139. löggjafarþing — 51. fundur,  17. des. 2010.

nýr Icesave-samningur.

[10:35]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég er algjörlega sannfærður um að þeim sem hafa unnið með mér á þinginu síðustu árin, jafnvel í 20 ár, kæmi aldrei til hugar að utanríkisráðherra gæti nokkru sinni verið of fljótur á sér. Þó get ég viðurkennt fyrir hv. þingmanni að ég er breyskur eins og aðrir. Ég geri mín mistök. Ég vona að ég eigi inni villukvóta hjá hv. þingmanni, alveg eins og hann á inni hjá mér. Þegar ég sagði fyrir ári síðan: Hvað á Framsóknarflokkurinn að gera núna? þegar ég taldi Icesave-málið komið í áfangastað svaraði hv. þingmaður sjálfur, sem ég hef aldrei haldið fram að væri neinn sérstakur svartagallsmaður, þeirri stöðu mjög jákvætt. 7. janúar á þessu ári hafði hann frumkvæði að því að bjóða ríkisstjórninni til samstarfs. Hinir stjórnarandstöðuflokkarnir fylgdu fordæmi hans. Eftir það hófum við þá siglingu sem hefur leitt okkur í þessa lendingu. Hún felur það í sér að við erum núna að reifa Icesave-samning sem m.a.s. flokksbróðir hv. þingmanns, Höskuldur Þórhallsson, sagði í gær að væri miklu betri en hinn fyrri. Ég er sammála því.

Það má segja að það jákvæða svar sem hv. þingmaður gaf sjálfum sér fyrir mína hönd hafi leitt til töluverðrar farsældar, ekki bara fyrir þing og þjóð heldur sérstaklega fyrir Framsóknarflokkinn. Ef ég má núna gefa Framsóknarflokknum eitt ráð finnst mér að hann eigi að leyfa sér þann lúxus að horfast í augu við eigin afrek. Framsóknarflokkurinn á þátt í þessari niðurstöðu og hann á að gangast við henni og gleðjast alveg eins og ég gleðst yfir henni og gleðst sömuleiðis yfir því hvað Framsóknarflokkurinn er á sínum efri árum að verða miklu jákvæðari en hann hefur nokkru sinni verið. (Forseti hringir.) Það verður rauði þráðurinn í mínu máli um þann flokk.