139. löggjafarþing — 51. fundur,  17. des. 2010.

fundarstjórn.

[14:48]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli forseta á þeirri yfirlýsingu sem farið var yfir í fjölmiðlum í hádeginu og hefur verið á netmiðlum eftir samþykkt hollenska þingsins í gærkvöldi. Þar var fullyrt að Íslendingar fari ekki eftir ákvörðun Alþjóðahvalveiðiráðsins um bann við hvalveiðum í atvinnuskyni og þjóðin gangi gegn CITES-sáttmálanum, sem er alrangt. Hollendingar verði að vera staðfastir í því að banna þá grimmilegu hegðun sem við sýnum með hvalveiðum okkar og gangi gegn alþjóðasamþykktum. Það segir einnig í þessari yfirlýsingu, virðulegi forseti, að Ísland geti aðeins fengið að ganga í ESB gegn því að stöðva hvalveiðar og viðskipti með hvalaafurðir þegar í stað.

Þetta eru að mínu viti mjög alvarleg skilaboð frá hollenska þinginu og setur ákveðna úrslitakosti í þær viðræður sem nú fara fram einmitt á þeim dögum eða tímum þegar fyrri rýnifundur sjávarútvegshópsins er með samningamönnum Evrópusambandsins. Ég sé ekki annað, virðulegur forseti, en að boða verði til sérstakrar umræðu um þetta mál í þinginu eða í það minnsta að utanríkismálanefnd fjalli um málið. Það hlýtur að vera mjög mikilvægt að samningamenn Íslands, sem akkúrat á þessum dögum (Forseti hringir.) eru í þessum viðræðum, hafi skýr skilaboð frá þinginu þar sem það áréttar fyrri vilja sinn um að hér verði stundaðar hvalveiðar og viðskipti með hvalaafurðir til framtíðar.