir, sem eflaust fylgjast vel með öllu því sem sagt er og gert er innan þingsins, (SKK: Og bandarískir.) og bandarískir eins og sumir vita mætavel en það er hins vegar önnur umræða sem á alveg eftir að taka við hæstv. ríkisstjórn.

Ég held að þetta allt skipti máli í þeirri atburðarás sem fram undan er. Það eru einungis fáeinar klukkustundir frá því að við samþykktum fjárlögin með ákveðnum halla, með 37 milljarða kr. halla. Bara með framlagningu þessa frumvarps bætast við tæpir 30 milljarðar. Á þriðja tug milljarða bætist við fjárlög næsta árs. Við eigum eftir að meta það hvernig það kemur inn í fjárlögin á næsta ári, hvað það þýðir. Þýðir það meiri niðurskurð? Þýðir það að við þurfum að gefa meiri kraft og gefa meira í á öðrum sviðum sem sérstaklega tengjast verðmætasköpun — og það er óskandi að þetta mál verði til að vekja ríkisstjórnina af svefni hvað varðar atvinnusköpun og atvinnulíf í landinu. Þetta frumvarp, eins og svo mörg önnur, undirstrikar að við þurfum að fara að auka tekjur. Það er ekki nóg að ræða útgjaldahliðina á ríkissjóði öllum heldur þurfum við að auka verðmætasköpun, auka tekjumöguleika ríkissjóðs og það gerum við ekki öðruvísi en með því að taka af festu á atvinnumálum þjóðarinnar og eyða óvissu á sem flestum sviðum. Það er hægt að byrja á sjávarútvegsmálum og fara þá leið sem sáttanefndin lagði til. Ég efast ekki um að hæstv. forseti þingsins er mér sammála hvað það varðar.

En við sjálfstæðismenn í fjárlaganefnd munum alla vega leggja okkar af mörkum til að fara gaumgæfilega yfir þetta mál. Við óskum eftir því að við fáum tíma. Það hefur sýnt sig að við höfum bara grætt á því að gefa okkur tíma í þessu máli öllu. Því miður var það þannig í fyrra málinu, við skulum vona að það verði ekki í þessu máli, að eitt og annað hefur komið upp, allt að því óþverri, eftir því sem málið hefur verið skoðað betur. Við skulum vona að svo verði ekki í þessu máli. Við skulum vona að við komumst að niðurstöðu sem þjóðin öll og þingið getur sameinast um.