139. löggjafarþing — 52. fundur,  17. des. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[15:24]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Félags- og tryggingamálanefnd telur að málaflokkurinn verði í góðum höndum hjá sveitarfélögum og yfirfærslan muni stuðla að bættri þjónustu við fatlað fólk og auka tækifæri þess til virkrar samfélagsþátttöku og ábyrgðar.

Við hörmum þann takmarkaða tíma sem við fengum til að fjalla um málið en við munum fylgja því eftir af festu og eljusemi þegar frumvarp til laga um réttindagæslu fatlaðs fólks kemur inn í þingið 1. mars nk. og í haust þegar tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks kemur til kasta Alþingis. Þá munum við eiga reglulega upplýsingafundi með þeim samráðshópi sem á að tryggja að yfirfærslan fari fram eins og áætlanir gera ráð fyrir.

Ég styð þetta frumvarp og hvet allan þingheim til að sameinast um niðurstöðu þess og breytingartillögur rétt eins og félags- og tryggingamálanefnd hefur gert.