139. löggjafarþing — 51. fundur,  17. des. 2010.

fundarstjórn.

[14:53]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég tek nú undir með hv. þm. Jóni Gunnarssyni að mér finnst að forseti eigi við fundarstjórn sína að reyna að koma því þannig fyrir að við getum rætt um hvalveiðimál á einhverjum vitlegum forsendum, ekki vegna þess að Hollendingar hafi á þeim einhverja skoðun heldur vegna þess að við eigum sjálf óuppgerð efni í þessu máli. Til dæmis selst ekki sá hvalur í Japan sem fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, Einar K. Guðfinnsson, lofaði fyrir tveimur árum að þar mundi seljast og hann hefur ekki fengið tækifæri hér, forseti, til að skýra út af hverju það gerðist ekki og af hverju hann heldur þó samt við stefnu sína. Ekki heldur hefur núverandi sjávarútvegsráðherra, sem ekki er hér staddur, fengið tækifæri til að skýra hvers vegna ekkert selst af þessum afurðum þó að þær séu veiddar ótæpilega í andstöðu við ekki Evrópusambandið heldur miklu frekar miklar hreyfingar sem við eigum samstöðu með í heiminum.