139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[21:26]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil aðeins koma upp vegna þeirra orða sem fallið hafa um þetta mál til að útskýra hlið stjórnarmeirihlutans í þessu máli og í rauninni þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni og Vigdísi Hauksdóttur fyrir þeirra innlegg í málið.

Það komu fram tvö minnihlutaálit í málinu, bæði málefnaleg og vel unnin. Engu að síður er þetta mál sem ég hef góða sannfæringu fyrir eftir þá vinnu sem við höfum farið í gegnum í allsherjarnefnd. Þetta er það mál sem einna mestur tími hefur farið í nú í haust í störfum nefndarinnar enda er það gríðarlega mikilvægt og líka að vandað sé til verka.

Þarna er verið að fjalla um styttingu á svokölluðum fyrningarfresti kröfuréttinda úr því sem verið hefur ýmist 4, 10 eða 20 ár niður í tveggja ára tímabil. Þeir geta rofið þá fyrningu sem telja sig hafa sérstaka hagsmuni og geta sýnt fram á það fyrir dómi. Töluvert var um það fjallað fyrir nefndinni hvort ástæða væri til að skilgreina það nánar hverjir þeir væru en niðurstaðan er sú að fela dómstólum að gera það.

Jafnframt var mikið rætt um það í nefndinni hvort ástæða væri til að hafa svonefnt sólarlagsákvæði í þessum lögum þannig að þau giltu um ákveðið tímabil til þess að taka utan um það ástand sem skapast hefur í kjölfar hrunsins. Það er rétt sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir sagði áðan í ræðu sinni að þetta er ein af þeim leiðum sem stjórnarmeirihlutinn er að reyna að fara til að milda höggið af hruninu sem hér varð 2008. Þetta hlýtur að vera eins og áður fyrr neyðarúrræði eða neyðarleið því að við gjaldþrot missir fólk að sjálfsögðu allt sitt. Það er fjöldi einstaklinga sem hefur farið í gegnum gjaldþrot sem hefur síðan átt í erfiðleikum með að rísa á fætur að nýju. Þetta hefur að mörgu leyti búið til það sem kallað hefur verið svart hagkerfi. Við erum að bregðast við þeim kalda veruleika með þessari aðgerð en þó þannig að í lögunum er innbyggt ákvæði til bráðabirgða um endurskoðun þeirra að loknu fjögurra ára tímabili. Ég tel mjög mikilvægt að innbyggt sé í lögin tækifæri til að grípa inn í ef einhver óæskileg þróun á sér stað í kjölfar þessara breytinga. En fyrst og síðast vil ég taka það fram og ítreka að þetta er ein af þeim leiðum sem ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn er að reyna að fara til að milda höggið sem varð af því mikla hruni sem gekk yfir landið á haustmánuðum ársins 2008.