139. löggjafarþing — 51. fundur,  17. des. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[11:39]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka formanni félags- og tryggingamálanefndar kærlega fyrir greinargott yfirlit um störf nefndarinnar og nefndinni fyrir góð störf við erfiðar aðstæður. Við vitum að þetta mál kom allt of seint fram hér í þinginu og nefndin hefur unnið gott starf í því að gera þá bragarbót sem gera þurfti.

Ég vildi fá að spyrja hv. þingmann um fasteignasjóðinn sem fer undir jöfnunarsjóðinn. Gert er ráð fyrir því að tekjur sem hann hefur renni til jöfnunardeildar sjóðsins. Nú er það svo að þessar fasteignir eru íbúðarhúsnæði fatlaðra og eru margar hverjar komnar til ára sinna og uppfylla ekki þær kröfur sem við gerum um aðbúnað fólks, þar sem fólk hefur einfaldlega ekki sérrými og ýmsa aðra slíka aðstöðu. Ég vildi inna formanninn eftir því hvort nýtingin á tekjunum af fasteignunum eigi ekki sannarlega að renna til þess að auka og bæta gæðin á húsnæðinu í viðhaldi áður en menn fara að taka fé út úr því sem hefur verið lagt inn í húsnæði fatlaðra fram að þessu.