139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

rannsókn á Íbúðalánasjóði.

22. mál
[22:54]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Nú er það svo að ég tel engan veginn að hv. þm. Eygló Harðardóttir hafi þurft að biðja mig afsökunar. Það var ekki svo að ég teldi að hún væri að segja þetta af einhverjum annarlegum hvötum. Ég vildi bara að hún vissi í hvaða samhengi umræðan kom upp og að það hefði ekki verið að mínu undirlagi.

Ég held að ég hafi ekki mikið meira að segja í þessari umræðu. Það liggur ljóst fyrir af minni hálfu hvaða ástæður eru fyrir því að við þingmenn sem erum á þessari þingsályktunartillögu teljum að þessi rannsókn þurfi að fara fram. Ég hef jafnframt bent á að ég telji það koma skýrt fram í breytingartillögu frá meiri hluta allsherjarnefndar að sé það mat rannsóknarnefndarinnar að sjóðurinn hafi í raun frá upphafi verið of veikburða til að takast á við hlutverk sitt vegna forsögunnar þá hljóti það að koma fram í þeirri rannsókn. Mér finnst breytingartillagan frá hv. þingmanni þar af leiðandi algerlega óþörf og ekki bæta tillöguna og, svo ég endurtaki það enn eina ferðina þreytt að kveldi, að breytingartillaga meiri hlutans sem og upphaflega þingsályktunartillagan sé afskaplega opin með að þar eigi að skoða alla þá þætti sem eigi sök á stöðu sjóðsins í dag.