139. löggjafarþing — 51. fundur,  17. des. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[12:14]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum stórt mál sem fjallar um málefni fatlaðra og flutning málaflokksins yfir til sveitarfélaga. Helstu breytingarnar eru þær að fatlaðir einstaklingar munu, verði þetta frumvarp að lögum, sækja um þjónustu hjá sveitarfélaginu þar sem þeir eiga lögheimili. Þar mun fagteymi meta með samræmdum hætti þjónustuþörf einstaklinganna sem þurfa á þjónustu að halda.

Þegar maður fær svona stórt mál í hendurnar eru nokkur atriði sem hafa þarf í huga þegar maður mótar sér afstöðu. Það er í fyrsta lagi hvort réttindi fatlaðra einstaklinga sem njóta þjónustunnar séu betur tryggð eða tryggð með sama hætti hjá hinum nýja aðila sem tekur við málaflokknum. Hvort þjónustan sé líklegri til að verða betri og utanumhald betra en við fyrirkomulagið sem nú gildir. Í þriðja lagi hvort menn treysta viðkomandi aðila til að taka við svo stóru verkefni.

Ég hef fyrr í umræðunni um þetta mál lýst yfir efasemdum um að við í þinginu höfum haft nógan tíma til þess að taka ákvörðun vegna þess hve seint málið er fram komið. Eftir að hafa ígrundað þetta vel, farið yfir atriðin sem ég taldi fram hér að ofan, hef ég komist að þeirri niðurstöðu að það sé rétt að styðja flutninginn þrátt fyrir galla á málsmeðferðinni vegna þess að skilyrðin sem ég talaði fyrir áðan eru uppfyllt að mínu mati. Sveitarfélögin hafa mikinn hug á því að taka við málaflokknum. Þau hafa sannfært okkur um það og sýnt með áhuga sínum á verkefninu að þau munu og ætla sér að sinna verkefninu vel. Ég hef fulla trú á því að íslenskir sveitarstjórnarmenn vilji og hafi dug í sér að sinna málaflokknum af fullum krafti og ég hef miklar væntingar um að þetta gangi vel. Jafnframt eru væntingar samfélagsins miklar. Sérstaklega þeirra sem þurfa að nýta sér þessa þjónustu og aðstandenda þeirra. Það verður því fróðlegt að fylgjast með því hvernig málum vindur fram varðandi málaflokkinn.

Það eru nokkur atriði sem ég hef haft áhyggjur af frá því að ég byrjaði að setja mig inn í umræðuna sem sveitarstjórnarmaður á sínum tíma. Málið hefur lengi verið í undirbúningi. Áhyggjurnar eru aðallega þær að við erum með svæði hér á landi þar sem þjónusta hefur verið lítil. Fá úrræði eru í boði og menn hafa þurft að fara um langan veg til að sækja sér þjónustu. Þessar áhyggjur hef ég enn í huga en sveitarfélögin treysta sér til að taka verkefnið yfir. Menn ætla sér á hinum fjölmörgu þjónustusvæðum sem búið er að stofna að horfa heildstætt á verkefnið og ætla sér að bæta þjónustuna í byggðum þar sem henni hefur ekki verið sinnt af þeim krafti sem þjónustuþegar eiga rétt á.

Hins vegar ætlum við okkur, bæði þingmenn, ráðuneytið og sveitarfélögin, að hafa taumhald á því og fylgjast vel með hvernig málin þróast. Fyrsta árið sem fer í hönd, verði frumvarpið að lögum, verður ákveðinn prófsteinn á það hvaða breytingar þurfi að gera og hvernig málaflokknum muni vinda fram.

Mig langar, frú forseti, að fara í fáum orðum yfir áhyggjur mínar af vinnubrögðunum í þessu máli. Það er ljóst að samningar þurftu að nást milli sveitarfélaganna og ríkisins og hafa þurfti samráð við þjónustuþegana. Þetta tók allt sinn tíma og makalaus deila við stéttarfélög blandaðist inn í þetta. Ég ætla ekki að nota tíma úr ræðu minni til að tala um það, það verða aðrir til þess.

Þetta endaði þannig að við fengum málið inn í þingið mjög seint. Félags- og tryggingamálanefnd tók málið og hafði í rauninni örfáa daga til að fara yfir það, þennan stóra málaflokk, vegna þess að búið var að ákveða að tilfærslan ætti að eiga sér stað um áramótin. Í raun má því segja að þinginu hafi verið stillt upp við vegg í þessu máli. Ég er sannfærð um að rétt sé að flytja málaflokkinn yfir. Ég er á þeirri skoðun að þetta sé rétt skref enda hefur félags- og tryggingamálanefnd lagt á sig mikla vinnu og farið vel yfir málin. Hún hefur fengið á fundi sína fjölmarga gesti og lagt fram breytingartillögur við frumvarpið þar sem reynt er að taka á helstu agnúum.

Jafnframt leggjum við fram tillögur með hvaða hætti skuli fylgst með framvindu verkefnisins og með hvaða hætti eftirlitsþátturinn í málinu verður styrktur. Í nefndaráliti okkar bendum við á að í skýrslu þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, sem lögð var fram í haust og samþykkt 63:0, var að finna þingsályktun þar sem Alþingi ályktaði að brýnt sé að starfshættir þingsins verði teknir til endurskoðunar og mikilvægt sé að Alþingi verji og styrki sjálfstæði sitt og grundvallarhlutverk.

Ég verð að segja að þegar mál koma fram með þessum hætti, með svo skömmum fyrirvara, þá er í rauninni búið að ákveða fyrir hönd þingsins að málið skuli fara fram þar sem samningar liggja að baki, tímasetningar o.s.frv. Þetta er ekki til fyrirmyndar. Enda segjum við öll í félagsmálanefnd á bls. 3 í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Nefndin telur ljóst að þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið við framlagningu frumvarpsins eru ekki í samræmi við þingsályktunina sem allur þingheimur var sammála um og telur nefndin það ámælisvert.“

Þetta getur varla verið skýrara. Við teljum þessi vinnubrögð ekki fullnægjandi og við í félagsmálanefnd munum ekki, að mínu mati, sætta okkur við fleiri mál af þessu tagi sem koma fram með þessum hætti frá ráðuneytinu. Ég vil að það sé undirstrikað hér. Við getum ekki tekið að okkur fleiri mál þar sem við þurfum annaðhvort að kollvarpa þeim, skrifa upp á nýtt með stuttum fyrirvara eða afgreiða þau með stuttum fyrirvara án þess að hafa svigrúm til að fara vel yfir málið. Þannig að sjálfstæðisyfirlýsingu félags- og tryggingamálanefndar er hér með komið á framfæri við hæstv. ráðherra. (Gripið fram í.) Ráðherra hefur beðist afsökunar á þessu og það er vel. Engu að síður verðum við að standa við orð okkar, öll sem eitt, frá því í þingsályktunartillögunni sem við samþykktum, þar á meðal hæstv. ráðherra.

Varðandi vinnubrögðin þá gerum við tillögur um að við fylgjumst vel með yfirfærslunni eins og ég sagði. Það á að tryggja okkur leið til þess að grípa inn í og gera athugasemdir ef málin eru á rangri leið.

Eftirlitsþátturinn almennt varðandi málaflokkinn var mjög til umræðu í nefndinni. Við teljum ljóst að það þurfi að styrkja þann þátt. Það er annars vegar varðandi réttindagæslu þar sem er talað um trúnaðarmenn, en ég ætla nú ekki að fara í það, það verða aðrir til þess. Ég ætla hins vegar að fara yfir það með hvaða hætti verður haft eftirlit með sveitarfélögunum sjálfum. Það er gríðarlega mikilvægt að það sé styrkt og tryggt að fylgst sé vel með því hvað þar fer fram vegna þess að það eru sveitarfélögin sjálf sem veita þjónustu. Þau eru jafnframt að semja við sjálfseignarstofnanir og aðra aðila úti í bæ og veita þeim starfsleyfi. Við leggjum fram breytingartillögu þar sem lagt er til að 3. gr. laganna verði breytt og ég ætla, með leyfi forseta, að fara aðeins yfir þá tillögu.

Hér segir:

„Velferðarráðherra fer með yfirstjórn málefna fatlaðs fólks samkvæmt lögum þessum. Ráðherra ber ábyrgð á opinberri stefnumótun í málaflokknum sem skal gerð í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga. Samráð skal haft við heildarsamtök fatlaðs fólks og aðildarfélög þeirra.“

Það er gríðarlega mikilvægt að gerð verði stefnumótun í málaflokknum þannig að allir viti hvert markmiðið með þjónustunni og málaflokknum í heild á að vera.

Þá segir:

„Enn fremur hefur ráðherra eftirlit með framkvæmd laganna, þar á meðal að þjónusta, starfsemi og rekstur sveitarfélaga og annarra aðila samkvæmt lögum þessum sé í samræmi við markmið laganna, reglugerða og reglna settra samkvæmt þeim og að réttindi fatlaðs fólks séu virt.“

Þetta er skýrt orðað en hins vegar skiptir meira máli hvernig framkvæmdin verður. Við í félags- og tryggingamálanefnd þurfum að fylgjast með því og standa okkur í því. En það er ráðherra sem á að gera tillögur til sveitarfélaga um úrbætur á þjónustu þar sem þess er þörf og stuðla að samræmingu hennar. Þá skal ráðherra hafa umsjón með gerð þjónustu- og gæðaviðmiða í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga að höfðu samráði við heildarsamtök fatlaðs fólks.

Þá skal ráðherra setja í reglugerð reglur um eftirlit í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, þar á meðal um framkvæmd eftirlitsins og upplýsingaskyldu sveitarfélaga.

Við teljum að með þessari breytingu tryggjum við að eftirlit verði öflugt. Hins vegar þurfum við í nefndinni, eins og ég sagði áðan, að fylgjast með framkvæmd eftirlitsins. Ég heiti því að við munum standa okkur í því.

Frú forseti. Málefni eins aðila hefur verið gríðarlega mikið í umræðunni í nefndinni og það eru málefni Sólheima. Við höfum rætt það oft í nefndinni. Við höfum fengið gesti á fund nefndarinnar vegna þessa og við höfum öll séð umræðuna í fjölmiðlum, með hvaða hætti hún hefur farið fram.

Við í nefndinni erum sammála um að starfið á Sólheimum sé mikilvægt. Sérstaða starfseminnar þar sé mikil og við teljum ljóst að tryggja þurfi að þessi valkostur sé í boði og verði áfram í boði. Það er mín einlæga trú að það séu allir hér í þinginu, frú forseti, sammála um þetta. Í nefndinni var mikil eindrægni um þetta atriði og birtist það í nefndaráliti okkar.

Ég verð hins vegar að segja að ég hef þá trú að sveitarfélögin hafi burði til þess að taka málaflokkinn yfir. Þá hlýt ég jafnframt að hafa sannfæringu fyrir því að sveitarfélögin geti gert það alla leið. Ef ég treysti sveitarfélögunum fyrir því að taka yfir þjónustu við fatlaðan tíu ára dreng sem býr t.d. á Hvolsvelli þá treysti ég sveitarfélögunum til þess að gera samninga varðandi Sólheima og sinna því verkefni. Maður verður að vera heill í skoðunum sínum. Þetta er sannfæring mín og ég tel að allir nefndarmenn í félagsmálanefnd séu sammála mér í því.

Engu að síður er sérstaðan mikil, við höfum séð það af yfirlýsingum sem komið hafa fram í fjölmiðlum á undanförnum dögum að viðbrögðin eru sterk. Þess vegna hafa þingmenn Suðurkjördæmis, þingmannahópurinn sem sem ég tilheyri, jafnframt sett sig vel inn í málin. Við þingmenn höfum ásamt ráðherra málaflokksins og Árborg, sem er sveitarfélagið sem ber að gera samning við Sólheima, sent frá okkur sameiginlega yfirlýsingu. Í henni felst samkomulag um flutning málefna fatlaðra sem tryggir óbreytt rekstrarfé til Sólheima líkt og annarra sjálfseignarstofnana. Íbúum verður tryggð þar áframhaldandi þjónusta.

Síðan segir:

„Fari svo að stjórn Sólheima nýti sér heimild fulltrúaráðsins og segi upp samningum mun félags- og tryggingamálaráðuneytið í samvinnu við Árborg og þjónustusvæði fatlaðra á Suðurlandi tryggja að íbúar Sólheima eigi þar áfram búsetu og njóti þjónustu líkt og verið hefur.“

Þetta er grundvallaratriði í málinu. Við hljótum öll hér inni að hugsa um réttindi fötluðu íbúanna sem þar búa. Við teljum að yfirfærslan á málaflokknum ruggi ekki þeim bát. Ég vil beina þeirri áskorun til fulltrúaráðsins og stjórnenda á Sólheimum að láta nú reyna á það hvernig samningar við sveitarfélagið Árborg gætu litið út. Ég tel að það sé ekki fullreynt. Menn hafa ekki viljað setjast niður og ræða málin. Ég harma það. Mér finnst gríðarlega sorglegt að menn vilji ekki vita það eða fá tilfinningu fyrir því með hvaða hætti sveitarfélögin ætla að sinna þessari þjónustu. Hvað menn eru tilbúnir til að semja upp á áður en þeir leggja fram svo afdrifaríkar yfirlýsingar líkt og gert hefur verið af hálfu stjórnenda Sólheima í þessu máli. Það hryggir mig vegna þess að við erum öll sammála um að starfið er mikilvægt. Þetta er fallegt samfélag og hefur skilað miklu til samfélags okkar. Um það höfum við þingmenn staðið vörð og þá ekki síst þingmenn Sjálfstæðisflokksins í gegnum árin.

Hins vegar eru breytingar fram undan og ég er sannfærð um að þær séu góðar. Menn verða að líta á þetta sem tækifæri. Ég tel að það geri það flestallir sem horfa á breytingarnar sem eru fram undan. Breytingar eru oft erfiðar, þær taka á og maður þarf að leggja sig fram. Í breytingum felst alltaf tækifæri og ég skora á menn að líta á málið þannig. Það er svo sannarlega rétt sem haft hefur verið eftir sunnlenskum sveitarstjórnarmönnum í fjölmiðlum á undanförnum dögum að menn vilja Sólheimum vel. Menn þekkja til þjónustunnar og hafa ekkert annað en gott í hyggju að sinna áfram þeim góðu verkefnum sem þar fara fram.

Frú forseti. Þrátt fyrir að frumvarpið verði að lögum eru ýmis atriði sem við sem förum með þennan málaflokk, ráðherrann sem og við sem sitjum í félags- og tryggingamálanefnd, þurfum enn að skoða. Við munum gera það á komandi missirum. Eitt er það atriði sem ekki er fjallað um í lögunum og hefur hvorki verið fjallað um né lögfest, það varðar sumarbúðir fyrir fötluð ungmenni. Ég tel að við í félagsmálanefnd þurfum að setjast aðeins yfir það í samráði við ráðuneytið með hvaða hætti best er að koma að þeim málum og hvort ekki sé nauðsynlegt að setja einhvers konar lagaramma utan um þá starfsemi. Það er eitt af atriðunum sem ég tel mikilvægt að skoða. Við erum með í nefndarálitinu tillögur um það hvernig við sjáum framtíðina fyrir okkur. Hér í breytingartillögunum, 29. lið, fjöllum við um að það þurfi að breyta 34. gr. laganna. Ég vísa í c-liðinn. Við leggjum til, með leyfi forseta:

„Ráðherra skal eigi síðar en 1. október 2011 leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks. Þar skal setja fram stefnu í málefnum fatlaðs fólk, skýra forgangsröðun verkefna, markvissa aðgerðaáætlun og skilgreinda árangursmælikvarða. Tímasettar verði m.a. aðgerðir vegna lögfestingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, aðgengismála, biðlista eftir þjónustu, atvinnumála fatlaðs fólks og samræmds mats á þjónustu.“

Þetta eru framtíðarverkefni. Þau eru mikil. Þessu er hvergi nærri lokið að búa þannig um hnútana að löggjöf um málaflokkinn sé fullnægjandi. Verkefnin eru næg en við þurfum að einbeita okkur að verkefninu. Ég hef fulla trú á því að ráðherrann muni beit sér í því sem og félagsmálanefndin.

Við í nefndinni fórum vel yfir skýrslu Ríkisendurskoðunar varðandi þetta mál. Það birtist í nefndaráliti okkar. Við reynum að taka á þeim þáttum sem Ríkisendurskoðun fannst standa út af og útskýra með hvaða hætti verði haldið utan um þau atriði. Það er mikilvægt að fylgja því eftir.

Eitt er það sem við höfum lært af þessu verkefni og það er grundvallaratriði að það liggi fyrir stefna áður en málaflokkur sem þessi er fluttur yfir. Þess vegna legg ég það til — vegna þess að upp er komið í umræðunni og það hefur verið rætt um það lengi að málefni aldraðra flytjist yfir til sveitarfélaganna, hugsanlega um næstu áramót eða síðar — að við byrjum á því núna að átta okkur á því hver stefnan eigi að vera, hver eigi að vera markmiðin með þeirri þjónustu. Setjum kraft í að vinna það næsta ár og undirbúa okkur þannig að við stöndum ekki eftir ár, pirraðir þingmenn úr félags- og tryggingamálanefnd, yfir því að fá málin allt of seint, hafa ekki tíma til að setjast yfir þau almennilega og haldi þessa ræðu enn og aftur. Ég vil því gera það hér með að tillögu minni, og ég vonast til þess að ráðherra taki vel í þá hugmynd. Ég efast ekki um að félags- og tryggingamálanefnd muni jafnvel flytja tillögu um þetta efni strax eftir jólahlé. Alla vega ræða það í nefndinni strax eftir jólahlé og vonandi sjá það verða að veruleika sem fyrst.

Frú forseti. Þetta hefur verið lærdómsrík reynsla, ströng vinna en gefandi. Starf nefndarinnar er athyglivert að því leyti miðað við aðrar þingnefndir sem ég hef unnið með að þá vinnum við öll sem einn maður. Við erum með þannig verkefni að við reynum að einsetja okkur að hlusta hvert á annað og horfa frekar til markmiðanna með vinnu okkar en að koma pólitísku höggi hvert á annað inni í félagsmálanefnd. Verkefnin eru ærin. Við erum með atvinnumálin á okkar könnu sem og félagsmálin og tryggingamálin. Ég tel að það sé til fyrirmyndar hvernig við vinnum. Ég vil þakka samnefndarmönnum mínum sérstaklega fyrir þetta ánægjulega og góða samstarf og nefndarritaranum okkar að sjálfsögðu fyrir þolinmæðina og vel unnin störf. Ég vil að lokum skora á okkur öll að reyna að koma þessari hugsun og þessum vinnubrögðum yfir til fleiri þingmanna vegna þess að þó að við séum ekki alltaf sammála um alla hluti reynum við þó alla vega að ná lendingu. Ég tel að við sem sitjum í minni hluta í félags- og tryggingamálanefnd lítum ekki á okkur sitjandi í minni hluta nefndarinnar vegna þess að við höfum að mörgu leyti talsverð áhrif á hvaða málum er framfylgt og er það vel, vegna þess að málin eru af þeim toga.

Frú forseti. Ég lýsi yfir stuðningi mínum við þetta mál og mun greiða því atkvæði mitt.