139. löggjafarþing — 51. fundur,  17. des. 2010.

skuldavandi heimilanna.

[11:01]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ekki skal standa á þeirri sem hér stendur að liðsinna hæstv. ráðherra í því að koma þessu máli fram, það er mikilvægt. Það leysir hins vegar ekki vandann. Hér liggur fyrir þessu þingi í dag að greiða atkvæði um breytingar á gjaldþrotaskiptalögum og ég spyr hvort það mál hafi einhver áhrif á það samkomulag sem er í gildi milli fjármálafyrirtækjanna og ríkisstjórnarinnar.

Ástæðan fyrir því að ég spyr þessara spurninga er einfaldlega sú að við höfum verið með þetta mál í höndunum frá hruni. Það verða læti í þjóðfélaginu öðru hvoru vegna þess að okkur gengur ekki nægilega vel að taka á þessum málum. Þá er skellt fram einhverjum yfirlýsingum. Eftir það róast andrúmsloftið en við fylgjum úrræðunum hugsanlega ekki nægilega vel eftir. Það mun ekki gerast varðandi þetta mál núna, því verður ekki gleymt og það verður fylgst mjög vel með framgangi þess og hvernig gengur (Forseti hringir.) að framfylgja þessu samkomulagi og með hvaða hætti við tökumst í raun og veru á við lausn þessa stóra verkefnis.