139. löggjafarþing — 52. fundur,  17. des. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[15:46]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Hv. formaður efnahags- og skattanefndar, Helgi Hjörvar, …

(Forseti (ÁI): Beina orðum sínum til forseta.)

Frú forseti. Ég biðst afsökunar á þessu, … sagði hér glaðhlakkalega að við ætluðum að hækka skatta. Hann nefndi líka að við hefðum verið að véla um þessi mál undir lúðrasveit eða tónum en hann gleymdi að geta þess að það var síðla kvölds og eiginlega undir nóttina sem þetta var gert. Þetta er náttúrlega allt eitt sama dæmið um það hversu skelfilega seint þessi mál komu fram en ég ætlaði nú ekki að ræða um það. Ég ætla að ræða um það að íslenska þjóðin þarf atvinnu, ég held að flestir séu sammála um það. Til þess að fá atvinnu þarf fjárfestingar, þær eru í hættulegu lágmarki. Til þess að skapa fjárfestingu þarf áhættufé eða lánsfé, ég held að menn séu sammála um það. Áhættufé líður fyrir hækkun á sköttum á hagnaði fyrirtækja, það minnkar hvata manna til að fjárfesta, og fjármagnstekjuskatti sem líka hefur áhrif á sparnað sem kemur svo fram í lánsfé.

Nú veit ég ekki hvernig er með hv. þingmann, hvort hann hafi fjárfest í hlutafélögum eins og 60 þúsund Íslendingar gerðu og töpuðu um 80 milljörðum. Það eru hinir svokölluðu fjármagnseigendur sem hafa allt sitt á þurru að sagt er.

Nú vil ég spyrja hann: Ef hann væri fjárfestir sem hefði tapað hlutabréfum og horfði upp á það að skatturinn á fjármagn væri hækkaður, skattur á fjármagnstekjur væri hækkaður úr 10% í 15, svo í 18 og svo í 20 og skattur á hagnað fyrirtækja væri hækkaður úr 15 í 18 og svo í 20%, hefði hann ekki litla trú á því að fara að fjárfesta eða spara? Og er ríkisstjórnin, sem hann nú styður, ekki kerfisbundið að vinna gegn því að hér á Íslandi skapist atvinna?