139. löggjafarþing — 51. fundur,  17. des. 2010.

nýr Icesave-samningur.

[10:37]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það var ánægjulegt að heyra hæstv. utanríkisráðherra ræða um gildi samstarfs og samvinnu. Við framsóknarmenn erum miklir samvinnumenn, frú forseti þekkir það, [Hlátur í þingsal.] en ég velti fyrir mér hvort það hafi vantað svolítið upp á þetta samráð og samvinnu innan stjórnarliðsins. Getur verið að það hafi valdið því að svo fór sem fór í gær í atkvæðagreiðslu um fjárlagafrumvarpið, að þrír stjórnarliðar sáu sér ekki fært að greiða því atkvæði? Getur verið að forusta ríkisstjórnarinnar þurfi svolítið að líta þar í eigin barm og velta fyrir sér hvort það hafi gleymst að hafa víðtækt samráð og samstarf innan stjórnarliðsins sjálfs um þá hluti sem hæstv. utanríkisráðherra lofaði svo mjög áðan?