139. löggjafarþing — 51. fundur,  17. des. 2010.

fundarstjórn.

[14:51]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég tel að fundarstjórn forseta sé aðdáunarverð og það sé henni til stórkostlegs sóma að hún skuli ekki láta þessar ræður trufla frið sinn eða ró við fundarstjórnina. Ég vil hins vegar segja það, ef það mætti verða til þess að stilla til friðar í þessu máli, að ég hef alltaf fyrir Íslands hönd, frú forseti, haldið mjög sterkt á hvalveiðimálinu gagnvart Evrópusambandinu. Það kann hins vegar vel að vera að hv. þm. Jón Gunnarsson fylgist lítið með en þessi afstaða Evrópusambandsins er ekki að koma fram núna. Hún hefur komið fram mörgum sinnum áður. Því hefur alltaf verið svarað með sama hætti af íslenska ríkinu. Ég hef margsinnis verið spurður um þetta og ég hef aldrei gefið tommu eftir í þessu máli.

Hins vegar kann vel að vera að þeir séu orðnir svo hoknir til knésins, hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins, að þeir gefist bara upp fyrir fram. Það var ekki háttur þeirra en þeir eru kannski orðnir þannig. Er það svo að hv. þm. Árni Johnsen (Forseti hringir.) beygi af og fari næstum því að kjökra af því að menn í útlöndum steyta að honum hnefa? [Hlátrasköll í þingsal.] Öðruvísi mér áður brá.