139. löggjafarþing — 52. fundur,  17. des. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[15:56]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 1. minni hluta efnahags- og skattanefndar um frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum.

Þetta frumvarp boðar þriðju skattahækkunarhrinu ríkisstjórnarinnar. Ef frumvarpið verður að lögum mun skattbyrði Íslendinga, heimila og fyrirtækja, hafa aukist um 60 milljarða á tæpum tveim árum, á sama tíma og ráðstöfunartekjur hafa minnkað.

Í frumvarpinu eru margar skattahækkanir og nýir skattar kynntir til sögunnar. Það vekur athygli að Íslendingar virðast ætla að fara þvert á það sem aðrar þjóðir sem verst hafa orðið úti í fjármálakreppunni hafa gert. Af því að hv. formaður efnahags- og skattanefndar nefndi sérstaklega skatt á hagnað fyrirtækja þá er vert að nefna þau ríki sem verst hafa orðið úti, Grikkland og Írland. Grikkir hafa nýverið tilkynnt að þeir muni lækka skatta á hagnað fyrirtækja og Írar hafa tilkynnt og auglýst í alþjóðlegum fjármálamiðlum að þeir muni ekki hækka skattprósentu þá sem er á hagnað fyrirtækja. Meira um það síðar.

Eitt er skattahækkanirnar sem við stöndum nú frammi fyrir, annað er forsendur tekjuhliðar fjárlagafrumvarpsins sem skattar eru partur af. Það er ljóst að þjóðhagslegu forsendurnar hvíla á hnífsegg, að hagvöxtur er mun lægri en spáð var þegar fjárlagafrumvarpið var gert, fjárfesting er til að mynda talin dragast saman um 10% frá því sem var þegar fjárlagafrumvarpið var skrifað, einkaneysla dregst saman frá því í sumar, forsendunum í sumar, útflutningur dregst saman o.s.frv. Innlenda eftirspurnin dregst saman um allt í allt 1,6% frá því í sumar.

Það sem vekur athygli er að þrátt fyrir að fjárfestingin dragist saman, öll innlenda eftirspurnin dragist saman og hagvöxtur sé minni er gert ráð fyrir að atvinnuleysi dragist saman um 1 prósentustig frá því í sumar. Þetta gerist þrátt fyrir að fjárfesting minnki gríðarlega. Enn meiri athygli vekur að kaupmáttur breytist óverulega og er það væntanleg vegna þess að mjög hagstæðar verðlagsforsendur eru í spánni, sem er gott ef það rætist. Allt rekst þetta einhvern veginn hvert á annars horn og erfitt er að sjá fyrir sér að þjóðhagsspáin rætist og að forsendur fjárlagafrumvarpsins haldi að því leytinu til eða tekjuhlið hennar, enda er það staðfest af alþjóðastofnunum sem hafa spáð. OECD, Efnahags- og framfarastofnun Evrópu, er til að mynda mun svartsýnni á hagvöxt en Hagstofa Íslands. Þar spá þeir 1,5% hagvexti á næsta ári, sem leiðir til þess að tekjur ríkissjóðs eru að mati OECD ofmetnar um 15 milljarða. Þá spáir Evrópusambandið því að hagvöxtur verði einungis 0,7% á næsta ári og ef sú spá rætist, sem er reyndar í samræmi við það sem t.d. greiningardeild Íslandsbanka hefur spáð, er ljóst að ástandið í ríkisfjármálunum verður skelfilegt. Það mun leiða til þess að skatttekjur ríkissjóðs geta verið ofmetnar um allt að 27 milljarða.

Ef við snúum okkur að einstökum sköttum er ætlunin að hækka skattbyrðina um 11,1 milljarð á næsta ári, þ.e. í beinum sköttum. Síðan eru gjöld og hækkanir umfram verðlagsforsendur sem ég mun fjalla um á eftir. Eins og ég sagði áðan mun skattbyrðin í þeim þremur hrinum skattahækkana sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir leiða til um 60 milljarða þyngri skattbyrði.

Fjármagnstekjur. Lagt er til að skattur á fjármagnstekjur hækki úr 18% í 20%. Áætlað er að það muni leiða til 1.500 milljóna aukningar í tekjum fyrir ríkissjóð. Þetta er þriðja hækkunin á örskömmum tíma. Eitt af þeim grundvallarlögmálum sem við viljum fylgja þegar við erum í skattkerfisbreytingum er að hækka ekki skatta of ört vegna þess að það eykur óvissu og leiðir til þess að skattstofnar og fjárfestar bregðast við á hátt sem menn sjá ekki fyrir. Sá galli er á fjármagnstekjuskatti að hann er lagður á nafnávöxtun fjármagns, þ.e. raunvexti að viðbættri verðbólgu. Í hárri verðbólgu leiðir það til þess að höfuðstóllinn rýrnar. Ef verðbólga er t.d. 20%, svona til að ná fram áhrifunum, og raunvextir 1% þá leiðir 20% fjármagnstekjuskattur til þess að höfuðstóllinn rýrnar um 2,53% að raunvirði. Sú rýrnun minnkar eftir því sem verðbólgan er lægri, en hækkar að sama skapi eftir því sem hún er hærri. Skattkerfið sem við búum við með fjármagnstekjur leiðir því til upptöku höfuðstóls sem einhverjir gætu spurt sig hvort hyggju í eignarréttinn eða eignarréttarákvæði stjórnarskrár.

Frú forseti. Ég er eiginlega alveg ruglaður í hvað tíma mínum líður.

(Forseti (ÞBack): Hv. þingmaður á eftir rúmar 20 mínútur af ræðu sinni. Klukkan í borðinu er ekki rétt, en hún mælir þó tímann. Þannig að þegar hún sýnir 33 mínútur er tími hv. þingmanns uppurinn.)

Þakka þér fyrir, frú forseti.

Jafnframt leiða miklir fjármagnsskattar til þess að þjóðhagslegur peningalegur sparnaður minnkar vegna minni arðsemi sem aftur leiðir til hægari uppbyggingar á fjármagnsstofni en ella og þar af leiðandi minni hagvaxtar og þar með fer grunnurinn undan ríkissjóði. Háir skattar á fjármagnstekjur leiða einnig til þess að sparifjáreigendur flýja með sparifé sitt í eignir sem ekki eru skattlagðar eða liggja utan hefðbundinna markaða, oft þá á svartamarkaði. Ef skattar á fjármagn verða háir hér á landi miðað við erlendis skapast sú hætta þegar gjaldeyrishöft verða afnumin að þrýstingur á flæði úr landi aukist og þar af leiðandi verði það erfiðleikum háð að afnema gjaldeyrishöft.

Tekjuskattar lögaðila. Lagt er til að þeir verði hækkaðir í annað sinn á rétt rúmu ári, úr 15% í 18% fyrir ári og núna í 20%. Þessi endurtekna hækkun leiðir eins og áður er nefnt til aukinnar óvissu. Líkt og ég sagði áðan er þetta þvert á viðbrögð þeirra þjóða sem skilja að ekki er hægt að skattleggja sig úr kreppu. Írar hafa þannig lýst yfir að ekki komi til greina að hækka tekjuskatt fyrirtækja, en hann er nú 12% þar í landi. Þeir hafa þvert á móti gefið út þær yfirlýsingar alþjóðlega að þeir muni halda þessum sköttum föstum í þeirri von að laða að erlent fjármagn. Þá hyggjast Grikkir lækka tekjuskatt fyrirtækja til að laða að erlent fjármagn og halda því sem er í landinu, en meðaltalshlutfall fyrirtækjaskatta í Evrópusambandinu er nú 23,5%. Með því að hækka tekjuskatt á fyrirtæki eins og fyrirhugað er færast Íslendingar nær því sem gengur og gerist í Evrópu og þar með missa þeir það forskot sem þeir hafa haft hvað varðar skattalegt hagræði. Þetta mun hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir erlenda fjárfestingu og lýsir í raun þeirri helför sem ríkisstjórnin er í þegar kemur að skattamálum.

Til þess að lýsa betur hvað gerist þegar skattar eru hækkaðir höfum við nefndarmenn í 1. minni hluta gert útreikninga á áhrifum þessara hækkana. Útreikningarnir sýna að með því að notfæra sér samband verðmætis hlutafjár og tekjuskatts á hagnað fyrirtækja er hægt að leiða fram að hækkun tekjuskatts úr 10% í 20% leiðir til þess að verðmæti hlutafjár lækkar um 11%. Ef fjármagnstekjuskatturinn er síðan hækkaður úr 15% í 20% lækka hlutabréf vegna þess um 5% til viðbótar. Þannig að hækkun á tekjusköttum fyrirtækja og á fjármagnstekjuskatti lækkar því verðmæti hlutafjár um 16%. Þetta er algjörlega óháð því hvort fyrirtækin eru á markaði eða hvort þau eru stór eða lítil. Arðsemi þeirra minnkar einfaldlega við að hækka þessa tvo skatta og minni arðsemi leiðir til þess að menn fjárfesta síður í hlutafé og fara síður út í áhætturekstur, sem þýðir að umsvif í atvinnulífinu aukast síður, sem þýðir að hagvöxtur verður minni, sem þýðir að lífskjör verða minni, sem þýðir að undirstöður ríkissjóðs verða veikari, sem þýðir að velferð í landinu minnkar til langs tíma litið.

Þetta er skattstefna ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Sú skattstefna er það sem ég og félagi minn í efnahags- og skattanefnd, hv. þm. Pétur H. Blöndal, höfum kosið að kalla helför ríkisstjórnarinnar.

Allt er þetta þannig að ef hlutir eru settir í samhengi þá endurspeglast niðurstaðan í því hvort verið er að gera rétt eða rangt.

Það er hægt að orða þetta öðruvísi. Það er orðað öðruvísi í umsögn Deloitte, endurskoðunarfyrirtækisins, þar sem kemur fram að talið sé ganga gegn hagsmunum fyrirtækja að auka skattbyrði þeirra með neikvæðum ávinningi. Fyrirtæki sem að öðrum kosti eru tilbúin til að fjárfesta hérlendis — og við skulum alltaf hafa í huga að fjárfesting í vélum, tækjum, húsnæði og öðru slíku þýðir alltaf fjárfestingu í störfum. Við getum því alltaf sett samhengi þar á milli. Óstöðugt skattumhverfi og of mikil skattbyrði eykur kostnað fyrirtækjanna og takmarkar fjárfestingargetu þeirra til þátttöku í nýjum verkefnum og gerir fjárfestingarumhverfið ekki gott, hvorki fyrir innlenda né erlenda aðila. Þetta er sagt á endurskoðunarmáli og er nákvæmlega það sem við vorum að segja og kom fram hér á undan, nema við sýndum fram á að þessi 33% hækkun á sköttum fyrirtækja leiðir til þess að umsvifin í hagkerfinu minnka.

Þá erum við komin að auðlegðarskattinum. Fyrsti skattur Íslandssögunnar var skattur á eignir fólks, sá skattur var kallaður tíund eins og við þekkjum og fylgdi töku kristinnar trúar hér á landi. Rúmum þúsund árum síðar var þessi skattur á eignir fólks lagður af, nánar tiltekið árið 2004. Skatturinn var aftur lagður á í fyrra og vafinn í nýjar umbúðir og nefndur auðlegðarskattur, hljómar kannski betur en tíund. Skatturinn var ákvörðuð prósenta þar sem eignamörk voru tiltekin, en nú á bæði að hækka skattprósentuna og lækka eignamörkin. Ekki nóg með að þeir sem áttu eignir yfir fyrrgreindum mörkum borgi nú hærri skattprósentu heldur munu mun fleiri borga skattinn vegna þess að eignamörkin hafa verið lækkuð úr 120 milljónum niður í 100 milljónir hjá hjónum. Það munu því mun fleiri borga þennan skatt. Áætlað er að í kringum 1.500 milljónir komi til vegna hækkunar skattsins og lækkunar eignamarkanna.

Eignarskattur er ólíkur öðrum sköttum að því leyti, eins og nafnið bendir til, að hann leggst á eignir fólks, ekki tekjur. Hægt er að segja að skatturinn sé nánast ígildi eignaupptöku og því er hann talinn skerða eignarréttarákvæði stjórnarskrár, enda lögðu stjórnvöld í Þýskalandi og Svíþjóð nýverið eignarskattinn af með þeim rökum að annars ógnuðu þau lögvörðum réttindum borgara landanna. Ísland er núna eitt þriggja ríkja sem leggur á þennan skatt.

Eignarskattar hafa verið á undanhaldi í Evrópu undanfarna áratugi. Ástæðan er ekki eingöngu sú ósanngirni sem er talin vera í skertum eignarrétti heldur leiðir þessi skatttegund einnig til fjármagnsflótta. Nýleg dæmi eru um að efnaðir Íslendingar flytji til Sviss eða Lúxemborgar en þar eru ekki lagðir á eignarskattar, auk þess sem efnaðir einstaklingar geta samið um skatta sína í Sviss. Tæplega 1% þeirra sem greiddu auðlegðarskatt síðast flutti heimilisfesti sína fyrstu 11 mánuði ársins úr landi, að vísu er það lægra hlutfall en flutti frá Íslandi þegar íbúafjöldinn í heild er skoðaður. En frá tekjuöflunarsjónarhóli er efnaður einstaklingur mun verðmætari en fátækur því að hann borgar hærri skatta. Hér er því um alvarlega þróun að ræða. Auk þess munu nýboðaðar skattahækkanir eflaust leiða til þess að enn fleiri efnaðir einstaklingar hrekjast úr landi og þar af leiðandi mun tekjugrunnar ríkissjóðs dragast enn frekar saman.

Erfðafjárskatt á að hækka úr 5% í 10%. Það mun að öllum líkindum leiða til þess að einhverjir munu kjósa að greiða út fyrir fram greiddan arf til erfingja sinna fyrir gildistöku skattsins og reyna þar af leiðandi að sleppa undan þessari skattahækkun. Í umsögn Viðskiptaráðs kemur fram að skatturinn sé ósanngjarn vegna þess að þegar hafi verið greiddur skattur af því fé sem erfðafjárskatturinn nær til og því sé í raun um tvísköttun að ræða.

Þá kemur að áfengis- og tóbaksgjaldi og vörugjaldi á áfengi og tóbak. Þar hefur verið gerð merkileg tilraun. Hún er merkileg fyrir það að skattur á tóbak og áfengi var hækkaður og — ég get tekið nákvæmt dæmi um hækkun á tóbaki vegna þess að ég er með dæmið í nefndarálitinu: Þann 1. janúar var skattur á tóbak hækkaður um 10%. Helstu rökin fyrir hækkuninni voru þau að það þyrfti að stoppa í fjárlagagatið. Að vísu voru einhverjir með þau rök að þetta væri gert af lýðheilsulegum ástæðum. Öll getum við verið sammála um að æskilegt sé að fólk reyki ekki og jafnframt getum við eflaust mörg sameinast um það sjónarmið að ekki sé rétt að hafa þá synd okkar mannanna að féþúfu. En rökin fyrir þessari 10% hækkun voru samt sem áður þau að stoppa þyrfti í fjárlagagatið. Tóbaksgjaldið var hækkað um 10% og núna eftir 11 mánuði sýna sölutölur ÁTVR að salan hefur minnkað um 12,8%. Það er vel út frá lýðheilsulegu sjónarmiði, eins og ég talaði um áðan. En ef við tölum um ástæðuna fyrir hækkuninni og ástæðuna fyrir þeirri hækkun sem nú er boðuð þá er hér sögu að læra: Þegar skattar eru hækkaðir er gríðarlega mikilvægt að gera sér grein fyrir verðteygni eftirspurnar þegar verð vöru og þjónustu sem keypt er á frjálsum markaði er ákvarðað. Þegar verð er hækkað þá dregur fólk bæði saman neyslu sína og/eða leitar í staðkvæmdarvörur. Af staðkvæmdarvörum er best að líta til sölu á sterku víni. Sala á vodka hefur t.d. dregist saman um 20% eftir miklar verðhækkanir. Nú kostar flaska af vodka á bilinu 6.000–7.000 kr., en aftur á móti kostar staðkvæmdarvaran, sem það fólk sem ekki er tilbúið til að draga saman neyslu sína á hreinum vodka getur leitað í, landinn, í kringum 2.000–2.500 kr. á svörtum markaði. Samkvæmt upplýsingum sem við fengum í nefndinni er það mun hollari vara en vodkinn. Það er nú kannski annað mál. Aftur að tóbakinu: Þessi 10% hækkun á tóbaki hefur leitt til þess að salan hefur dregist saman um rúm 12%. Innheimt tóbaksgjald af sígarettum hefur lækkað um 74 milljónir. Virðisaukaskattur af sölu á sígarettum hefur lækkað um 124 milljónir. Virðisaukaskattur á smásölu á sígarettum hefur lækkað um 35 milljónir. Hagnaður innflytjenda hefur minnkað um 41 milljón, af því er tekjuskatturinn 7,4 milljónir. Hagnaður smásala af sölu á sígarettum hefur lækkað um 137 milljónir, sem leiðir til lægri tekjuskatts upp á 24,6 milljónir. Samtals leiddi hækkun tóbaksgjalds um 10% til þess að tekjur ríkissjóðs drógust saman um 413 milljónir — 413 milljónir. Þannig er hækkun tóbaks í því skyni að stoppa í fjárlagagatið aðgerð sem gengur ekki. Við höfum dæmið. Við höfum það í nefndarálitinu og ekki er hægt að hrekja það. Við getum á sama tíma sagt að út frá lýðheilsulegu sjónarmiði fögnum við þessari þróun en við erum ekkert að tala um það. Við í efnahags- og skattanefnd tölum um krónur og aura og hvernig eigi að reka ríkissjóð.

Kolefnisgjaldið er hækkað um 50%. Í umsögn Samtaka atvinnulífsins kemur fram að það geti skert samkeppnisstöðu okkar. Þá er bensín-, olíu- og kílómetragjald hækkað. Talið er óhjákvæmilegt að það renni út í verðlagið og leiði til hækkunar og dýrara verði að reka heimilisbílinn.

Útgreiðsla séreignarsparnaðar er framlengd. Það getur verið ágætiskostur en menn verða að gera sér grein fyrir því að það að nota sparnað á þann kerfisbundna hátt að halda uppi neyslu er ekki sjálfbært til framtíðar, auk þess sem óheppilegt er að ganga svo á sparnað, langtímasparnað fólks sem lífeyrissparnaðurinn er, enda segir í umsögn Félags atvinnurekenda að mun heppilegra hefði verið að leggja skatt á greiðslur, inngreiðslur séreignarsparnaðar, en að gera þetta.

Vaxtabætur. Ég fagna því hvað hefur verið gert hér í vaxtabótum, annars vegar að draga til baka þær skerðingar sem áttu að verða og auk þess að taka upp nýtt vaxtabótakerfi eða vaxtabótaaukakerfi sem nemur um 6 milljörðum. Það mun koma skuldugum heimilum mjög til hjálpar.

Almennt um krónutöluhækkun skatta í frumvarpinu og í fjárlagafrumvarpinu í heild sinni. Er þar gert ráð fyrir því að verðlag hækki almennt um 4%. Spáin gerir ráð fyrir því að verðlag muni hækka um 2,3% á næsta ári, því er um 1,7% raunhækkun að ræða á öllum þessum gjöldum, þá er ég ekki að meina útgjöldum heldur gjöldum á tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins, sem þýðir beina skattahækkun eða beinar auknar byrðar á landsmenn. Jafnframt segir Alþýðusambandið að tillögur frumvarpsins muni lækka ráðstöfunartekjur heimilanna um 1%. Það er því ekki rétt sem kemur fram í frumvarpinu að þær lækki einungis um 0,5%.

Að lokum vil ég vísa í efnahagstillögur Sjálfstæðisflokksins þar sem við sýnum fram á að þriðja skattahækkunarhrinan var óþarfi. Það var óþarfi að hækka skattbyrði heimila og fyrirtækja eða leggja 60 milljarða til viðbótar á heimili og fyrirtæki. Það var óþarfi að hanna skattkerfið á þann hátt að það drægi úr efnahagsstarfseminni, minnkaði ráðstöfunartekjur fyrirtækjanna, dýpkaði kreppuna og lengdi og lengra yrði í að við næðum aftur þeim lífskjörum sem við bjuggum við fyrir kreppu.

Þetta eru afleiðingar skattstefnu ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.