139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

rannsókn á Íbúðalánasjóði.

22. mál
[21:49]
Horfa

Frsm. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég tek til máls sem framsögumaður 1. minni hluta allsherjarnefndar og kynni hér nefndarálit og hugleiðingar mínar varðandi þetta mál. Ég skrifa ein undir nefndarálitið sem ég kem til með að fara yfir á eftir. Þegar þingsályktunartillagan var lögð fram lét hún ansi lítið yfir sér, einungis þrjár og hálf lína. Hér er búið að bæta heldur betur í af hálfu þingmannanna sem skrifa undir nefndarálitið og er rannsóknin orðin upp á 14 liði. Eitthvað hefur málið verið skoðað og er það vel því að við framsóknarmenn fögnum að sjálfsögðu rannsókn á Íbúðalánasjóði. Formaður flokksins, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, tók undir það þegar umræður voru í þinginu að leggja fram breytingartillögur. Við framsóknarmenn mundum beita okkur í því að allt kæmi upp á yfirborðið varðandi Íbúðalánasjóð.

Það vill þannig til, frú forseti, að þingsályktunartillagan sem lögð var fram átti einungis að ná til örfárra ára, frá árinu 2004 og fram að falli bankanna 2008, einungis fjögur ár. Þetta er eins og að senda lögreglumann á vettvang að kanna innbrot og lögreglumaðurinn gerir ekkert annað í rannsókninni en að leita að hinum týnda hlut. Þegar rannsókn fer af stað verður að rannsaka málið frá upphafi til enda en ekki taka heppilegan bút úr rannsókninni og gá hvað kemur út úr henni. Ég undrast þessi vinnubrögð að þetta sé gert með þessum hætti því að eins og hv. þm. Róbert Marshall kom inn á er lögð til í nefndarálitinu ný tillaga sem snýr að því að rannsóknin verði yfirgripsmikil, í 14 töluliðum. Hún er fyrst og fremst yfirgripsmikil út af því að Íbúðalánasjóður er búinn að vera til í tvo áratugi. Þess vegna verður að rannsaka þetta frá grunni. Þar sem lagt er til að þetta séu svona mörg atriði verður að fara aftur til stofnunar sjóðsins og lengra, eins og segir í tillögu minni sem ég kynni hér á eftir.

Það kom til umræðu í allsherjarnefnd að leggja til að rannsókninni yrði frestað þar til frumvarpið sem nú liggur fyrir þinginu um rannsóknarnefndir Alþingis hefði verið lögfest. Hér er enn ein rannsóknin á ferðinni sem þingmenn hafa lagt til eftir hrunið. Ég held að það séu beiðnir um eða þingsályktunartillögur um einar tíu rannsóknir og er það vel en sumar eru þannig gerðar að þær mega bíða eftir því að frumvarp um rannsóknarnefndir verði staðfest sem lög. Flutningsmönnum þingsályktunartillögunnar lá svo á að koma rannsókninni af stað að það er farið af stað með þetta nú og geri ég ekki athugasemd við það.

Svo ég fari yfir stöðu Íbúðalánasjóðs þá er eins og flestir vita Íbúðalánasjóður sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins. Hann veitir einstaklingum, sveitarfélögum, félögum og félagasamtökum húsnæðislán til íbúðakaupa og byggingarframkvæmda. Íbúðalánasjóður er fjárhagslega sjálfstæður og stendur undir lánveitingum og rekstri með eigin tekjum. Þrátt fyrir það er Íbúðalánasjóður með ríkisábyrgð og er því ekki algjörlega fjárhagslega sjálfstæður. Tilgangur sjóðsins er að stuðla að því með lánveitingum og skipulagi húsnæðismála að landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum. Að fjármunum verði sérstaklega varið til þess að auka möguleika fólks til að eignast og leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Þetta er hlutverk Íbúðalánasjóðs þó að hlutverkið hafi að nokkru leyti brostið varðandi leiguíbúðirnar. Íbúðalánasjóður situr uppi með draug úr félagslega kerfinu sem sett var á stofn í öndverðu þegar Jóhanna Sigurðardóttir var félagsmálaráðherra á síðustu öld. Svo lengi hefur sá þingmaður setið á Alþingi og verið talsmaður félagslega kerfisins.

Íbúðalánasjóður tók við hlutverki Húsnæðisstofnunar ríkisins þegar ný lög um húsnæðismál, nr. 44/1998, öðluðust gildi og Byggingarsjóður ríkisins og Byggingarsjóður verkamanna voru sameinaðir. Saga opinberra lánveitinga til íbúðarhúsnæðis hófst árið 1955 með lögum um húsnæðismálastjórn, veðlán til íbúðarbygginga og útrýmingu heilsuspillandi íbúða. Húsnæðismálastofnun ríkisins var sett á laggirnar tveimur árum síðar og síðan hóf Íbúðalánasjóður starfsemi í ársbyrjun 1999.

Í byrjun árs 1998 segir félagsmálaráðherra í ræðu að Byggingarsjóður ríkisins sé mjög sterkur en Byggingarsjóður verkamanna muni stefna í greiðsluþrot. Því næst sagði ráðherra þessi orð orðrétt: „Íbúðalánasjóður verður sjálfbær innan fárra ára og þarf ekki á framlögum úr ríkissjóði að halda.“

Samhliða þessum breytingum var félagsleg aðstoð færð yfir í vaxtabótakerfið með breytingum á vaxtabótaþætti tekjuskattslaganna. Þegar Íbúðalánasjóður tók til starfa 1. janúar 1999 var fjárhæð hámarksláns sjóðsins til kaupa á notaðri íbúð 66% af meðalkaupverði fjögurra herbergja 120 fermetra íbúðar. Hámarkslán til byggingar eða kaupa á sömu stærð húsnæðis var öllu hærra og samsvaraði 79% af meðalkaupverði slíkrar íbúðar. Hafa ber í huga að á þessum tíma var hámarkslánshlutfall 70% fyrir fyrstu kaupendur en annars 65%. Þetta var hækkað vegna kröfu utan úr samfélaginu vegna þess að 70% lán fyrir fyrstu íbúð þótti vera allt of lágt vegna þess að fólk var fyrst og fremst að fjármagna þetta millibil á almennum bankalánum á langtum hærri vöxtum en Íbúðalánasjóður gat boðið. Á þessum tíma var að búið að leggja af hið svokallaða sparimerkjakerfi sem fólk þurfti að borga í hér á árum áður til þess að kaupa sína fyrstu íbúð. Hækkanirnar á hámarksláninu hækkuðu því í takt í kjölfar verðhækkana á húsnæði og sjóðurinn verður að uppfylla lögbundið hlutverk sem skilgreint er í lögunum

Tilgangur laganna um Íbúðalánasjóð var að stuðla að því með lánveitingum og skipulagi húsnæðismála að landsmenn gætu búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum og að fjármunum yrði sérstaklega varið til þess að auka möguleika fólks til að eignast eða leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum. „Ef hámarkslán Íbúðalánasjóðs hefðu ekki fylgt að hluta til eftir hækkunum á fasteignaverði hefði sjóðurinn ekki verið að rækja hlutverk sitt um „… að fjármunum verði sérstaklega varið til þess að auka möguleika fólks til að eignast eða leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum.““ Þetta kemur fram í skýrslu sem heitir „Aðdragandi, innleiðing og áhrif breytinga á útlánum Íbúðalánasjóðs 2004“. Greinargerðin var gerð vegna rannsóknarskýrslu Alþingis í maí 2010 fyrir Íbúðalánasjóð.

Þegar breytingarnar gengu yfir með Íbúðalánasjóð var kaupskylda sveitarfélaga á íbúðum í nýja kerfinu sem skapaðist í íbúðalánasjóðskerfinu afnumin. Félagslega húsnæðiskerfið sem þáverandi félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, hafði komið á stofn leysti þessa kaupskyldu sveitarfélaganna af hólmi. Jóhanna Sigurðardóttir þáverandi þingmaður gagnrýndi þetta nýja fyrirkomulag mikið á sínum tíma í ræðu og riti. Hún taldi það mikla harðneskju gagnvart tekjuminni einstaklingum að taka kaupréttinn af sveitarfélögunum auk þess að taka upp vaxtabótakerfið sem enn er í gildi og í dag var verið að auka fjármagn inn í það kerfi fyrir tekjulága.

Ég lagði fram fyrirspurn á Alþingi í vetur, þskj. 230, þar sem ég spyr hversu mikið sveitarfélögin skuldi Íbúðalánasjóði vegna kaupa þeirra á félagslegu húsnæði á þeim tíma þegar kaupskylda var val á félagslega húsnæði. Það var gerð krafa um það að ef einstaklingar gætu ekki staðið í skilum með leigu eða kaup á félagslega húsnæðinu yrðu sveitarfélögin skilyrðislaust að kaupa íbúðirnar. Þetta er risastórt vandamál. Nú hefur komið í ljós í svari sem barst vegna þessarar fyrirspurnar að skuldir sveitarfélaganna við Íbúðalánasjóð vegna félagslega kerfisins sem Jóhanna Sigurðardóttir þáverandi félagsmálaráðherra kom á stofn, sem er vandi Íbúðalánasjóðs í dag, eru 44 milljarðar kr. Fasteignamatið sem heyrir undir fasteignunum er 56 milljarðar. Eftirstöðvarnar haldast nánast í hendur í svona stórum upphæðum við fasteignamatið þannig að þetta eru beinar skuldir. Þetta eru beinar skuldir og þetta þarf að rannsaka, frú forseti. Það þarf að rannsaka út af hverju Byggingarsjóður verkamanna var kominn í þrot þegar Íbúðalánasjóður var látinn leysa hann af hólmi.

Eignirnar sem liggja undir eru 3.863 samkvæmt svarinu þannig að þetta eru gríðarlegar skuldbindingar sem liggja á sveitarfélögunum vegna þessa. Hvort þetta sé ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin tók ákvörðun um að leggja rúma 30 milljarða kr. inn í sjóðinn á fjáraukalögum 2010, sem hv. þm. Róbert Marshall kom inn á og talaði um og kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans skal ég ekki segja. Ég hef reynt að fá svör um hvort þetta sé gert að kröfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, hvort þetta sé fyrsta skref í því að einkavæða Íbúðalánasjóð eða hvort þetta sé gert að kröfu um að aflétta greiðslubyrðinni af sveitarfélögunum því að eins og við vitum standa öll sveitarfélög afar illa nú á tímum. Eins og ég hef bent á er engin ástæða til þess að leggja Íbúðalánasjóði til svo mikið fé vegna þess að á honum hvílir ríkisábyrgð og að hið svokallaða CAD-hlutfall sjóðsins skuli þurfa að standa í 5% er óþarfi. Það er óþarfi að vera með það svo hátt þar sem fullnægjandi ríkisábyrgð er á sjóðnum. Þarna er um einhverjar æfingar að ræða. Ég kem líka inn á það í breytingartillögu minni að það þarf að rannsaka sjóðinn til dagsins í dag sem ég les upp á eftir.

Með tillögunni er lagt til að rannsakað verði allt það ferli sem fór af stað við stofnun Íbúðalánasjóðs og ástæðu þess hvers vegna Byggingarsjóður verkamanna varð gjaldþrota. Hann ásamt Byggingarsjóði ríkisins var lagður niður þegar Íbúðalánasjóður var stofnaður.

Ég kem aftur að því að taka út ákveðinn árafjölda eins og gert er í þingsályktunartillögunni sem nú liggur fyrir. Það er afar óraunhæft og óskynsamlegt. Það sýnir á engan hátt hvað fór úrskeiðis í rekstri sjóðsins því að atburðirnir voru strax orðnir til þegar Íbúðalánasjóður var stofnaður. Heildarmyndina verður að skoða.

Minni hlutinn, sem ég stend fyrir, leggur til að tillagan sem ég les á eftir verði samþykkt með eftirfarandi breytingu. Ég vonast til að allir þingmenn komi sér saman um að veita tillögunni brautargengi því að það skiptir máli fyrir þjóðfélagið að Íbúðalánasjóður sé rannsakaður allt frá upphafi. Ég hef lagt til eftirfarandi breytingu, frú forseti, og ætla að lesa hana upp:

Tillögugreinin orðist svo: Alþingi ályktar að á vegum þess fari fram sjálfstæð og óháð rannsókn á starfsemi Íbúðalánasjóðs. Skal rannsóknin ná aftur til þess tíma er Íbúðalánasjóður var stofnaður. Þá skal og rannsaka ástæður þess að sjóðurinn var stofnaður með samruna Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna. Í kjölfar þess fari fram heildarendurskoðun á stefnu og starfsemi Íbúðalánasjóðs.

Undir þetta ritar Vigdís Hauksdóttir 15. des. 2010.