139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

rannsókn á Íbúðalánasjóði.

22. mál
[22:52]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð alla vega að segja að mín kynni af hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur eru þau að hún nálgist öll sín verk með því (Gripið fram í.) að vanda sig og er vönd að virðingu sinni og það endurspeglast svo sannarlega í þeirri ákvörðun sem hún tók að segja sig úr bankaráði Seðlabankans.

Ef við förum að tala um að axla ábyrgð þá er alveg ljóst að minn flokkur ber mikla ábyrgð á því hvernig Seðlabankanum hefur verið stjórnað á undanförnum árum og jafnvel áratugum. Það er eitthvað sem ég tel ekki vera til eftirbreytni. Ég vona svo sannarlega að þær breytingar sem þegar hafa verið gerðar á lögum um Seðlabankann og þær breytingar sem eru í bígerð muni gera það að verkum að við tryggjum að þar muni menn sinna störfum sínum öðruvísi en áður.

Ég biðst afsökunar. Ég misskildi greinilega hvernig samtalið var varðandi samanburð á Seðlabankanum og Íbúðalánasjóði. Ég ítreka hins vegar að þó ekki sé stuðningur hjá meiri hluta allsherjarnefndar við breytingartillögu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur þá tel ég möguleika á að ná samstöðu um breytingar á þeirri rannsókn sem er lögð til og þá sérstaklega í ljósi þess að færa tímabilið lengra aftur, að horfa til þess að rannsóknin fari fram frá þeim tíma sem Íbúðalánasjóður var stofnaður og raunar á þróun sjóðsins í framhaldinu. Hvernig var staðið að fjármögnun hans? Hvernig var staðið að rekstri hans?

Ég veit að það er ýmislegt sem við framsóknarmenn höfum viljað gera öðruvísi. En við höfum hins vegar líka gert margt gott. Hvernig við höfum haldið utan um Íbúðalánasjóð og hvernig hann hefur að mörgu leyti sinnt hlutverki sínu tel ég svo sannarlega að sé eitt af því sem við höfum ástæðu til að vera stolt af.