139. löggjafarþing — 51. fundur,  17. des. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[12:34]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir afskaplega yfirgripsmikla og góða ræðu þar sem hún fór í gegnum fjölda atriða í þessu máli. Hún sagði að nefndin væri með þannig verkefni að nefndarmenn gætu unnið saman. Ég tek undir það að mjög gott samstarf hefur verið í þessari nefnd um mörg atriði en það byggir á því að stjórnarandstæðingar í nefndinni hafa hoppað upp úr hjólförunum og formaður nefndarinnar og stjórnarmenn í nefndinni hafa tekið við því. Það er ekkert sjálfgefið að formaður sé svo sveigjanlegur í afstöðu sinni að hann geti hugleitt hugmyndir sem hugsanlega eru ekki alveg í takt við frumvarpið o.s.frv. Ég vil því þakka hv. formanni nefndarinnar fyrir góða stjórn og mikinn sveigjanleika. Þetta mættu aðrar nefndir þingsins taka sér til fyrirmyndar og líka stjórnarandstæðingar í þeim nefndum, að hoppa upp úr hjólförunum, því að allar nefndir Alþingis eru nefnilega með þannig verkefni að þær ættu að geta sameinast um að gera þau betri.

Hv. þingmaður nefndi að beðið væri eftir frumvarpi um réttindagæslu frá ráðuneytinu. Í samræmi við þingsályktun sem samþykkt var í haust, 63:0, um sjálfstæði Alþingis, vil ég benda á að Alþingi gæti samið þetta frumvarp sjálft. Nefndin ætti að taka sér tak og semja bara frumvarpið sjálf og vera ekki að bíða eftir einhverju frá ráðuneytinu. Það var það sem ég var með athugasemd við, frú forseti, varðandi ræðu hv. þingmanns.