139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

rannsókn á Íbúðalánasjóði.

22. mál
[22:31]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að málið sé komið á rekspöl, enda var ég einn af flutningsmönnum þessarar tillögu og vonast til að það náist góð samstaða um hana. Ég hef verið að skoða hvernig málið lítur út eftir að það kom úr nefnd og það er margt, og reyndar flest, sem mér líst vel á þar. Ég held hins vegar að setja verði inn þátt varðandi lánveitingar til leiguíbúðafélaga og enn fremur held ég að menn komist ekki hjá því að skoða hlutina betur, sérstaklega Byggingarsjóð verkamanna, kaupleiguíbúðakerfið og aðra þá sem fóru mjög illa með sjóðinn. Vegna orðaskipta hv. þingmanna áðan, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, og ég held að engum líki það vel, setjum við auðvitað fjármuni í sjóðinn vegna þess að hann getur ekki starfað án þess. Hann er í rauninni gjaldþrota og ég skil ekki af hverju menn berja höfðinu við steininn varðandi það. Þess vegna setja menn peningana í sjóðinn. Ef svo væri ekki held ég að menn verði að flýta sér, þá skulum við sleppa því að setja þessa fjármuni inn í sjóðinn. Það væri fullkomlega galið að setja fjármuni í sjóðinn ef ekki væri þörf á því.

Það hefur ótrúlega lítil umræða verið um Íbúðalánasjóð. Sú umræða fór ekki af stað fyrr en svar barst við fyrirspurn minni um sjóðinn, sem var ekki fullnægjandi, það var ekki rétt. Ég hef sent framhaldsspurningar hvað það varðar sem munu örugglega nýtast í rannsókninni. Ég spyr hv. þingmann hvort hún telji ekki eðlilegt að taka leiguíbúðafélögin inn líka og sömuleiðis Byggingarsjóð verkamanna og kaupleiguíbúðirnar, (Forseti hringir.) því að þau eru hluti af stóru myndinni.