139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

rannsókn á Íbúðalánasjóði.

22. mál
[22:27]
Horfa

Frsm. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig undrar nokkuð þetta svar og hvers vegna hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir er ekki tilbúin til að skoða stofnun Íbúðalánasjóðs frá byrjun. Hún upplýsti hér að hið félagslega íbúðakerfi sem Jóhanna Sigurðardóttir setti á stofn fyrir fátækari fjölskyldur og fólk sem hefði minna á milli handanna hefði verið gert ónýtt í kjördæmapoti. Þá vitum við það að Samfylkingin lítur svo á að fortíðin hafi byggst upp á kjördæmapoti. Það er fínt að þetta komi fram.

Mig langar í kjölfarið að minna þingmanninn á að Íbúðalánasjóður varð ekki gjaldþrota í bankahruninu. Íbúðalánasjóður fór ekki á hliðina í bankahruninu. Hins vegar fóru allir bankarnir á hliðina í bankahruninu og sparisjóðirnir með og það vill svo til að á hátíðarstund kallar Samfylkingin stundum fram í í þingsalnum og segir að Seðlabankinn hafi farið á hausinn. Ég minni á að hv. þingmaður sat í stjórn Seðlabankans og mig langar því að spyrja hana vegna framkominnar tillögu um rannsókn á Íbúðalánasjóði á árunum 2004 og fram að bankahruni: Mundi hún styðja rannsókn ef fram kæmi þingsályktunartillaga um það hvers vegna Seðlabankinn fór á hausinn og af hvaða ástæðum og þá yfir þetta sama tímabil?

Að taka út þetta tímabil, þegar krafan var sú að hækka lán Íbúðalánasjóðs upp í 90% vegna þess að fólk gat ekki fjármagnað íbúðir vegna hækkandi fasteignaverðs, er náttúrlega afar skrýtið og þess vegna legg ég fram þessa breytingartillögu í þeirri góðu trú að hér verði allt uppi á borðum en ekki einhver einstök aðgerð sem farið var í, og ég tel að það ætti hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hagfræðingur að skilja best af öllum.