139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

rannsókn á Íbúðalánasjóði.

22. mál
[22:38]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held það sé rétt að taka það fram að ég tel breytingartillögu frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur með engu móti ná utan um þær breytingar á tillögu sem bornar eru upp af meiri hluta allsherjarnefndar. Ég tel þá tillögu vera allt annars eðlis.

Eins og ég segi erum við að skoða þátt Íbúðalánasjóðs í hagstjórninni á Íslandi. Við erum að skoða hvernig haga skuli lánveitingum til frambúðar til að það sé til hagsældar fyrir íslensk heimili, sem er mikilvægt, án þess að það hafi óheppileg áhrif á peningamálastjórnina.

Ég ítreka það sem ég sagði við hv. þingmann að ég tel að rannsókn á aðstæðum sjóðsins þegar hann hóf göngu sína sé alls ekki útilokuð, eins og kemur fram í tillögum að breytingum sem liggja fyrir frá hv. allsherjarnefnd. Ég tel að ef nefndin kemst að því að ástæða sé til að skoða það nánar og það kunni að vera hluti af skýringum á vandanum sem við stöndum frammi fyrir í dag þar sem við þurfum að leggja sjóðnum til umtalsvert fé, hljóti að verða litið til þeirra þátta, enda er skýrt kveðið á um það í 14. lið að það eigi ekkert að fela eitt eða neitt heldur eigi það að koma upp á yfirborðið sem rannsóknarnefndin telur mikilvægt að upplýsa Alþingi um.