139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[21:22]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að koma upp undir þessum lið. Ég var með sérnefndarálit í þessu máli þar sem ég fór yfir þær efasemdir mínar að í ljósi dóms Hæstaréttar, sem féll fyrr í haust, varðandi það að ekki væri hægt að rjúfa samning með eftirásettum lögum — ég lít fyrst og fremst svo á að ég sé að vinna löggjöfinni gagn með því að benda á bresti í þeim lögum sem samþykkt hafa verið á Alþingi frá hruni.

Löggjafinn verður að vera sterkur, löggjafinn verður að taka til sín þær athugasemdir sem komu fram í nefndunum og ég tel það mikla sóun, bæði á opinberu fé og einkafé, að verið sé að vísa lögum, frumvörpum sem eru samþykkt sem lög frá Alþingi, til dómstóla til úrlausnar og túlkunar. Það hlýtur að vera til hagsbóta fyrir alla aðila að hér séu sett skýr lög sem almenningur og þeir sem eiga að fara eftir lögunum skilja og að við setjum skýrar reglur. Svo hefur ekki verið og með þeim vinnubrögðum sem tíðkast hafa undanfarið ár er íslenska löggjöfin að þróa sig í átt til engilsaxnesks réttar þar sem dómstólunum er raunverulega falið að móta lögin eftir þeim málum sem upp koma.

Ég er mjög ósátt við hvernig þróunin er hér á landi og það er svo að Hæstiréttur er æðsti dómstóll landsins. Við trúum og treystum dómstólunum, við verðum að gera það eftir það sem gengið hefur á þjóðfélaginu eftir haustið 2008. Við verðum að treysta því að dómstólarnir dæmi rétt og það er því þingmanna, sem sitja á löggjafarsamkomunni hverju sinni, að lesa sér til í dómum Hæstaréttar sem hafa fordæmisgildi og bregðast við lagasetningu á þann hátt til að fyrirbyggja mistök og þá réttaróvissu sem skapast þegar verið er að setja óskýr lög. Þessi lög eru dæmi um óskýrleika vegna þess að verið er að umbylta fyrningu í gjaldþrotamálum, sem er mjög þarft verkefni. Ég hef mikla samúð með þessu verkefni, en á lagatæknilegum rökum tel ég ófært að það nái fram að ganga í reynd. Þrátt fyrir að þetta frumvarp verði jafnvel samþykkt og verði gert að lögum kemur til með að reyna strax á dómstólana þegar fer að reyna á þetta úrlausnarefni.

Því miður er löggjafinn, þ.e. framkvæmdarvaldið, að koma fram með þetta frumvarp, af því að þetta er stjórnarfrumvarp, til að skapa óraunhæfar væntingar. Það er enn verið að grípa til þess ráðs að milda höggið sem varð af hruninu, vekja óraunhæfar væntingar hjá fólki því að að mínu mati er það mjög vafasamt að þetta standist stjórnarskrá.

Frú forseti. Þingmenn Framsóknarflokksins eru ekki samstiga mér í þessu máli. Það er að sjálfsögðu hið besta mál að fólk tjái hug sinn af sannfæringu. Það kemur í ljós í atkvæðagreiðslunni á morgun hvernig sú atkvæðagreiðsla fer en ég kem til með að sitja hjá við afgreiðslu þessa máls eins og ég gerði eftir 2. umr.