139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

rannsókn á Íbúðalánasjóði.

22. mál
[22:40]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka til máls í þessu máli en eftir að hafa hlustað á umræðuna á undan get ég ekki orða bundist.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er töluvert fjallað um Íbúðalánasjóð og í andsvörum sem fram fóru áðan töluðu menn á þá leið að tap Íbúðalánasjóðs í því hruni sem við upplifðum í október 2008 hafi verið ofboðslega mikið. Eins og fram kom í máli hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar lagði hann fyrstur fram nokkrar spurningar um það tap og þær mögulegu afskriftir sem sjóðurinn sér fram á á næstunni. Það var mjög áhugavert að skoða svörin við þeim spurningum.

Mér skilst að eignasafn Íbúðalánasjóðs sé metið einhvers staðar í kringum 700–800 milljarða. Þeir eru nú búnir að setja um 1,6 milljarða inn á afskriftasjóð og meginhluti þeirra fjármuna er vegna lána til verktaka vegna byggingar á leiguíbúðum. Það var mikill þrýstingur frá hendi launþegasamtaka og vinstri flokkanna um að farið yrði í að byggja upp leigumarkaðinn. Íbúðalánasjóður fór svo að lána til verktaka á síðustu árum í mun meira mæli vegna byggingar á leiguíbúðum.

Mjög lítill hluti af þessu er vegna lánveitinga til einstaklinga og þegar ég hef reynt að afla mér upplýsinga um hvaða íbúðir það eru sem sjóðurinn hefur fyrst og fremst tekið yfir eru það mestmegnis íbúðir á afmörkuðum svæðum, fyrst og fremst á Austfjörðum og Vestfjörðum. Stærsti hluti þess taps sem sagt var frá í svörum við spurningum hv. þm. Guðlaugs Þ. Þórðarsonar var um 10 milljarðar, um 10 þúsund milljónir, að mig minnir, sem hafði með fjársýslu sjóðsins að gera. Sjóðurinn lenti í töluverðum vandræðum þegar bankarnir ruddust inn á húsnæðislánamarkaðinn og fólk fór að borga upp lánin sín í miklum mæli. Þá stóð sjóðurinn frammi fyrir því að taka ákvörðun um hvernig hann gæti ráðstafað þeim fjármunum sem best. Sú ákvörðun byggðist á mati þeirra á því hvað best væri að gera.

Síðan var minnst á að þær ákvarðanir sem stjórn sjóðsins og starfsmenn tóku varðandi umsýslu þessara fjármuna hefði unnið gegn peningamálastefnu stjórnvalda. Það er eitt af því sem ég setti stórt spurningarmerki við og er ein ástæðan fyrir því að ég taldi mig hafa erindi í ræðustól til að ræða því að það kemur mjög skýrt fram í umfjöllun rannsóknarnefndar Alþingis að ef eitthvað er hafi það fyrst og fremst verið Seðlabankinn sjálfur sem vann gegn svokallaðri peningastefnu sinni. Vextirnir voru langt á eftir kúrfunni, menn losuðu um bindiskyldu bankanna sem dældi peningum inn í bankana sem þeir þurftu síðan að snúa sér að og koma í vinnu. Meðal annars var tekin ákvörðun um að ráðast á Íbúðalánasjóð og reyna að ganga frá honum.

Ég held hins vegar að þegar við horfum til baka getum við þakkað fyrir að það skyldi hafa verið jafnmikill stuðningur og raunin varð við Íbúðalánasjóð bæði hjá almenningi og á þingi því að meginhluti Íslendinga er með íbúðarlán sín hjá Íbúðalánasjóði. Það eru að minnir mig um 170 milljarðar sem talað er um að séu í svokölluðum gengistryggðum lánum eða erlendum lánum sem fólk skipti yfir í en langstærstur hluti Íslendinga er með verðtryggð húsnæðislán, annaðhvort hjá Íbúðalánasjóði eða hjá lífeyrissjóðunum. Íbúðalánasjóður hefur staðið sig ágætlega að mínu mati við að uppfylla tilgang sjóðsins sem er að stuðla að því með lánveitingum og skipulagi húsnæðismála að landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum og að fjármunum verði sérstaklega varið til að auka möguleika fólks til að eignast og eða leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Útfærslan er hins vegar eitthvað sem við hefðum kannski átt að setja spurningarmerki við, sérstaklega í ljósi þess að við bjóðum upp á verðtryggð húsnæðislán á Íslandi í jafngreiðsluformi.

Það virðist vera að meiri hluti allsherjarnefndar og 1. flutningsmaður tillögunnar geri athugasemdir við að farið sé út í að rannsaka sjóðinn, allt frá tilurð hans með samruna Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna og eftir það. Megináherslan virðist vera lögð á starfsemi sjóðsins frá aðdraganda breytinganna á fjármögnun og lánareglum hans, sem var breytt árið 2004, og til ársloka 2010. Ég er fulltrúi í nefnd sem hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir leiðir varðandi mótun nýrrar húsnæðisstefnu og eins og talað er um í frumvarpinu varðandi rannsóknarnefndir er lögð áhersla á að rannsókn eigi að hafa gildi fyrir almenning. Ég tel að hún eigi annaðhvort að vísa til þess að einhver hafi hugsanlega brotið lög eða gert eitthvað annað af sér eða til að aðstoða okkur við að læra af því sem fór úrskeiðis og hvernig við getum gert betur í framtíðinni. Að því leyti tel ég það vera helstu rökin fyrir því hvers vegna við eigum að skoða uppruna Íbúðalánasjóðs, að við fáum heildarmyndina yfir það hvernig starfsemi Íbúðalánasjóðs hefur verið háttað en ekki bara tímabilið frá því að við fórum út í einkavæðinguna á bönkunum og átök hófust á íslenskum fasteignalánamarkaði. Ég held að það væri mjög gagnlegt fyrir okkur og ég tel að þær rannsóknir sem gerðar hafa verið hingað til á íslenska húsnæðislánamarkaðnum og fasteignalánamarkaðnum séu alls ekki ásættanlegar og við höfum séð það í hinni viðamiklu vinnu hjá rannsóknarnefnd Alþingis hvað slíkt getur skilað okkur miklu og hjálpað okkur við að móta framtíðarstefnu.

Ég efast heldur ekki um að flutningsmenn að meginhluta til telji að Íbúðalánasjóður skipti okkur máli, að hlutverk hans hafi verið merkilegt fyrir okkur öll. Nú stöndum við hins vegar frammi fyrir því þegar við byggjum upp annað fjármálakerfi á Íslandi að þetta er stór hluti af því og við þurfum að taka ákvörðun um hvernig við viljum hafa það til framtíðar. Viljum við vinna áfram með núverandi form eða teljum við að ástæða sé til að breyta því? Þess vegna þurfum við að skoða heildarmyndina. Það er ástæðan fyrir því að ég styð breytingartillögu frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur.

Síðan vil ég líka benda á að gerður var ákveðinn samanburður á milli gjaldþrots Seðlabankans og þeirra fjárhagslegu örðugleika sem Íbúðalánasjóður er í. Ég verð að segja að ég tel að þeir erfiðleikar séu á engan máta sambærilegir. Tap Seðlabankans er metið upp á 495 milljarða, að ég tel. Það er mjög mikil óvissa varðandi hversu mikið af því mun innheimtast. Það kom t.d. margoft fram í máli hv. þingmanna Samfylkingarinnar í umræðu um Icesave á sínum tíma þegar þau báru saman tap Seðlabankans og þá skuld sem menn stóðu hugsanlega frammi fyrir að Icesave-samningurinn stefndi í. Þá voru menn að tala um tap upp á 300 milljarða og bentu á Seðlabankann sem miklu stærra dæmi. Hér er verið að tala um að leggja inn um 18–20 og eitthvað milljarða, sem mér skilst að stjórn Íbúðalánasjóðs hafi talað um, og upp í 33 milljarða, sem hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hefur nefnt. Ég verð að segja að það eru mun bundnari upphæðir. Það er líka ríkisábyrgð á Íbúðalánasjóði og þá verðum við að spyrja okkur þeirra spurningar: Eigum við að gera sömu kröfu varðandi eigið fé stofnunar sem er með ríkisábyrgð á skuldabréfum sínum, á skuldbindingum sínum, versus þá kröfu sem við gerum um eigin fé einkafyrirtækja sem sinna öðrum hlutverkum?

Þetta eru rök mín fyrir stuðningi mínum við tillöguna og ég vona svo sannarlega að hlustað verði á þau.