139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

rannsókn á Íbúðalánasjóði.

22. mál
[22:04]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem fram kom í ræðum hv. framsögumanna, hv. þingmanna Róberts Marshalls og Vigdísar Hauksdóttur, fyrir bæði meiri hluta allsherjarnefndar og minni hluta að þetta mál hefur að umgjörð og efni tekið nokkrum breytingum í meðförum nefndarinnar. Upphaflega var lögð fram þingsályktunartillaga sem var aðeins þrjár og hálf lína og greinargerð sem var kannski um það bil tvöfalt lengri eða svo, kannski átta, níu línur í mesta lagi, og úr hefur orðið töluvert meiri texti og ítarlegri lýsing á þeirri rannsókn sem á að fara fram. Ég geri ekki athugasemdir við það.

Ég vildi segja um aðkomu okkar sjálfstæðismanna í allsherjarnefnd, hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar og mína, að við vorum jákvæðir gagnvart málinu sem slíku, þ.e. rannsókn á starfsemi Íbúðalánasjóðs á undanförnum árum sem er meginefni tillögunnar, og vorum þar í takti við tvo af flokksfélögum okkar, hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson og Pétur H. Blöndal, sem voru meðal flutningsmanna að tillögunni.

Þær breytingar á rannsóknarandlaginu eða því sem á að skoða miðað við breytingartillögur meiri hluta allsherjarnefndar höfðum við ekki mikið út á að setja eða miklar athugasemdir við. Við skrifum undir nefndarálit með breytingartillögum með fyrirvara en fyrirvarinn sem við lýsum lýtur miklu frekar að forminu en því efni sem þar er greint. Aðrir í meiri hluta allsherjarnefndar höfðu sterkari skoðanir á þeim efnispunktum sem nú eru tilgreindir í tillögutextanum eins og hann mun líta út verði breytingartillagan samþykkt. Sú athugasemd sem við komum með á vettvangi nefndarinnar laut fyrst og fremst að því að upprunalega í tillögutextanum væri ekki fjallað um það hvernig standa skyldi að þeirri rannsókn sem ályktað var um. Nú hefur meiri hluti allsherjarnefndar valið ákveðna leið til að orða þá hugsun, skulum við segja, og má sjá það í þeim texta eða þeirri breytingartillögu sem hér liggur fyrir. Eins og kom fram af minni hálfu í nefndinni sl. föstudag þegar við vorum að afgreiða þetta mál — það er röng dagsetning á nefndarálitinu, hér stendur 16. desember en ætti að vera 9. desember miðað við það hvenær málið var síðast tekið fyrir í nefndinni — að þrátt fyrir textann sem lýtur að verkefni forsætisnefndar o.s.frv. er engu að síður um að ræða ákveðið lagalegt tómarúm sem tekur við verði þessi tillaga samþykkt sem ályktun Alþingis. Ályktun Alþingis getur auðvitað sem slík staðið sem viljayfirlýsing um að gera eitthvað. En jafnvel þó að þessi tillaga verði samþykkt þá fer engin rannsókn í gang við það eitt. Ég held að við verðum að gera okkur grein fyrir því.

Hér er texti sem orðast svo, með leyfi forseta:

„Forsætisnefnd Alþingis verði falið að sjá um að rannsóknin fari fram í samræmi við ákvæði frumvarps til laga um rannsóknarnefndir sem hún hefur lagt fram.“

Um þetta verður að segja, hæstv. forseti, að forsætisnefnd er ekki í stöðu til að láta framkvæma neitt sem ekki er orðið að lögum frá Alþingi. Ég sé ekki að forsætisnefnd geti gert neitt óskaplega mikið þó að þessi þingsályktunartillaga verði samþykkt með þessari breytingu. Forseti Alþingis getur vissulega skipað þriggja manna nefnd á grundvelli þessarar tillögu en sú nefnd hefði engar heimildir til að láta rannsókn fara fram, ekki fyrr en lög um rannsóknarnefndir hafa verið afgreidd frá Alþingi. Það að Alþingi álykti að forsætisnefnd skuli skipa þriggja manna nefnd sem eigi að hafa sömu rannsóknarheimildir og rannsóknarnefnd Alþingis sem skipuð var veturinn 2008–2009 gefur nefndinni alls ekki sömu lagaheimildir og rannsóknarnefndin gamla hafði. Það lýsir bara ákveðnum vilja. Nauðsynlegt er að fram fari lagabreytingar áður en nokkur rannsókn getur byrjað sem styðst við einhverjar heimildir. Þannig er það.

Verði ályktunin, sem ég mundi bara kalla viljayfirlýsingu, samþykkt þarf annaðhvort þetta ágæta frumvarp sem hér er vísað til að verða að lögum eða Alþingi, hugsanlega að frumkvæði forsætisnefndar, að setja sérlög um þá rannsóknarnefnd sem vísað er til.

Ég vildi vekja athygli á þessu vegna þess að þetta voru sjónarmið sem ég orðaði í nefndinni. Forsætisnefnd getur hugsanlega á grundvelli þingsályktunartillögu af þessu tagi skipað nefnd, hafið óformlegan undirbúning að rannsókn en engin rannsókn getur hafist fyrr en komin er lagastoð undir slíka rannsókn. Það þarf að gerast annaðhvort með sértækum eða sérstökum lögum um þá tilteknu rannsókn eða almennum lögum um rannsóknarnefndir Alþingis.

Ég vek líka athygli á þessu, hæstv. forseti, til að skýra hvers vegna við hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson undirritum þetta mál með fyrirvara. Ég tek það fram að við styðjum það meginmarkmið tillögunnar að rannsókn af því tagi sem hér er mælt fyrir um eigi sér stað. Við erum þeirrar skoðunar að það sé fullt tilefni til þess og gerum engar athugasemdir við þá efnislegu þætti sem þar eru tilgreindir en viljum undirstrika að þrátt fyrir þessa ályktun Alþingis, verði þetta samþykkt í þeim búningi sem meiri hluti allsherjarnefndar leggur til, þá þarf meira til áður en nokkur rannsókn getur byrjað.

Ég vildi líka nota þetta tækifæri, hæstv. forseti, til að vekja athygli á því að það eru fleiri rannsóknarbeiðnir, bæði í formi þingsályktunartillagna og raunar í einhverju tilviki lagafrumvarpa, þar sem gert er ráð fyrir tilteknum rannsóknum í framhaldi af skýrslu rannsóknarnefndarinnar frá því í vor og starfi þingmannanefndarinnar frá því í sumar. Ég vildi bara nefna að að mínu mati eru a.m.k. sumar af þeim rannsóknum alveg jafnmerkilegar og eiga jafnmikið erindi við þingið og þessi tiltekna tillaga, ég er ekki að gera lítið úr henni en margar aðrar finnst mér einnig eiga erindi á dagskrá þingsins. Ég vildi bara nefna þetta í þessu samhengi vegna þess að þessi tillaga hefur verið tekin svolítið út úr og veitt hraðari meðferð í gegnum þingið en öðrum þeim rannsóknartillögum sem fram hafa komið. Við vitum að það á sér að hluta til þá skýringu að við afgreiðslu fjáraukalaga í síðustu viku, held ég, var samþykkt gríðarhá heimild vegna Íbúðalánasjóðs um að efla fjárhagslega stöðu hans. Það þótti kannski sérstakt tilefni til að ýta þessu máli áfram á þeim forsendum. Ég geri ekki athugasemdir við það en bendi engu að síður á í lok ræðu minnar að þótt þessi ágæta ályktun nái fram að ganga gerist ekkert fyrr en búið er að veita þeirri rannsókn sem þar er mælt fyrir um einhverja lagastoð.