139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[21:16]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var svona að mestu leyti rétt hjá hæstv. utanríkisráðherra en hann gleymir þó því sem olli því að málið fór í þennan farveg sem það gerði á þessu ári. Það var fyrst og fremst það að hæstv. utanríkisráðherra, ríkisstjórn hans og þingflokkum stjórnarflokkanna, varð ekki að þeirri ósk sinni að Icesave-samkomulagið væri staðfest með lögum eins og gert var ráð fyrir hér (Utanrrh.: Þú varst sammála í ágúst að gera það.) í atkvæðagreiðslu. Hæstv. utanríkisráðherra verður að minnast þess hvernig sá þingmaður sem hér stendur greiddi atkvæði í ágúst í fyrra. Ég bið hann að fletta upp í atkvæðagreiðsluskjölum með það vegna þess að ég studdi ekki þá niðurstöðu, ég greiddi atkvæði gegn þeirri niðurstöðu sem lá fyrir í ágúst í fyrra en það er önnur saga og við vitum að sagan að þessu leyti verður skráð.

Hins vegar vil ég taka fram að þó að allt sé rétt sem sagt er um að stjórnarandstaðan hafi átt sinn þátt í því að skipt var um samninganefnd eða öllu heldur að ný samninganefnd var skipuð á nýjum forsendum og fulltrúar þeirra legðu gott til málanna í þeirri vinnu, þá stendur það engu að síður eftir og verður ekki breytt, hversu heitt sem hæstv. utanríkisráðherra óskar þess, að þingmenn, hvort sem þeir eru í stjórnarliðinu eða stjórnarandstöðunni, hljóta að taka afstöðu til málsins eins og það liggur nú fyrir og meta það. Ef þeir telja það gott fyrir Ísland, gott fyrir íslenska hagsmuni, munu þeir segja já ella nei.